Vinna, vellíðan og velgengni á ábyrgð stjórnenda

Vinna, vellíðan og velgengni á ábyrgð stjórnenda

Aukin ábyrgð á öryggi og heilsu starfsmanna

Eyþór Eðvarðsson

Fyrir Alþingi liggur frumvarp félagsmálaráðherra til breytinga á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skriflegu mati atvinnurekenda á þeim þáttum í vinnuumhverfinu sem geta stofnað öryggi og andlegri og líkamlegri heilsu starfsmanna í hættu. Einnig er gert ráð fyrir að atvinnurekandi geri skriflega áætlun og ráðstafanir um öryggi og heilsuvernd starfsmanna. Í stuttu máli felst áhættumatið í því að greina áhættuþætti, vinna að því að fjarlægja þá eða draga úr áhrifum þeirra og vakta síðan umhverfið og heilsufarsþætti starfsmanna. Ljóst er að þessi lögleiðing tilskipunar frá ESB muni hafa í för með sér viðamiklum breytingum á líkamlegum og andlegum aðbúnaði starfsfólks. Gert er ráð fyrir að frumvarpið muni leiða til umtalsverðs kostnaðar fyrir almenna vinnumarkaðinn en samkvæmt fjárlagaskrifstofu Fjármálaráðuneytis gæti kostnaður almenna vinnumarkaðarins numið allt að 400-700 milljónum króna á ári. Til eru tölur frá Danmörku og Noregi yfir árlegan kostnað við rekstur heilsuverndar, en hann nemur um DEK 500 á ári á hvern starfsmann í Danmörku og í Noregi um NOK 1000.

Skriflegt áhættumat
Áhættumatið felur í sér skoðun á ýmsum þáttum eins og samskiptum og stjórnunarháttum, líkamlegu og andlegu álagi, hávaða og lýsingu, öryggismálum, meðferð hættulegra efna o.fl. Þegar niðurstöður þess liggja fyrir er gerð áætlun um úrbætur. Meðal úrbóta eru forvarnarráðstafanir, fræðsla og ráðgjöf og heilsufarsskoðanir. Forvörnum er ætlað að koma í veg fyrir heilsutjóni í vinnunni, draga úr einkennum eða óþægindum og koma í veg fyrir að heilsutjón þróist áfram og leiði til alvarlegs ástands svo sem örorku eða dauða. Fræðsla til að mæta áhættu í starfi getur tekið til ýmissa atriða, svo sem mannlegra samskipta, stjórnunar streitu og álags, mengunarvarna, skyndihjálpar, hávaðavarna auk fleiri þátta. Ráðgjöfin getur m.a. snúið að vinnuskipulagi, innihaldi starfa, hönnun vinnuumhverfis og leiðum til að virkja þátttöku hlutaðeigandi aðila í heilsuvernd. Heilsufarsskoðunum er ætlað að taka mið af áhættuþáttum í umhverfinu. Dæmi um áhersluatriði eru: Næringarráðgjöf, blóðfitumælingar, aðstoð til læknismeðferðar, sjúkraþjálfun o.fl. Ljóst er að fyrirtæki munu geta lækkað kostnaðinn við veikindi, starfsmannaveltu og fjarvistir verulega með úrbótum á vinnustað.

Stjórnun á stóran þátt í vellíðan starfsmanna
Þegar litið er á stjórnunarþáttinn er ljóst að ábyrgð stjórnenda er mikið við að tryggja góða heilsuvernd starfsmanna. Ekki aðeins vegna þess að þeir þurfa að kynna starfsmönnum gott og ítarlegt áhættumat og fara yfir með þeim hvað ber að gera heldur einnig vegna þess að stjórnunarstíll þeirra á drjúgan þátt í vellíðan starfsmanna og frammistöðu þeirra í starfi. Samkvæmt The Health and Safety Executive er léleg stjórnun ein meginástæða vinnutengdrar streitu. Rannsóknir sálfræðingsins Clayton Lafferty, sem hefur rannsakað áhrifaríka stjórnun í yfir 20 ár, hafa leitt í ljós að marktæk tengsl eru milli uppbyggilegs stjórnunarstíls og ánægju, vellíðan og velgengni í starfi. Rannsóknir á Vesturlöndum hafa líka ítrekað sýnt fram á að meginástæða þess að fólk hættir í störfum er ekki launatengd heldur í flestum tilfellum slæm samskipti við næsta yfirmann. Launin eru sjaldnast ástæða fyrir fólk til að yfirgefa vinnustaðinn. Stjórnendur vilja þó oft trúa því að launin séu vandamálið þar sem það fríar þá frá ábyrgð.Stjórnendur beita mismunandi stjórnunarstílum og ná misgóðum árangri. Stjórnendur með passífan stjórnunarstíl t.d. reyna að verja sjálfsmyndina, sækjast eftir viðurkenningu annarra og leita öryggis í reglum. Þeir forðast erfiðar aðstæður og fresta því að taka ákvarðanir. Stjórnendur með drottnandi stjórnunarstíl á hinn bóginn vilja viðhalda stöðu sinni og metorðum. Þeir leggja mikla áherslu á fullkomnun, ráða yfir öðrum og eru í stöðugri samkeppni. Þeir vilja sanna sig, þola illa að gera mistök og vantreysta öðrum. Þeir eiga erfitt með að dreifa valdi og ábyrgð. Stjórnendur sem ala þannig á neikvæðri gagnrýni og refsa fyrir mistök skapa óöryggi, ótryggð og andúð á vinnustað. Starfsmenn hætta að þora að leggja sig fram og forðast að taka ákvarðanir. Þeir upplifa mikið andlegt álag í starfi. Hvorugur stjórnunarstíllinn telst mjög árangursríkur og mikill kostnaður fylgir honum, t.d. í formi veikinda, fjarvista, óánægju, lélegrar samvinnu, lélegs upplýsingaflæðis ofl.

Heilbrigð stjórnun leiðir til vellíðan
Mikilvægt er að stjórnandi beiti uppbyggilegum stjórnunarstíl. Eftirfarandi þættir í hegðun stjórnenda stuðla að vellíðan og ánægju starfsfólks:

  • Góðir stjórnendur gefa starfsfólki svigrúm til að vera skapandi og gera mistök án þess að þeim sé refsað fyrir.
  • Góðir stjórnendur leggja áherslu á greið og opin samskipti upp á við, niður á við og til hliðar og hlusta með opnum huga á þarfir, væntingar og hugmyndir starfsmanna.
  • Góðir stjórnendur tryggja gott aðgengi að sér. Mikilvægt er að fjarlægðin á milli stjórnunarstiga sé lítil og upplýsingaflæðið virkt. Samvinna er orðin algjört skilyrði og starfsmaður þarf að geta leitað til stjórnandans.
  • Góðir stjórnendur veita starfsmönnum viðurkenningu fyrir vel unnin störf.
  • Góðir stjórnendur treysta starfsmönnum sínum. Grunnurinn á opnum samskiptum og aukinni þátttöku starfsfólks byggir á gagnkvæmu trausti og virðingu á milli stjórnanda og starfsmanns. Þetta eflir hugrekki starfsmanna til að koma með tillögur að breytingum, t.d. á vinnutilhögun eða veittri þjónustu. Traust er einnig skilyrði fyrir því að stjórnandinn veiti starfsmönnum sínum umboð til athafna.
  • Góðir stjórnendur leggja áherslu á stöðugan lærdóm og á að starfsmenn fái tækifæri til að þroskast í starfi.

Birtist í Viðskiptablaðinu 25. september 2002.

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |