Hugarfarið gerir gæfumuninn

Hugarfarið gerir gæfumuninn

Ingrid Kuhlman

Hugarfar okkar ræður því hvernig við nálgumst lífið. Það ræður því hvernig við berum okkur að og hvernig við tjáum tilfinningar okkar og hugsanir. Hugarfar okkar skiptir meira máli en staðreyndir. Það er mikilvægara en fortíðin, menntun okkar, peningar, efnahagsaðstæður, mistök, árangur og það sem annað fólk segir eða gerir. Það skiptir meira máli en útlit, gáfa eða hæfileikar. Rannsókn við Harvard háskólann t.d. sýndi að 85% af árangri, stöðuhækkun eða velgengni fólks má rekja til hugarfars og aðeins 10% til hæfni og þekkingar. Samt verjum við 90% af okkar tíma á skólaárunum í að byggja upp þekkingu og aðeins 10% í tilfinningar, viðhorf og lífsleikni.

Neikvæðar tilfinningar eru ræningjatilfinningar
Á hverjum degi höfum við val hvað varðar hugarfar okkar. Við getum ekki breytt fortíðinni og við getum ekki breytt því hvernig fólk í kringum okkur hegðar sér. Við getum heldur ekki breytt því óhjákvæmilega eins og t.d. dauðsföll eða veikindi. En við getum valið okkar hugarfar gagnvart því sem gerist í lífi okkar. Er glasið hjá mér hálf fullt eða hálf tómt? Er ég bjartsýn(n), jákvæð(ur), sjálfsörugg(ur) og traust(ur) eða almennt neikvæð(ur), svartsýn(n), uppgefin(n) og tortryggin(n)? Sé ég tækifæri og áskoranir í hverju horni eða aðeins óréttlæti og óhamingju? Neikvæðar tilfinningar eru ræningjatilfinningar. Þær brjóta mann niður og ræna manni friði, hamingju, heilsu og ánægju.

Nú halda sumir að maður sé neikvæður ef bara minnst er á vandamál eða áskorun. Þá er í raun verið að misskilja raunsæi fyrir neikvæðni. Myndir þú vilja að læknirinn segði þér að þú værir með saklaust góðkynja æxli í lungunum vegna þess að hann vill ekki vera neikvæður og segja þér að þú sért með krabbamein? Eða myndir þú vilja að sá sem sæi um fjármálin þín segði þér að þau væru í góðu lagi á meðan allt stefndi í óefni? Fyrsta skrefið við að leysa vandamál eða standa frammi fyrir áskorun er að bera kennsl á vandamálið og finna síðan leiðir til að takast á við það. Það er raunsæi. Neikvætt hugarfar er hins vegar það þegar maður fórnar höndunum í örvæntingu og segir: "Ég hef aldrei getað gert þetta áður? eða ?Þetta er vonlaust ástand" eða "Það er ekkert sem ég get gert."

Mikilvægi jákvæðni og góðs skopskyns
Það er einnig mikilvægt er að rugla ekki saman jákvæðu hugarfari og hæfileikum. Þó að við séum jákvæð og bjartsýn þá þýðir það ekki að við getum gert hvað sem er. Við getum t.d. ekki allt í einu tekið að okkur hlutverk hjartaskurðlæknis og framkvæmt flókinn uppskurð. Eða tekið þátt í næstu Olympíuleikum og unnið gullverðlaun í hástökki. Hæfnin og reynslan þurfa að vera til staðar til að svo geti orðið og jákvætt hugarfar okkar stuðlar síðan að því að við notum hæfileika okkar og reynslu til hins ítrasta.

Oft virkar að brosa að mótlæti í stað þess að gráta yfir því. Fótboltaþjálfari var spurður að því eftir leik sem liðið hans tapaði hvort það hefði ekki verið erfitt að tapa. Svarið hans var: ?Við töpuðum ekki, hinir bara unnu í dag!? Að sjá hlutina í jákvæðu ljósi og nota gott skopskyn er eitt af því sem einkennir þá sem hafa náð að þroska hæfileika sína til hins ítrasta. Rannsókn ráðgjafans Leslie Gibson sem birtist í tímaritinu Florida Trend árið 1992 sýndi að leikskólabörn brosa að meðaltali 400 sinnum á dag á meðan fullorðnir brosa aðeins 15-16 sinnum á dag. Synd og skömm segir Gibson, sem er þess fullviss að það sé mikilvægt fyrir fyrirtæki að starfsfólk þeirra brosi meira þar sem það minnki streitu, lífgi upp kynningar og örvi sköpunargáfuna. Rannsókn við háskólann í Michigan sýndi að fólk með gott skopskyn er hugmyndaríkara, í betra tilfinningalegu jafnvægi, raunsærra og með meira sjálfstraust. Húmor hefur auk þess jákvæð áhrif á samskiptin við annað fólk. Og þetta er merkileg keðjuverkun vegna þess að þegar við erum glöð þá brosum við og þegar við brosum þá verðum við glöð.

Gáfa, blóð, sviti og tár
Mikilvægt er að hafa í huga að árangur og hamingja eru ekki áfangastaður heldur ferðalag sem aldrei tekur enda. Við þurfum að sýna jákvætt hugarfar, takast á við neikvæðar tilfinningar, sýna þrautseigju og láta það ekki hvarfla að okkur að allt gæti mistekist. Við þurfum að halda fast í drauma okkar og ryðja hindrunum úr vegi. Því að alveg eins og Edisson sagði, sem gerði ekki færri en 14.000 tilraunir áður en hann fann upp ljósaperuna, þá er árangur 10% meðfædd gáfa og 90% blóð, sviti og tár.

Birtist í Viðskiptablaðinu 22. janúar 2003.

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |