Ágreiningur og árangur í hópum

Ágreiningur og árangur í hópum

Ingrid Kuhlman
 
Flestir hópar fara í gegnum nokkur þroskastig frá því hópurinn kemur saman í fyrsta skipti og þangað til hann er farinn að ná árangri. Ein af merkilegri kenningum um hópa er eftir Bruce Tuckman (1965). Samkvæmt Tuckman fara hópar venjulega í gegnum fjögur stig sem gagnlegt er að þekkja: mótunarstig (forming), ágreiningsstig (storming), umræðustig (norming) og árangursstig (performing). Reynslan sýnir að hópar þurfa að fara í gegnum öll stigin ef þeir vilja vera árangursríkir.

Mótunarstig
Á mótunarstigi er hópurinn óöruggur og hópmeðlimir reyna að finna stöðu sína innan hópsins. Menn eru að kynnast og prófa vinnureglur. Hópmeðlimir velta fyrir sér hvers er vænst af þeim, hvaða áhrif þeir muni hafa, hvernig fólki muni líka við þá, hvernig þeir komi til með að vinna saman og hvernig hinir hópmeðlimirnir séu. Hópurinn á eftir að byggja upp traust. Það er margt sem dregur athygli hópmeðlima á þessu stigi og því nær hópurinn litlum árangri með tilliti til settra markmiða. Þetta er fullkomlega eðlilegt.

Á mótunarstigi má sjá eftirfarandi tilfinningar og hegðun:

 • Spenningur, eftirvænting og bjartsýni.
 • Stolt yfir því að vera valinn í hópinn.
 • Hikandi tryggð við hópinn.
 • Kurteisi, allt er ópersónulegt og rólegt.
 • Kvíði gagnvart verkefnum.
 • Skilgreining á verkefnum og hvernig eigi að framkvæma þau.
 • Viðeigandi hóphegðun ákveðin.
 • Miklar og flóknar umræður um heildarhugmyndir og málefnin, sem sumir hópmeðlimir hafa ekki þolinmæði í.

Ágreiningsstig
Á ágreiningsstigi kemur oft upp ágreiningur og sundrung þar sem hópmeðlimir byrja að veita áhrifum hópsins viðnám og fyllast mótþróa við að klára verkefni. Menn eru ósammála, keppast um stöður innan hópsins og gagnrýna hugmyndir. Hópmeðlimir komast að því að verkefnin eru frábrugðin því sem áætlað var og mun erfiðari í framkvæmd. Þeir fyllast óþolinmæði vegna skorts á árangri og deila um hvað eigi að gera.

Ágreiningsstigið er mjög mikilvægt fyrir hópinn til að hópmeðlimir geti byggt upp sjálfstæði sem einstaklingar og sjálfstæðir meðlimir hópsins. Traust verður aðeins til með því að tjá hugsanir, hugmyndur og tilfinningar.

Á þessu stigi hafa hópmeðlimir litla orku til að vinna að settum markmiðum. Þeir eru þó að öðlast aukinn skilning á hver öðrum.

Á ágreiningsstigi má sjá eftirfarandi tilfinningar og hegðun:

 • Andstaða við verkefni.
 • Andstaða við hugmyndir annarra að leiðum til endurbóta.
 • Snarpar sveiflur í viðhorfi gagnvart hópnum og tækifæri hans til að ná árangri.
 • Hópmeðlimir rífast jafnvel þó að þeir séu sammála um stóru málin.
 • Valdabarátta, sumir "detta út".
 • Ákveðni, samkeppni og tekin afstaða með fólki.
 • Óraunhæf markmið.
 • Óeining, aukin spenna og afbryðissemi.

Umræðustig
Á umræðustigi verður hópurinn samheldinn og tryggur. Menn finna nýjar leiðir til að vinna saman og setja viðmiðunarreglur fyrir viðeigandi hegðun. Skoðanaskipti eru virkari, menn eru ákafir og andstaðan minnkar. Hópmeðlimir láta sér annt um líðan hvers annars og veita hver öðrum stuðning og aðstoð. Menn eigna sér markmið hópsins og sýna persónulega tryggð við samstarfið. Hópurinn fer að tala um "við" í stað "þeir" og viðurkennir hóphlutverkin. Hópmeðlimir eru tryggir sameiginlegum vinnureglum og taka ábyrgð á því að hámarka árangurinn.

Á umræðustigi má sjá eftirfarandi tilfinningar og hegðun:

 • Hæfni til að tjá gagnrýni á uppbyggilegan hátt.
 • Viðurkenning á þátttöku í hópnum.
 • Tilraunir til að ná sátt og samlyndi með því að forðast ágreining.
 • Meiri vinskapur, hópmeðlimir treysta hver öðrum og deila persónulegum vandamálum.
 • Sameiginleg markmið.


Árangursstig
Með aukinni tryggð og samvinnu að sameiginlegum markmiðum kemst hópurinn á árangursstigið. Um er að ræða meiri samheldni, settum markmiðum er náð og hópurinn verður sveigjanlegri í samvinnu. Hópmeðlimir taka þátt í að finna lausnir á vandamálum, framkvæma breytingar og umgangast deilur og ágreiningsmál á uppbyggilegan hátt. Þeir leysa hver annan af og verkefnum er dreift. Hópmeðlimir þekkja styrk- og veikleika hvers annars og þekkja sitt hlutverk.

Árangursstigið er síðasta og erfiðasta stigið og margir hópar ná aldrei þessu stigi.

Á árangursstigi má sjá eftirfarandi tilfinningar og hegðun:

 • Hópmeðlimir hafa innsýn í hópferli og einstaklingsverkefni og skilja betur styrk- og veikleika hvers annars.
 • Uppbyggilegar breytingar í hópnum, sem koma af sjálfu sér.
 • Hæfni til að koma í veg fyrir eða vinna úr vandamálum sem koma upp í hópnum.
 • Hópmeðlimir láta sér annt um líðan hvers annars.
 • Traust, sveigjanleiki og gagnkvæmur stuðningur.
 • Mikil tryggð við hópinn.

Fyrir hóp getur verið gagnlegt að velta fyrir sér á hvaða stigi hópurinn er, hvaða verkefni og verkferla væri hægt að einblína á til að komast á næsta stig og hvaða þættir hamla framgangi hópsins. Með því verða hópmeðlimir meðvitaðri um hvernig hópurinn starfar, bæði kosti hans og galla. Þetta gerir hópmeðlimum kleift að taka þátt í uppbyggilegri umræðum um hvernig hópnum miði, hvert hann stefni og hvernig hann komist þangað.

Birtist í Viðskiptablaðinu 13. mars 2003.

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |