Hugtakalæsi: Hugtökin segja meira en allar heimsins bækur

Með hugtakalæsi gefum við grunngildi orðanna hið sanna vægi og gerum okkur þar með grein fyrir því hvað leynist t.d. í hugtakapörum og hvernig sum hugtakapör eru fullkomlega andstæð. Þá getum við borið saman ólík hugtök og komist að því hvað t.d. býr að baki því að vera ábyrgur eða óábyrgur. Við getum skoðað hvort og þá hvernig munur er á því að gefa og þiggja og hugtök einsog líkur og ólíkur eða ríkur og fátækur geta lagt grunninn að skilningi á öðrum hugtökum. Hugtök einsog: tillit, innsæi, virðing og fleiri slík þurfa að fá þrenns konar umfjöllun. Við þurfum fyrst að skoða hugtökin, þá þurfum við að skilja þau og loks þurfum við að skýra þau. Við þurfum að fá af stað virka umræðu, t.d. í gegnum stutt ljóð.

Í fyrirlestrinum er fjallað um þrjár stoðir hugtakalæsis: Fyrsta stoðin er gagnrýnin hugsun, sem kennir okkur m.a. að ekkert svar sé svo gott að ekki megi spyrja hvernig það var fengið. Önnur stoðin er leið að betra lífi, er spurning um að sjá hver er hinn siðferðilegi ávinningur af því svari sem við erum að nálgast. Við metum hver er ávinningur minn, ávinningur hinna og ávinningur okkar allra. Þá er það þriðja stoðin vilji til verka, en hér skoðum við hvers vegna og hvernig við viljum nálgast tiltekið svar.

Í fyrirlestrinum fer Kristján í hvernig hann kynnir inntak hugtakanna og ljóðanna sem geyma hugtökin sem leið til að skoða hugmyndirnar sem við erum að fást við. Þátttakendur læra ljóðin utan að og ræða innihaldið til að öðlast skilning. Síðan skýra þeir fyrir öðrum með því að skapa eitthvað sem þeir telja brúklegt sem haldbæra skýringu.

 

Kristján Hreinsson er skáld og heimspekingur, hann er enn að nema við Háskóla Íslands en starfar við að rita ljóð, leikrit, skáldsögur, smásögur, söngtexta og sinnir verkum sem listinni tengjast. Hann hefur síðustu árin haldið fjölda námskeiða, einkum á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, en einnig hjá Söngskóla Reykjavíkur og á fleiri stöðum. Um er að ræða námskeið í bragfræði, skáldlegum skrifum, limrugerð og söngtextagerð. Hann nam leikhús við Háskólann í Bergen (lauk því sem nefnist grunnfag og miðfag), þá nam hann heimspeki við Háskóla Íslands, lauk þaðan BA-prófi 2013 og MA-prófi 2015. Útskrifaðist 2016 í Gagnrýnin hugsun og siðfræði, og sama ár með viðbótardiplóma í Menntun framhaldsskólakennara. En hjá H.Í. hefur hann einnig notið þess að vera aðstoðarkennari í nokkrum fögum í heimspeki.

Bækur hans eru 40 talsins, þar af eru sex skáldsögur fyrir börn, tvær skáldsögur fyrir fullorðna, ýmsar barnabækur, ljóðabækur, vísnabækur og ein ævisaga. Einnig hefur hann skrifað nokkur leikverk; útvarpsleikrit og verk fyrir leiksvið. Hann á u.þ.b. 200 lög á diskum og u.þ.b. 800 útgefna söngtexta, tugi texta sem sungnir hafa verið við athafnir og tugi ljóða sem tónskáld hafa tónsett og flutt hafa verið á tónleikum.

Hann hefur farið víða með fyrirlestra, hefur haldið tónleika og tekið þátt í alls konar uppákomum. Þá hefur hann ritstýrt nokkrum verkum og skilað samfélaginu u.þ.b. 500 blaðagreinum í áranna rás. Við þetta má svo bæta tugum útvarpsþátta og útvarpsþáttaraða sem hann hefur komið að, með einum eða öðrum hætti, einkum á Rás 1.


 

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |