Að auka seiglu
Það eru nokkur atriði sem við öll getum lært af farsælum einstaklingum. Það mikilvægasta er hvernig þeir hugsa og hvernig þeir vinna úr þeim atburðum sem gerast í kringum þá. Á fræðimáli kallast þessi eiginleiki „seigla“ eða á ensku „resilience“. Við þurfum öll á seiglu að halda til að ná okkur eftir bakslag og takast á við daglegar hindranir. Einstaklingar sem búa yfir seiglu halda ró sinni undir pressu og stjórna hvötum sínum. Þeir “lesa” annað fólk og skilja hvernig því líður. Þeir trúa að þeir hafi áhrif á það hvernig þeir stefna og að þeir geti tekist á við mótlæti. Mat þeirra á aðstæðum og orsökum vandamála er raunhæft og þeir takast á við nýjar áskoranir og stækka þannig stöðugt öryggissvæðið sitt. Rannsóknir sýna að við getum breytt því hvernig okkur líður með því að breyta hugsunum okkar því að það sem stjórnar hegðun okkar er ekki það sem gerist í kringum okkur heldur hvernig við túlkum það sem gerist. Lykillinn að seiglu er því rökréttar hugsanir.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir sjö þætti seiglu, hvernig þeir birtast og hvernig við getum aukið seiglu. Hér er á ferðinni efni sem er nauðsynlegt öllum þeim sem vilja auka sinn innri styrk.
Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman