Viðskiptasiðfræði: Viðskipti sýna innri mann

Siðfræðin er fræði um siðferði okkar og siðferðið snýst um þær kröfur sem við gerum til okkar um rétta breytni, þ.e.a.s. skráðar og óskráðar reglur sem við þurfum að fara að í margs konar samskiptamynstrum. Með siðfræðinni skoðum við þau lögmál sem við viljum að gildi um hegðun okkar.

Þrenns konar vangaveltur geta sýnt okkur leiðir til að véfengja skýringar orðræðunnar um siðfræði t.d. í viðskiptum; sú vangavelta sem segir að tungumálið geti aldrei lýst öllum veruleikanum, sú vangavelta sem segir okkur að orðin hafi í raun einungis þá merkingu sem við gefum þeim og sú vangavelta sem segir að sjónarhorn hvers og eins komi í veg fyrir að hægt sé að tala um staðreyndir. Ef þetta er rétt þá segja vangavelturnar okkur - allar sem ein -að auðvelt sé að túlka lög og teygja, að auðvelt sé að komast að rangri niðurstöðu og að auðvelt sé að sjá heiminn eins og allt sé byggt á gagnkvæmum misskilningi. 

Í fyrirlestrinum er fjallað um leiðir til að nálgast huglægan samfélagssáttmála með því að brúa bil á milli heims sem auðvelt er að misskilja og hugtaka sem auðvelt er að skilja. Kenndar eru þrjár reglur en með þeim telur Kristján að virkja megi samfélagslega ábyrgð. Markmiðið er að glíma siðfræði í viðskiptum og spurningin sem yfir vötnunum svífur er alltaf þessi: Hvernig getur hugsun um dygðir hjálpað okkur við að leita lausna? 


Kristján Hreinsson er skáld og heimspekingur, hann er enn að nema við Háskóla Íslands en starfar við að rita ljóð, leikrit, skáldsögur, smásögur, söngtexta og sinnir verkum sem listinni tengjast. Hann hefur síðustu árin haldið fjölda námskeiða, einkum á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands, en einnig hjá Söngskóla Reykjavíkur og á fleiri stöðum. Um er að ræða námskeið í bragfræði, skáldlegum skrifum, limrugerð og söngtextagerð. Hann nam leikhús við Háskólann í Bergen (lauk því sem nefnist grunnfag og miðfag), þá nam hann heimspeki við Háskóla Íslands, lauk þaðan BA-prófi 2013 og MA-prófi 2015. Útskrifaðist 2016 í Gagnrýnin hugsun og siðfræði, og sama ár með viðbótardiplóma í Menntun framhaldsskólakennara. En hjá H.Í. hefur hann einnig notið þess að vera aðstoðarkennari í nokkrum fögum í heimspeki.

Bækur hans eru 40 talsins, þar af eru sex skáldsögur fyrir börn, tvær skáldsögur fyrir fullorðna, ýmsar barnabækur, ljóðabækur, vísnabækur og ein ævisaga. Einnig hefur hann skrifað nokkur leikverk; útvarpsleikrit og verk fyrir leiksvið. Hann á u.þ.b. 200 lög á diskum og u.þ.b. 800 útgefna söngtexta, tugi texta sem sungnir hafa verið við athafnir og tugi ljóða sem tónskáld hafa tónsett og flutt hafa verið á tónleikum.

Hann hefur farið víða með fyrirlestra, hefur haldið tónleika og tekið þátt í alls konar uppákomum. Þá hefur hann ritstýrt nokkrum verkum og skilað samfélaginu u.þ.b. 500 blaðagreinum í áranna rás. Við þetta má svo bæta tugum útvarpsþátta og útvarpsþáttaraða sem hann hefur komið að, með einum eða öðrum hætti, einkum á Rás 1.


 

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |