Þegar vinnan tekur yfir...

Ingrid Kuhlman 


Margir starfsmenn verja mörgum klukkutímum í erfiðu og streituvaldandi starfi og hörfa til síns heima ekki til að fá hvíld og andlega næringu heldur til að fela sig og tjá óánægju sína eftir ömurlegan dag. Þeir eru sammála þeirri klisju að árangur útheimtir erfiði og fórnir og að hann fari yfirleitt á kostnað einkalífsins.

Það sem ræður því hversu mikil áhrif vinnan hefur á einkalífið er fyrst og fremst þær neikvæðu tilfinningar sem vakna í vinnunni. Þegar starfsmaður finnur fyrir spennu, áhyggjum, ótta, efasemdum eða miklu álagi er hann líklegur til að fara með þá tilfinningu heim og hún gerir hann andlega óhæfan til að lifa innihaldsríku einkalífi. Hann er annars hugar, taugaspenntur og fljótur upp og heimilið er þá ekki staður til að sinna einkalífinu heldur staður til að hvíla sig, slaka á og hlaða batterín til að lifa næsta daginn af. Starfsmaður sem er óánægður í starfi er ekki mjög líklegur til að upplifa ánægju heima hjá sér.

Almennt eru þrjár ástæður fyrir neikvæðum áhrifum starfsins á einkalífið: 1) Erfiðleikar við að takast á við nýtt starf, 2) Að vera ekki í réttu starfi og 3) Vonbrigði hvað varðar starfsframa.

1. Erfiðleikar við að takast á við nýtt starf
Að byrja í nýju starfi eftir stöðuhækkun, tilfærslu eða flutning hefur alltaf í för með sér ákveðna spennu og tímabundin neikvæð áhrif á einkalífið. Það tekur tíma og orku að setja sig inn í nýtt starf, byrja í nýju fyrirtæki, kynnast nýju samstarfsfólki og yfirmönnum o.s.frv.

2. Að vera ekki í réttu starfi
Ósamræmi milli einstaklingsins og starfsins er næst algengasta ástæða neikvæðra áhrifa. Starfsmaður sem finnur sig ekki í því sem hann er að gera eða skortir hæfileika eða áhuga upplifir mikla innri spennu auk ótta við að mistakast. Í versta tilfelli er hann ekki nógu hæfur í því sem hann er að gera, upplifir ekki ánægju af starfinu og finnst það vera í ósamræmi við eigin gildi.

Skortur á hæfni er þegar starfsmaður hefur gaman af starfinu en finnst hann ekki ráða almennilega við það. Hann á erfitt með að taka ákvarðanir og er með stöðugar áhyggjur af því að allt muni fara úrskeiðis. Þessi óöryggistilfinning hefur neikvæð áhrif á starfsánægjuna, dregur úr sjálfstrausti og hefur neikvæðar afleiðingar fyrir einkalífið.

Skortur á ánægju er þegar starfsmaður er hæfur í því sem hann er að gera og stoltur af því en upplifir ekki ánægju af starfinu. Þetta gerist oft þegar fólk er of lengi á sama vinnustað eða í sama starfi og upplifir ekki lengur áskorun, en einnig þegar fólk hefur of mikið að gera.

Gildin samræmast ekki. Þegar starfsmaður hefur gaman af starfinu og upplifir sig hæfan en ekki stoltur af því sem hann er að gera, t.d. sölumaðurinn sem selur vörur sem hann hefur ekki trú á. Hann myndi ekki kaupa þær sjálfur og getur ekki fyllilega mælt með þeim við aðra.

Af hverju tekur fólk röngu starfi?
Það eru fjórar meginástæður fyrir því hvers vegna fólk er í röngu starfi: Ytri umbun, pressa frá fyrirtækinu, skortur á hæfni til að segja nei og skortur á sjálfsþekkingu.

  1. Ytri umbun. Við erum flest hrifin af peningum, status og viðurkenningu og leggjum stundum of mikla áherslu á þessi atriði. Því láta margir stjórnast af umbunum í stað þess að hugsa um hvað gerir þá ánægða.
  2. Pressa frá fyrirtækinu. Þegar einstaklingi er boðin ákveðin staða er fyrirtækið yfirleitt búið að leggja mat á alla þá sem koma til greina og viðkomandi valinn hæfastur í starfið. Yfirstjórnin reynir að selja viðkomandi starfið með því t.d. að segja að þetta sé frábært tækifæri, góð laun séu í boði og gott skref fyrir starfsframann, sem gerir það freistandi og erfitt að hafna tilboðinu.
  3. Skortur á hæfni til að segja nei. Það reynist mörgum erfitt að segja nei og hafna tilboði þar sem þeir eru smeykir við neikvæðar afleiðingar höfnunar. Þeir eru þar með í hættu á að taka starfi sem þeir hefðu ekki viljað fá.
  4. Skortur á sjálfsþekkingu. Margir eru ekki í nógu miklum tengslum við sjálfa sig og vita ekki hvað þeir vilja í raun og veru. Með því að fara í sjálfsskoðun leggur einstaklingur mat á eigin hæfileika, styrkleika, veikleika, hæfni, menntun, reynslu og áhuga. Sjálfsskoðun þýðir að horfast í augu við sjálfan sig og viðurkenna þessar tilfinningar frekar en að bæla þær.
3. Vonbrigði hvað varðar starfsframa 

Þetta gerist t.d. þegar fólki finnst það farið að staðna, fær ekki stöðu- eða launahækkun eða er fært til í starfi. Margir verða þunglyndir eða draga sig í hlé og láta það bitna á fjölskyldunni og einkalífinu. Einkalífið jafnt sem starfið verður þá tómt og dautt.

Enginn getur neitað því að vinnan hefur mikil áhrif á einkalífið. Flest verjum við meira tíma í vinnunni heldur en heima hjá okkur. Til að lifa heilbrigðu og innihaldsríku lífi er því nauðsynlegt að geta stjórnað neikvæðu tilfinningunum sem vakna í vinnunni og láta þær hafa sem minnst áhrif á einkalífið.

Birtist í Viðskiptablaðinu 9. október 2002.

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |