Gagnrýnin hugsun: Leitin að dýrmætum spurningum

Gagnrýnin hugsun er nauðsynleg öllum sem vilja sjá framfarir, öllum sem vilja tryggja sinn hag og öllum sem hafa í hyggju að setja sér skýr markmið. En þetta merkir að hver sá sem styðst við leiðir gagnrýninnar hugsunar hefur forskot á þá sem t.d. trúa í blindni á svör og leita ekki að staðfestingum með því að spyrja.

Í fyrirlestrinum vinnur Kristján með uppbyggilega hugsun og mun svara sjö spurningum sem eru að finna í bókinni Hugleiðingar um gagnrýna hugsun, eftir þá Henry Alexander Henrysson og Pál Skúlason. Hann setur svör sín í tengsl við aðra spurningu sem er tengd kennsluefni í samskiptafærni og fjallar m.a. um þrjá grunnþætti allrar menntunar, sem hann vill meina að séu: Gagnrýnin hugsun, vilji til verka og hugsanlegur ávinningur. Spurningin sem er undirliggjandi grunnur svara Kristjáns er tvíþætt og hljóðar svo: Hver getur verið hugsanlegur hagur fyrirtækis eða einstaklings af því að sýna vilja í verki og hvers vegna ættu menn að vilja sjá ávinning af því að læra og tileinka sér tiltekna færni? Hann mun þannig spegla viðhorf og hugmyndir ímyndaðs nemanda í spurningum þeirra Páls og Henrys.

Í fyrirlestri þessum eru færð rök fyrir því hvernig rétt er að skoða gaumgæfilega þær fullyrðingar sem við þurfum að glíma við. Einnig er ætlunin að sýna og sanna að svörin eru minna virði en spurningarnar sem við þau vakna. Leitin að svörunum er sá þáttur sem gefur þeim gildi og ígrundun þeirra með gagnrýninni hugsun er aflið sem færir okkur vissu, en vissan sú arna kennir okkur að hætta aldrei að spyrja.

 

Kristján Hreinsson er skáld og heimspekingur, hann er enn að nema við Háskóla Íslands en starfar við að rita ljóð, leikrit, skáldsögur, smásögur, söngtexta og sinnir verkum sem listinni tengjast. Hann hefur síðustu árin haldið fjölda námskeiða, einkum á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, en einnig hjá Söngskóla Reykjavíkur og á fleiri stöðum. Um er að ræða námskeið í bragfræði, skáldlegum skrifum, limrugerð og söngtextagerð. Hann nam leikhús við Háskólann í Bergen (lauk því sem nefnist grunnfag og miðfag), þá nam hann heimspeki við Háskóla Íslands, lauk þaðan BA-prófi 2013 og MA-prófi 2015. Útskrifaðist 2016 í Gagnrýnin hugsun og siðfræði, og sama ár með viðbótardiplóma í Menntun framhaldsskólakennara. En hjá H.Í. hefur hann einnig notið þess að vera aðstoðarkennari í nokkrum fögum í heimspeki.

Bækur hans eru 40 talsins, þar af eru sex skáldsögur fyrir börn, tvær skáldsögur fyrir fullorðna, ýmsar barnabækur, ljóðabækur, vísnabækur og ein ævisaga. Einnig hefur hann skrifað nokkur leikverk; útvarpsleikrit og verk fyrir leiksvið. Hann á u.þ.b. 200 lög á diskum og u.þ.b. 800 útgefna söngtexta, tugi texta sem sungnir hafa verið við athafnir og tugi ljóða sem tónskáld hafa tónsett og flutt hafa verið á tónleikum.

Hann hefur farið víða með fyrirlestra, hefur haldið tónleika og tekið þátt í alls konar uppákomum. Þá hefur hann ritstýrt nokkrum verkum og skilað samfélaginu u.þ.b. 500 blaðagreinum í áranna rás. Við þetta má svo bæta tugum útvarpsþátta og útvarpsþáttaraða sem hann hefur komið að, með einum eða öðrum hætti, einkum á Rás 1.


 

 

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |