Róið í kjölfar forfeðranna

Fyrir rúmlega 1100 árum komu fyrstu landnámsmenn til Íslands yfir Atlantshafið. Það hefur verið mikið afrek enda yfir erfitt haf að fara og allt annað en sjálfgefið að ná landi eftir að ýtt er úr vör. Víkingarnir voru miklir landkönnuðir og góðir skipasmiðir og það skapaði grunninn að því að landnám norrænna manna hófst á Íslandi. Þetta er heillandi saga og einstök í heiminum. 

Í sumar ákváðu nokkrir Íslendingar að róa í kjölfar forfeðra okkar frá Noregi til Orkneyja og þaðan til Færeyja og loks Íslands. Leiðangrinum er ekki lokið því róðrarbátnrinn Auður djúpúðga er með vetursetu í Færeyjum vegna veðurs. Þessi forna siglingaleið var í fyrsta skipti í sögunni svo vitað sé róin, án segla, vélarafls eða fylgdarbáts. Sjóleiðin er löng og hættuleg og margt fór úrskeiðis og öðruvísi en ætlað var enda bæði Norðursjórinn og Atlantshafið ekki beint staður fyrir litla árabáta. Náttúruöflin létu finna fyrir sér og líklega var Auður sjálf að fylgjast með okkur að handan.   

Í hverri höfn var saga hinna íslensku Víkinga rifjuð upp og skipst var á fánum og gjöfum við yfirvöld á hverjum stað til að undirstrika hina sameiginlegu sögu og vináttu þjóðanna. Viðtökur vinaþjóða okkar á þessu framtaki voru vonum framar og alls staðar algjörlega frábærar og róðurinn fékk gríðarlega athygli. En það að róa yfir tvö úthöf er risavaxið verkefni, hættulegt og allt annað en auðvelt frá fyrsta degi. Þetta var ævintýri með öllu sem fylgir, lífshættu, pirringi, ágreiningi, svefnleysi, óánægju, virðingu, sigri og vináttu. 

Þessi fyrirlestur er saga af nútíma Íslendingum sem náðu markmiðinu um að verða fyrstir til að þvera Norðursjóinn frá Noregi til Orkneyja og þaðan til Færeyja og rifjuðu upp og heiðruðu sögu þeirra sem fyrstir byggðu land okkar. 

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |