Að stjórna fólki 30. mars kl. 9-16 FJARNÁMSKEIÐ

Á námskeiðinu fara þátttakendur í sjálfsskoðun þar sem þeir leggja hreinskilið mat á árangursþætti í starfi stjórnenda. Hvaða atriði eru þeir góðir í sem stjórnendur og hvaða atriði mættu þeir bæta hjá sjálfum sér? Þátttakendur kynna niðurstöður sjálfsmatsins fyrir hópnum. 


Fjöldi kenninga er til um áhrifaríka stjórnun. Ein lífseigasta þeirra er kenningin um aðstæðubundna stjórnun eftir Hersey & Blanchard frá árinu 1969 en hún er notuð í stjórnendaþjálfun um allan heim. Styrkleiki kenningarinnar liggur í einfaldleikanum og áherslunni sem lögð er á hlutverk náms. Samkvæmt kenningunni hafa aðstæður stjórnanda og starfsmanns áhrif á hvaða stjórnunarstíl sé best að beita. Samkvæmt kenningunni á að tengja saman stjórnunarstíl og verkefnaþroska starfsmanns. Með verkefnaþroska er átt við í hve miklum mæli starfsmaður er hæfur til að framkvæma tiltekið verkefni þ.e.a.s. í hve miklum mæli hann er viljugur og hefur getu og reynslu til að takast á við þær kröfur sem verkefnið gerir. Verkefnaþroski er breytilegur, bæði hvað varðar vilja og getu en einnig eftir verkefnum og tíma. Eftir því sem verkefnaþroski starfsmannsins eykst lagar stjórnandinn stjórnunarstílinn að breyttum aðstæðum.


Á námskeiðinu er fjallað um hlutverk og ábyrgð stjórnandans. Þátttakendur svara spurningalista sem segir til um stjórnunarstíl þeirra. Farið er í hlutverkaþjálfun (role-play) þar sem mismunandi stjórnunarstílar eru æfðir eins og að beita mikilli stýringu, ráðgefandi stjórnunarstíl og felandi stjórnunarstíl (delegation). Stuðst er við dæmi sem þátttakendur eru að glíma við í daglegu starfi.

 

Námskeiðið hentar öllum þeim stjórnendum sem vilja styrkja sig í starfi og taka þátt í uppbyggilegri umræðu um hlutverk stjórnenda.


Meðal þess sem tekið er fyrir á námskeiðinu:
 • Mat á árangri í starfi.
 • Stjórnunarstílar og hlutverk stjórnandans.
 • Stjórnandinn sem fyrirmynd.
 • Frammistöðumat og færnin við að veita endurgjöf á frammistöðu.
Ávinningur:
 • Vitneskja um eigin styrkleika og það sem þátttakendur þurfa að vinna í.
 • Innsýn í eigin stjórnunarstíl.
 • Færni í að beita mismunandi stjórnunarstílum.
 • Betri samtalstækni og lipurð og öryggi í samskiptum.
Kennsluaðferðir:
 • Verkefni.
 • Fyrirlestrar.
 • Hæfnisþjálfun.
 • Umræður.

Leiðbeinandi: Eyþór Eðvarðsson, M.A. í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun ehf.


Námskeiðsgjald: kr. 27.900

Upplýsingar og skráning: thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |