Hvað læra má um virðingu, ábyrgð, traust og skilning af þeim færustu í samskiptum?

Skoðanir manna eru misjafnar og ólíkar eins og mannfólkið er misjafnt og ólíkt. Það er því ekki raunhæft að ætlast til þess að allir kunni að orða og segja hluti á þann hátt sem okkur líkar. Það er alls ekki víst að það sé viðmælandanum að kenna ef við upplifum virðingarleysi. Virðing er upplifun frekar en hegðun. Það er jú eingöngu túlkun á hegðuninni sem gefur vísbendingu um virðinguna. Þeir sem eru virkilega liprir í samskiptum bera ábyrgð á því sjálfir að þeir túlki ekki að óþörfu að þeim sé ekki sýnd virðing, t.d. með því að spyrja nánar um það sem sagt var. Þeir bestu reyna að tryggja að orð þeirra sjálfra séu rétt túlkuð og enginn misskilningur verði. Rannsóknir sýna að þeir sem ná að sigla milli skers og báru í viðkvæmum samskiptum gera nokkur atriði sem læra má af. 

Í fyrirlestrinum verður farið yfir nokkur fullyrðingar sem fólk gjarnan segir og hvernig megi bregðast við. Dæmi um það er þegar einhver lætur út úr sér að „atvinnulausir séu latir“. Hvernig á að bregðast við því? Væri gott að segja strax til baka „Nei, atvinnulausir eru ekki latir“? eða segja að viðmælandinn „viti ekkert hvað hann er að segja“? Þeir bestu væru líklegir til að spyrja nánar út í hvað viðkomandi sé nákvæmlega að meina og af hverju hann dragi þá ályktun, og rökræða síðan forsendurnar. Þeir eru líklegir til að tímasetja hvenær þeir koma með sína skoðun og setja hana fram á þann hátt að viðmælandinn skilji rökin. Hljómar einfalt... en auðvelt að gleyma sér... 

Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman

Skráning á póstlista  |    |  

thekkingarmidlun@thekkingarmidlun.is  Þekkingarmiðlun sími: 892 1987 / 892 2987 |