Tómarúm, krísur og kvíðaköst

Fyrirlestur um breytingar

"Allt er breytingum háð", sagði einhver og það eru orð að sönnu. Innan stjórnunarfræðanna eru nokkur svið sem fjalla beint um breytingar en breytingar reynast mörgum erfiðar og eru oft kostnaðarsamar. Í fræðunum fer minna fyrir umræðum um árangursríkar breytingar enda teljast þær ekki fréttnæmar í sama mæli og það sem miður fer. Á þessum tímum sem nú eru í samfélaginu er fróðlegt að velta upp ýmsum sjónarhornum á fyrirbærinu breytingar. 

Í fyrirlestrinum er stiklað á stóru í breytingafræðunum og gefin innsýn í hagnýtt gildi þeirra. Sem dæmi þá nýtist kraftakenning Kurt Lewin vel til að greina þá krafta sem eru að verki á vinnustöðum, í samfélaginu og í okkur sjálfum og hvernig hægt er að beisla þá og nýta. Tómarúmið sem William Bridges nefnir svo lýsir ástandi þar sem fólk upplifir sig einhvers staðar á milli þess sem var (eða hélt að væri) og þess sem verður (eða telur að verði). Í slíku tómarúmi eru margar hættur sem hægt er að fyrirbyggja og fjölmörg tækifæri sem hægt er að nýta. Mitchell Lee Marks, ráðgjafi í breytingastjórnun, er með kenningu um þau skref sem felast í endurreisn eftir erfiðar breytingar líkt og samruna, niðurskurð, endurskipulagningu og umbreytingu. Sjá má út frá nálgun hans hvar vinnustaðir í breytingum eru staddir og einnig hvar samfélagið okkar er statt og hvað er framundan. 

Rannsóknir á áhrifaríkum breytingaferlum sýna að það er margt hægt að gera og það er ekkert lögmál að breytingar muni ganga illa. Rannsókn ein á breytingum á matarræði sýndi að fólk borðaði að meðaltali 90% af matardisknum, sama hversu stór hann var. En með því að breyta stærð á matardisknum var hægt að fá fólk til að þyngjast eða léttast, óháð því hvað það borðaði. Sami fræðimaður segir áhrifaríkara að skoða hvað keypt er í matinn frekar en að fara í megrun. Hamingjufræðin eiga margt sameiginlegt með breytingafræðunum eins og t.d. það að velja sér það viðhorf sem gagnast manni best. Svartsýni er oft gagnleg og einnig getur verið varasamt að horfa of mikið í birtuna. En auðvitað er ekkert nýtt undir sólinni en hver veit hvað er undir sólinni? 

Fyrirlesari: Eyþór EðvarðssonMA í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun

 

 

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |