Heiminn vantar fyrirmynd

Heiminn vantar fyrirmynd

Þórhildur Þórhallsdóttir

Umræðan um gróðurhúsaáhrifin og loftslagsbreytingar af þeirra völdum hefur verið nokkuð ruglingsleg og misvísandi fyrir almenning. Mismunandi skoðanir á málinu hafa að einhverju leiti komið í veg fyrir að almenningur tæki ábyrga afstöðu og gripi til þeirra ráðstafana sem borgararnir hafa í hendi sér í málinu. Nú eru uppi teikn á lofti um að þetta gæti verið að breytast.

Þann 26. september birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem segir að samkvæmt nýrri könnun telji meirihluti almennings í mörgum löndum heims loftslagsbreytingar vera af mannavöldum. Jafnframt var meirihlutinn þeirra skoðunar að grípa þyrfti strax til aðgerða til að sporna við þróuninni. Þetta almenningsálit er í samræmi við álit sérfræðinga um heim allan varðandi áhrif mannsins á aukningu svokallaðra gróðurhúsalofttegunda í lofthjúpnum og áhrifa þess á hitastig á jörðinni.

Þann 17. og 18. september síðastliðinn var haldin ráðstefna í Reykjavík undir heitinu Driving Sustainability - Fueling the future of transport. Á ráðstefnunni töluðu sérfræðingar á sviði rannsókna og notkunar á umhverfisvænu eldsneyti til samgangna ásamt stjórnmálamönnum frá borg og ríki. Veg og vanda að ráðstefnunni átti Teitur Þorkelsson og hann, ásamt fjölmörgum styrktaraðilum, á heiður skilinn fyrir að skapa þennan vettvang fyrir þessa mjög svo brýnu umræðu. Erindin sem flutt voru gáfu góða mynd af þeim möguleikum sem í boði eru í dag og nánustu framtíð til að nýta annarskonar eldsneytisgjafa en jarðeldsneyti. Fram kom í máli margra sérfræðinganna sem þarna töluðu að í raun væri tíminn sem við höfum til að bregðast við ójafnvægi framboðs og eftirspurnar á jarðeldsneyti auk loftslagsbreytinga vegna brennslu slíks eldsneytis afar naumur og í raun ekki nægur, við stæðum frammi fyrir gríðarlegum vanda nú þegar. Því væri það afar brýnt að við jarðarbúar tækjum höndum saman strax og gerðum allt sem í okkar valdi stæði til að minnka skaðann og leita leiða til að nýta aðra eldsneytisgjafa en nú er gert.

Er eitthvað hægt að gera?
Gleðilegu fréttirnar eru þær að nú þegar er ýmislegt hægt að gera til að draga úr mengun og orkusóun. Fram kom á ráðstefnunni að Svíar og Frakkar hafa nú þegar hafið íblöndun alls bílaeldsneytis með etanóli sem er endurnýtanlegt eldsneyti unnið úr plöntum. Etanólið mengar minna auk þess sem það eykur ekki losun gróðurhúsalofttegunda þar sem stöðugt þarf að rækta plöntur í stað þeirra sem nýttar eru til framleiðslunnar. Komnir eru á markaðinn bílar frá Ford, Volvo og Saab sem nýta slíkt eldsneyti en ganga jafnframt fyrir bensíni ef á þarf að halda. Mikill fjöldi bílaframleiðenda er á leið á markað með slíka bíla strax á næsta ári. Í tengslum við ráðstefnuna var flutt inn Fordbifreið ásamt Volvobifreið með slíkum vélum og flutt var inn nokkurt magn etanóls og er dreifing þess hafin. Biodísel er eldsneyti af sama toga og etanólið og nú þegar er hægt að kaupa íblandað dísel eldsneyti hérlendis. Rafbílar hafa verið á markaði um nokkurt skeið og hægt er að kaupa litla borgarbíla sem ganga eingöngu fyrir rafmagni. Á ráðstefnunni kom fram að unnið er hörðum höndum að því að þróa öflugri rafhlöður fyrir bíla sem knúið gætu “venjulega” bíla, ef svo má að orði komast sem skiluðu sömu eða meiri afköstum en hefðbundið eldsneyti. Þetta er nú þegar mögulegt en er enn of dýrt fyrir hinn almenna markað. Svokallaðir tvinn-bílar sem bæði nýta rafmagn og hefðbundið eldsneyti eru til og hérlendis er hægt að kaupa Prius frá Toyota sem er bæði knúinn með rafmagni og hefðbundnu eldsneyti. Bílar sem ganga fyrir metangasi og vetni eru nú þegar á götunum hér en eru aðallega í eigu fyrirtækja.

Boltinn er hjá mér og þér – hvað segið þið um heimsmet?
Þetta er mál sem varðar okkur öll og kannski það mál sem mun varða framtíð okkar og lífviðurværi hvað mest á komandi árum. Það er því vart ásættanlegt að sitja með hendur í skauti og gera ekki neitt. Það vakti athygli að erlendu sérfræðingarnir á áðurnefndri ráðstefnu minntust margir á þann spennandi möguleika að Ísland ætti raunhæfan kost á því að verða fyrsta þjóð heimsins sem nýtti eingöngu endurnýtanlega orkugjafa. Jafnframt kom fram sú hugmynd að Ísland gæti verið ákjósanlegt sem reynslumarkaður fyrir nýja bíla vegna smæðar markaðarins auk vel upplýstra neytenda. Að auki væri fjarlægð heimspressunnar ákjósanleg fyrir slíka tilraunastarfsemi. Þetta er athyglisverð hugmynd og fer skemmtilega saman við nýjungagirni þjóðarsálarinnar. Hvað segið þið landar góðir um að við sláum heimsmet? Og í þetta sinn á vettvangi sem skiptir virkilega einhverju máli? Hvað segið þið um að verða fyrst allra þjóða sem virkilega getur sagt að hlutfall endurnýtanlegrar orku sé hærra á öllum sviðum orkunotkunar?

Þekkingarmiðlun hefur einsett sér að láta ekki sitt eftir liggja á sviði umhverfismála og undirbýr nú vinnustofu og fræðsluefni fyrir fyrirtæki og stofnanir varðandi aukna vitund á sviði umhverfismála. Þar verður áhersla lögð á aðgerðir til að draga úr losun koltvísýrings. Áhugasömum er bent á netfangið thorhildur@thekkingarmidlun.is.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. október 2007.

 

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |