Sjálfsvirðing mikilvægari en flest annað

Sjálfsvirðing mikilvægari en flest annað

Ingrid Kuhlman

Eitt það mikilvægasta sem hver einstaklingur á er sjálfsvirðingin. Rannsóknir sýna að mikilvægi hennar er meira en flest annað þegar á reynir.

Einkenni sjálfsvirðingar
Sjálfsvirðing er að vera andlega reiðubúinn til að upplifa sjálfan sig sem persónu sem er í stakk búin til að takast á við helstu áskoranir lífsins. Sjálfsvirðing byggist á tveimur þáttum: trú á eigin getu og sjálfstraust. Trú á eigin getu er trú á skilvirkni hugarins, trú á hæfni sína til að hugsa, læra, taka réttar ákvarðanir og bregðast við breytingum á skilvirkan hátt. Sjálfstraust er sú upplifun að eiga skilið árangur, velgengni, vellíðan, ánægju og hamingju. Sjálfstraust þýðir að maður þorir að nota eigin persónu og gefa af sjálfum sér. Að treysta öðrum fyrir sér, standa með sjálfum sér og nýta það besta sem manni er gefið. Fólk með sjálfsvirðingu nær árangri og nýtur hans. Það er sanngjarnt, raunveruleikatengt, skapandi, sjálfstætt, sveigjanlegt, á auðvelt með að takast á við breytingar, þorir að viðurkenna mistök og sýnir hjálpsemi.

Innri venjur sem byggja upp sjálfsvirðingu
Samkvæmt Nathaniel Branden, höfundur bókarinnar Self-Esteem at Work og einn af uppáhaldshöfundum stjórnendagúrúsins Warren Bennis, þurfum við á eftirfarandi sex innri venjum að halda ef við ætlum að byggja upp sjálfsvirðingu:

1. Að lifa meðvitað.
Að virða staðreyndir, vita hvað við gerum og gera það á meðvitaðan hátt. Að leita að og vera opinn fyrir upplýsingum, þekkingu og viðbrögðum sem geta skipt máli fyrir áhugamál okkar, gildi, markmið og áætlanir. Að reyna að skilja ekki aðeins heiminn fyrir utan heldur einnig okkar innri heim þannig að við séum ekki blind fyrir okkur sjálfum. Að rækta þessa meðvitund getur tekið á vegna þess að sannleikurinn getur stundum verið ógnvænlegur eða sár og freistandi að loka augunum fyrir honum.

2. Að viðurkenna sjálfan sig.
Að vera reiðubúinn til að viðurkenna og samþykkja eigin hugsanir, tilfinningar og aðgerðir og bera ábyrgð á þeim, án þess að afneita þeim, forðast eða hafna, og einnig án þess að hafna sjálfum sér. Að leyfa sér að hugsa þessar hugsanir, upplifa þessar tilfinningar og skoða aðgerðir sínar án þess að þurfa að finnast þær ánægjulegar, og án þess að dæma þær eða fægja. Þegar við viðurkennum sjálf okkur höfum við ekki tilfinninguna að það sé stöðugt verið að leggja mat á okkur, sem leiðir til þess að við þurfum ekki að verja okkur. Það gerir okkur jafnframt kleift að hlusta á hugmyndir annarra og gagnrýni þeirra án þess að fara í vörn eða bregðast harkalega við. Þetta er spurning um að vera opinn fyrir því sem maður hefur hugsanlega enga ánægju af.

3. Sjálfsábyrgð.
Að gera sér grein fyrir því að að við sjálf sköpum og höfum áhrif á okkar val og aðgerðir. Að við berum ábyrgð á okkar lífi og vellíðan og á því að ná settum markmiðum. Að við þurfum á öðrum að halda til að ná þessum markmiðum og að við þurfum að leggja eitthvað af mörkum til þess. Að það er aldrei spurning um hverjum sé um að kenna heldur frekar um hvað þurfi að gera.

4. Sjálfsstyrkur.
Að vera sannur og trúr í samskiptum við aðra, að umgangast eigin gildi og sjálfan sig með virðingu. Að neita að gefa ranga mynd af því hver við erum og fyrir hvað við stöndum til þess eins að forðast höfnun annarra. Að vera tilbúinn til að verja sjálfan sig og sínar hugmyndir og ekki reyna að þóknast öðrum eða hegða sér þannig að öllum líki vel við mann. Sjálfsstyrkur er að hafa kjark til að vera það sem við erum og hafa í heiðri það sem við stöndum fyrir.

5. Skýr markmiðasetning.
Að ákveða markmið til skemmri og lengri tíma ásamt þeim skrefum sem þarf að taka til að gera markmiðin að raunveruleika. Að gera það sem í okkar valdi stendur til að ná markmiðunum, sjá til þess að við stefnum ávallt í rétta átt og veita árangrinum athygli. Skýr markmið skipta miklu máli ef við viljum hafa tilfinninguna að við höfum stjórn á eigin lífi. Markmið og fyrirheit gefa lífi okkur stefnu. Að setja markmið er að ákveða hvaða árangri við viljum ná. Rannsóknir sýna að þeir sem ná miklum árangri í lífinu vita hvað þeir vilja, m.ö.o. vita á hvaða mark þeir miða.

6. Persónuleg heilindi.
Að lifa þannig að það sé samræmi milli þess sem þú veist, þess sem þér finnst og þess sem þú gerir. Að segja sannleikann, standa við gefin loforð og vera heiðarlegur í umgengni. Að láta gildin, það sem okkur finnst skipta máli, endurspeglast í aðgerðum okkar. Heilindi eru uppspretta sjálfsvirðingar en einnig tjáning á sjálfsvirðingu.

Birtist í Viðskiptablaðinu 4. apríl 2002.

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |