Að halda öðruvísi jól og áramót

Ingrid Kuhlman

Nú er ljóst að jól og áramót verða með óhefðbundnu sniði. Þrátt fyrir jákvæða þróun faraldursins undanfarið er staðan enn viðkvæm og lítið þarf út af bera til að kúrfan sveiflist upp aftur. Almannavarnir birtu um daginn upplýsingar um hvernig haga skuli jólunum og hvöttu landsmenn m.a. til að draga úr hópamyndun með því að versla á netinu, njóta samverustunda í netheimum og velja sér „jólavini“. Við eigum s.s. að hafa hámark 10 manns í okkar jólakúlu sem við ætlum að hitta yfir hátíðarnar. Mikilvægt er að velja í jólakúluna fólk sem við umgöngumst venjulega og láta þessar 10 manna jólakúlur ekki blandast. Það er kannski við hæfi að við ljúkum 2020, sem hefur verið krefjandi og öðruvísi ár fyrir svo margar sakir, á óhefðbundinn hátt.

Breytum því hvernig við tölum 
Það að halda öðruvísi jól og áramót þarf ekki að vera slæmt og skiptir viðhorf okkar þar miklu máli. Með því að breyta því hvernig við tölum um hlutina getum við breytt viðhorfi okkar gagnvart þeim aðstæðum sem við erum í. Í stað þess að hugsa „Sóttvarnalæknir er búinn að taka jólin af okkur landsmönnunum“, er betra að hugsa „Þessi jól verða örugglega eftirminnileg og alls ekki síðri en hefðbundin jól“.

Jákvæðar hliðar þess að halda öðruvísi jól
Hluti þess að breyta því hvernig við tölum um hlutina er að velta fyrir sér hverjar séu jákvæðar hliðar þess að halda öðruvísi jól. Að njóta gefandi samverustunda með kjarnafjölskyldunni og skapa skemmtilegar minningar? Að slaka á og endurhlaða rafhlöðurnar í stað þess að þeytast á milli búða á aðventunni? Að eyða minni peningum? Að geta verið á náttfötunum alla jólahátíðina? Að hafa loks tíma til að lesa bækur? Að hafa eitthvað til að segja barnabörnunum frá í framtíðinni? Kannski verður bara endurnærandi að brjóta upp hefðirnar sem eru svo einkennandi fyrir þennan tíma ársins.

Einblínum á hvað við getum gert
Það er líka gagnlegt að einblína á það sem við getum gert, í stað þess að vera upptekin af öllu því sem stendur okkur ekki til boða nú. Við getum til dæmis:

Verslað jólagjafir og mat á netinu
Skreytt heimilið hátt og lágt
Föndrað skreytingar eða kransa
Skipst á uppskriftum við ættingja
Spilað eða púslað
Bakað og skreytt kökur
Farið á rúntinn til að skoða jólaljósaskreytingar
Eldað saman eða pantað mat heim frá uppáhaldsveitingastaðnum
Tekið fyndnar fjölskyldumyndir í jólapeysum eða á náttfötunum
Skipulagt hitting, bingó eða pöbb kviss í netheimum
Horft á tónleika á netinu eða í sjónvarpinu
Horft á skemmtilega þáttaröð eða bíómyndir og haft kósýstund
Stundað útivist

Jól og áramót eru tími samveru, góðvildar og samkenndar. Það breytist ekki þó að sóttvarnareglur séu við lýði. Þetta er kjörinn tími til að skapa nýjar fjölskylduhefðir.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar.

Birtist í Morgunblaðinu 21. desember 2020.

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |