Bjartsýni; hugsunarstíll en ekki persónueinkenni

Bjartsýni; hugsunarstíll en ekki persónueinkenni

Ingrid Kuhlman

Yfirleitt er litið á bjartsýni sem frekar ómerkilegan eiginleika. Bjartsýnismaður er þá talinn vera sá sem sér það góða í öllu og öllum og horfir á heiminn í gegnum bleik gleraugu – glasið er alltaf fullt hjá honum. Pollýanna er fyrirmynd hans og hann er sannfærður um það að ef hann bara hugsi jákvætt þá muni allt fara vel. Rannsóknir til tuttugu ára hafa hins vegar staðfest að bjartsýni gengur miklu dýpra en menn héldu áður.

Hægt er að skilgreina bjartsýni á tvennan hátt. Scheier og Carver sem dæmi skilgreina bjartsýni sem „altæka tilhneigingu til að trúa því að maður muni almennt upplifa góða frekar en slæma atburði í lífinu“. Á mannamáli þýðir þetta að horft sé á björtu hliðarnar. Samkvæmt þessari skilgreiningu er svartsýni tilhneigingin til að halda að „ef eitthvað geti farið úrskeiðis, þá muni það fara úrskeiðis“.

Hin leiðin til að skilgreina bjartsýni er sú að skoða hvaða skýringar við notum en hér er um að ræða nálgun Martin Seligman sem er upphafsmaður hreyfingar um jákvæða sálfræði. Að sögn Seligman er undirstöðu bjartsýni ekki að finna í jákvæðum fullyrðingum eða myndum af sigrum heldur í því hvernig við hugsum og útskýrum orsakir. Seligman er höfundur bókarinnar Learned Optimism og meðhöfundur bókarinnar The Optimistic Child. Hann heldur því fram að við höfum öll tilhneigingu til að nota ákveðinn hugsunarstíl til að útskýra það sem gerist í lífi okkar og hvers vegna það gerist. Við þróum þennan stíl í æsku og höldum okkur við hann það sem eftir er ævi okkar, nema við tökum meðvituð skref til að breyta honum. Hugsunarstíllinn virkar eins og viðmið sem við notum til að útskýra fyrir sjálfum okkur hvers vegna hlutir, slæmir eða góðir, hendi okkur.  

Seligman telur að það séu þrjár almennar víddir sem við notum til að túlka líf okkar; varanleiki (alltaf/ekki alltaf), útbreiðsla (allt/ekki allt) og persónubinding (ég/ekki ég). Hér fyrir neðan er farið ítarlega í þessar þrjár víddir:

Varanlegt vs. tímabundið
Þeir sem hafa tilhneigingu til að útskýra hlutina á svartsýnan hátt munu gera ráð fyrir að ef eitthvað fari úrskeiðis þá muni það alltaf fara úrskeiðis. Ef þeir halda t.d. lélega ræðu  ganga þeir út frá að þeir muni alltaf vera lélegir ræðumenn. „Það þýðir ekkert fyrir mig að sækja um þennan samning, ég mun hvort sem er klúðra ræðunni – glærusýningin mun mistakast og fólki mun ekki finnast að ég hafi staðið mig vel.“

Þeir sem hafa tilhneigingu til að útskýra hlutina á jákvæðan hátt segja einfaldlega við sjálfa sig að það muni ganga betur næst, að það hafi einungis verið tímabundið bakslag. „Kannski var undirbúningurinn ekki nóg góður – og fyrir utan það þá voru áhorfendur nýbúnir að borða frekar þungan hádegismat og þar af leiðandi ekki mjög líflegir. Næst undirbý ég mig betur og reyni að fá betri tíma fyrir kynninguna mína.“

Dr. Karen Reivich, meðhöfundur bókanna The Resilience Factor og The Optimistic Child er samstarfsmaður Martins Seligman og hefur unnið með honum og öðrum fræðimönnum að fjölda rannsókna. Hún deilir sannfæringu Seligmans varðandi mikilvægi þess hvernig við útskýrum hlutina og hefur þróað líkanið áfram. Hennar útgáfu af þessari vídd kallar hún „alltaf vs. ekki alltaf“. Hversu viðvarandi er orsök vandamálsins sem þú stendur frammi fyrir? Nemandi sem útskýrir fall á prófi með því að segja „Ég er heimskur“ hefur „alltaf“-sýn á vandamálið, álítur vandamálið muni vara yfir tíma og mun líklega nálgast upptökuprófin á svartsýnan hátt. Á endanum verður þessi neikvæða sýn viðvarandi. Bekkjarbróðir hans sem fellur einnig á prófinu en segir „Ég lærði ekki nóg undir þetta próf“ hefur „ekki alltaf“-sýn og er líklegri til að líta næstu próf bjartsýnni augum. Hann sér aðstæðurnar sem ekki varanlegar, eitthvað sem er hægt að breyta.

Útbreiðsla – sértækt vs. almennt
Þegar hlutir fara úrskeiðis hjá svartsýnismönnum hafa þeir tilhneigingu til að hugsa hamfarahugsanir. Þeir sjá mistök sín sem almenn og alhæfa um þau:

• Ég verð aldrei góður í golfi.
• Ég er glatað foreldri.
• Engum í yfirstjórninni líkar við mig.

Bjartsýnismenn aftur á móti eru heldur ekki hrifnir af mistökum en þeir líta á þau sem sértækt mótlæti frekar en almennt:

• Ég spilaði ekki vel á sunnudaginn, en ég var líka ekki búinn að æfa lengi vegna meiðsla.
• Ég hef ekki varið nógu miklum tíma með dóttur minni.
• Yfirmanni mínum líkar ekki við mig en mér semur vel við hina í yfirstjórninni.

Hið gagnstæða á við þegar jákvæðir atburðir eru túlkaðir. Svartsýnismaðurinn er líklegri til að sjá árangur sem mjög sértækan:

• Ég spilaði vel en það var bara vegna þess að hinir voru ekki í formi.
• Sonur minn var notalegur við mig af því að ég gat aðstoðað hann með eðlisfræðina.
• Ég fékk þessa stöðuhækkun eingöngu af því að ég landaði þessum stóra samningi.

Svartsýnt fólk álítur sig ekki hafa almenna færni, hæfni og einkenni sem gegnsýri alla hluti lífs þeirra. Bjartsýnismenn hafa öðruvísi viðhorf og líta á góða hluti sem almenna eða varanlega.

Reivich lýsir þessari vídd sem „allt vs. ekki allt“. Ef þú telur atburði í einum hluta lífs þíns gagntaka aðrar hliðar ertu „allt“-manneskja. Ef þú hólfar þetta niður og kemur með sértækar útskýringar á því hvað orsakaði neikvæðan atburð, ertu meira „ekki alltaf“-hugsandi.

Persónubinding – innri vs. ytri
Þessi vídd varðar það hverjum er um að kenna þegar hlutirnir fara úrskeiðis. Svartsýnismenn kenna sjálfum sér um og leita orsaka innra með sér á meðan bjartsýnismenn hafa tilhneigingu til að kenna öðrum eða ytri aðstæðum um, aðstæðum sem þeir höfðu ekki stjórn á. Þeir sem kenna sjálfum sér um allt það sem fer úrskeiðis eru líklegri til að hafa lágt sjálfsálit á meðan þeir sem reyna að finna ytri ástæður fyrir mótlæti eru yfirleitt jákvæðari í eigin garð.

Nýlega hefur Martin Seligman tjáð bakþanka varðandi það hvort það sé þess virði að rannsaka þessa vídd þar sem það gæti hvatt fólk til að skella skuldinni einfaldlega á aðra. Víddin er hins vegar áfram mikilvægur þáttur hjá Reivich. Hún lýsir henni sem „ég vs. ekki ég“ og heldur því fram að víddin snúist ekki um það hvort við kennum öðrum um heldur er verið að bæta við nýjum upplýsingum þegar farið er yfir hvað fór úrskeiðis. Ekki sé hægt að líta fram hjá þessar vídd. Ef þú ert „ég“-manneskja ertu líklegri til að kenna sjálfri þér um það sem fór úrskeiðis en ef þú trúir því að skuldin liggi yfirleitt ekki hjá þér þegar eitthvað fer úrskeiðis þá muntu leita ytri skýringar. Ef þú ert of seinn á fund og þú kennir umferðinni um þá er um að ræða „ekki ég“-útskýringu en ef þú segir „ég legg alltaf of seint af stað á fundi“ þá er um að ræða „ég“-útskýringu.

Reivich er þeirrar skoðunar að ekki sé hægt að leysa vel úr vandamálum ef þú veltir ekki fyrir þér hvar orsök vandamálsins liggi. Ekki sé meiningin að breyta „ég“-manneskju í „ekki ég“ með því einfaldlega að benda á aðra og kenna öllum öðrum um. „Ég“-manneskja hafi gott af því að taka eftir öllu því sem hún gerði sem leiddi til vandamálsins. En það sé einnig mikilvægt að skoða aðra þætti sem stuðluðu að vandamálinu.

Ef þú ert „ekki ég“-manneskja og alltaf að kenna öðrum um liggur áskorunin í því að segja: „Gott og vel, þú tókst eftir veðrinu og öllu hinu, en liggur þetta mögulega í einhverju sem þú gerðir? Þegar bjartsýnismaður stendur andspænis mótlæti hefur hann tilhneigingu til að segja: „ekki ég“, „ekki alltaf“, „ekki allt“. Þegar slæmir hlutir gerast einblínir hann á orsök vandamálsins sem varðar aðstæður annars fólks, aðstæður sem er hægt að breyta og sem eru frekar sértækar og ekki líklegar til að leiða til fjölda annarra vandamála í lífi hans. Bjartsýni er „ekki ég“, „ekki alltaf“ og „ekki allt“.

Ef maður aftur á móti lítur á sjálfan sig sem orsök vandamálsins þegar takast þarf á við mótlæti, og telur aðstæðurnar vera langvarandi og líklegar til að skapa vandamál í öðrum þáttum lífsins þá er um að ræða meira svartsýnt viðhorf.

Reivich er á því að við getum lært að verða bjartsýnni þar sem hér sé um að ræða hugsunarstíla en ekki persónueinkenni. Hægt sé að breyta því hvernig maður hugsar. „Jafnvel þó að hugsunarstíll okkar sé svartsýnn í dag eru til sterkar vísbendingar um að við getum tileinkað okkur meiri seiglu og bjartsýni. Við getum aukið hæfni okkar til að einblína á aðrar hliðar vandamálsins“, að sögn Reivich.

Kynjamunur þegar kemur að bjartsýni
Martin Seligman heldur því fram að karlmenn séu bjartsýnir þegar kemur að starfinu og ef þeim mistekst þá líti þeir á orsökina sem tímabundna, sértæka og ytri. Þeir séu hins vegar svartsýnir varðandi mistök í samskiptum og líti á orsökina sem viðvarandi, alltumlykjandi og þeim sjálfum um að kenna. Hjá konum sé því öfugt farið.  En þó að marktækur munur mælist á milli kynjanna í sumu þá er kjarni málsins aðallega sá að við höfum val um hvort við viljum vera svartsýn eða bjartsýn.


 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |