Skipulag námsins


Samskiptastílar fólks - 4 klst.
Lagt verður fyrir Myers Briggs persónuleikaprófið sem er mest notaða prófið sinnar tegundar í heiminum. Prófið tekur á því að þó að við séum mjög lík þá erum við öll einstök. Munurinn sem er á okkur veldur því m.a. að okkur gengur misjafnlega að ná til sumra en annarra. Lykilatriði er að skilja hvernig við höfum samskipti. Það auðveldar öll samskipti að vita hvernig fólk hegðar sér og af hverju það gerir það sem það gerir. Á námskeiðinu svara þátttakendur stuttum spurningalista, fluttur er fyrirlestur um kenninguna og farið er í æfingar sem draga fram mismuninn milli einstaklinganna. 

Árangursþættir og sjálfsmat - 4 klst.
í öðrum hlutanum er farið í greiningu á þeim atriðum í stjórnun fólks sem eru mikilvæg til að ná árangri. Þátttakendur greina árangursþættina og leggja mat á eigin getu út frá þeim. Unnið verður í tveggja manna hópum og niðurstöður ræddar sameiginlega. Þátttakendur setja sér persónuleg markmið byggt á þeim upplýsingum sem fram koma í greiningunum. Markmiðin verða metin nokkrum sinnum á námstímanum eftir þörfum.

Að koma fram af sjálfsöryggi - 2 x 4 klst.
Á námskeiðinu auka þátttakendur færni sína í að koma fram af öryggi fyrir framan hóp af fólki og treysta á eigið ágæti. Þeir öðlast betri skilning á eigin kvíðaviðbrögðum og læra að stjórna sviðsskrekk og ótta. Farið er í framkomu og tjáningu, samspil ræðumanns og umhverfis, ótta og öryggi, að ná og halda athygli og kvíðavekjandi og sjálfsstyrkjandi hugsanir. Þátttakendur halda ræður og fá endurgjöf á framkomu sína frá þjálfara og öðrum þátttakendum.

Tímastjórnun - 4 klst.
Á námskeiðinu fá þátttakendur innsýn í hvernig þeir verja tíma sínum í dag og læra að forgangsraða verkefnum. Farið er í mikilvægi þess að skapa tíma fyrir mikilvægustu verkefnin með góðri skipulagningu og takast á við truflanir af ýmsum toga, eins og símtöl og tölvupóstinn. Tekin eru fyrir atriði eins og algengir tímaþjófar, frestun, skipulagning og áætlanagerð, fundir og fundarstjórn, að segja nei, jákvætt hugarfar og sjálfsstjórn.

Markmiðasetning - 4 klst.
Á námskeiðinu er farið í áhrifaríkar leiðir til að setja sér markmið. Þátttakendur ljúka námskeiðinu á því að hagnýta þær aðferðir sem kenndar eru með því að setja sér skrifleg markmið. Markmiðin setja þeir í umslag, sem þeir fá síðan sent sex vikum eftir námskeiðið.

Stjórnunarkenningar - 4 klst.
Á námskeiðinu er fjallað um hlutverk og ábyrgð stjórnandans. Þátttakendur svara spurningalista sem segir til um stjórnunarstíl þeirra. Farið er í hlutverkaþjálfun (role-play) þar sem mismunandi stjórnunarstílar eru æfðir eins og að beita mikilli stýringu, ráðgefandi stjórnunarstíl og felandi stjórnunarstíl (delegation). Stuðst er við dæmi sem þátttakendur eru að glíma við í daglegu starfi.

Samtalstækni stjórnenda - 4 klst.
Samtalið er aðalform samskipta og það hversu góð við erum í að beita þeirri tækni segir mikið til um þann árangur sem við náum í samskiptum við fólk. Samtalstækni er eitthvað sem allir stjórnendur þurfa að á að halda. Stór hluti þess sem fólk telur að sé erfitt í starfi þess varðar atriði sem á einn og annan hátt tengjast samskiptum, t.d. að fá fólk til að skilja það sem sagt er, hlusta á það sem fólk meinar en segir ekki, skilja ekki hvað sagt er, vera of viðkvæmur fyrir gagnrýni og heyra því ekki það sem sagt er heldur túlka útfrá tilfinningum.

Á námskeiðinu er farið í helstu atriði samtalstækni. Þátttakendur taka þátt í hagnýtum æfingum þar sem þeir tileinka sér aukna samtalsfærni.

Starfsmannasamtöl og frammistöðuviðtöl - 4 klst.
Það er nauðsynlegur hluti stjórnunar að stjórnandi og stafsmaður gefi sér tíma til að ræða á uppbyggilegan og hreinskilinn hátt um hvernig gangi. Í formlegum starfsmannasamtölum er farið yfir málin á skipulagðan hátt. Þau atriði sem eru rædd eru m.a. upplifun starfsmannsins í vinnunni, starfsánægja, frammistaða, stjórnun, starfið sjálft, samskipti og líðan á vinnustað, markmið og hvaðeina annað sem stjórnandi og starfsmaður telja að þurfi að ræða. 

Gildi starfsmannasamtala er ótvírætt en það er eins og með margt annað, það er ekki sama hvernig þau eru framkvæmd. Frammistöðumat er viðkvæmt ferli sem mjög mikilvægt er að standa vel að. Á námskeiðinu verður farið í algeng vandamál sem upp koma við framkvæmd starfsmannasamtala þ.m.t. mat á frammistöðu.  

Ráðningar – að velja rétta fólkið - 6 klst.
Á námskeiðinu er farið yfir helstu atriðin varðandi ráðningar þ.e. starfsgreiningu, leit að umsækjendum, forval, ráðningarviðtalið og ákvörðunartökuna sjálfa. Fjallað er um aðferðafræðina í viðtalinu sjálfu, undirbúninginn, samtalstækni og spurningar. Sérstök áhersla er lögð á að komist að því á áreiðanlegan hátt hvernig umsækjandi hefur staðið sig á þeim þáttum sem skipta máli varðandi árangur í því starfi sem ráðið er í. Farið er yfir helstu mistök í ráðningarviðtölum eins og ályktunarvillur. Þátttakendur fá ítarlega þjálfun í framkvæmd ráðningarviðtala.

Erfið starfsmannamál og uppsagnir - 2 x 4 klst.
Það eru nokkur stjórnunarleg verkefni sem flestir stjórnendur eiga í erfiðleikum með að framkvæma. Eitt þeirra er að ræða ófullnægjandi frammistöðu við starfsmenn og annað  er að færa slæm tíðindi eins og þegar starfsmaður fær ekki stöðuhækkun eða er sagt upp störfum. Bæði verkefnin vekja upp miklar viðkvæmar tilfinningar hjá viðmælandanum og reyna á stjórnunarfærni stjórnandans.  Á námskeiðinu er ferli aðgerða skipt í þrjú stig sem er í fyrsta lagi óformlegt frammistöðuviðtal, í öðru lagi formlegt frammistöðuviðtal og í þriðja lagi uppsagnarviðtal/tilfærsla. 

Lok námsins, mat á árangri og framtíðin - 4 klst.
Lokaskrefið í stjórnendaþjálfuninni er tvíþætt, annarsvegar að horfa til baka yfir þau markmið sem sett voru í upphafi námsins. Renna yfir öll skrefin í náminu og hver og einn dregur fram það sem hann lærði og gerir grein fyrir því ásamt árangri markmiðanna. Hinsvegar verður horft fram á veginn. Hver og einn horfir fram á veginn út frá sjálfum sér og býr til eigin framtíðarsýn og skráir hana niður. Óvænt uppkoma verður í lokin og náminu verður lokað með góðri kvöldmáltíð á góðum stað. 

Verkefnavinna:
Hver og einn þátttakandi velur að minnsta kosti 2 fræðibækur til að lesa og kynna fyrir öðrum þátttakendum. Hvaða bækur verða valdar er alveg í höndum hvers og eins en efnið verður á einhvern hátt að varða stjórnun fólks.  

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |