Viðurkennd mælitæki
Resilience Factor Inventory (RFI)
Resilience Factor Inventory (RFI) er próf sem mælir 7 þætti tilfinningalegs styrks sem eru: Tilfinningastjórnun (Emotion regulation), Hvatvísi (Impulse Control), Samkennd (Empathy), Orsakagreining (Causal Analysis), Eigið getumat (Self-efficacy), Bjartsýni (Optimism) og Áskorun (Reaching out). Prófið er byggt á víðtækum rannsóknum á því hvernig framúrskarandi einstaklingar takast á við mótlæti og erfiðleika í leik og starfi. Námskeiðið byggir á vinnu Karen Reivich Ph.D. og Andrew Shatté Ph.D. sem skrifuðu m.a. metsölubók um tilfinningalegan sveigjanleika sem kom út árið 2002 og heitir The Resilience Factor (ISBN 0-7679-1190-3). Þátttakendur fylla prófið út og biðja síðan samstarfsmenn um að fylla það út um sig. Þannig fá þeir samanburð á eigin mati og mati annarra. Prófið er hægt að taka á Netinu.
Inventory of Leadership Styles (ILS)
Þekkingarmiðlun er leyfishafi af einu af algengustu stjórnunarprófum sem notuð eru í Evrópu og Bandaríkjunum. Prófið er einkar hentugt fyrir þjálfun og byggir bæði á sjálfsmati stjórnanda og mati undirmanna á stjórnandanum. Prófið mælir helstu atriðin sem bæði örva og hamla frammistöðu undirmanna. Próftaki fær mat á frammistöðu sína á sex mismunandi stjórnunarstílum sem allir eru gagnlegir ef þeir henta aðstæðum og einstaklingnum. Prófið byggir á kenningu Litwin og Stringer um stjórnun og rannsóknum fyrirtækjanna McBer, HayGroup og McClelland Center for Research and Innovation. Metsölubókin Primal Leadership frá árinu 2002 (ISBN 1-57851-486-X) eftir m.a. Richard Boyatzis, Daniel Goleman og Annie McKee byggir á þeim grunni. Prófið er hægt að taka á Netinu.
Tilfinningagreindarpróf (Daniel Goleman)
Þekkingarmiðlun er leyfishafi af tilfinningagreindarprófi Daniels Golemans, sem talið er með því besta á þessu sviði í heiminum í dag. Þátttakendur fylla prófið út og biðja síðan 11 aðra um að fylla það út um sig. Þannig fá þeir samanburð á eigin mati og mati annarra. Prófið er einkar hentugt fyrir þá sem af fullri alvöru vilja bæta árangur sinn.
Persónuleikapróf Myers-Briggs (MBTI)
Öll erum við einstök á okkar sérstaka hátt og okkur gengur betur að ná til sumra en annarra. Árangurinn sem við náum byggist á því hvernig við umgöngumst okkur sjálf og aðra. Persónuleikapróf MBTI, sem er eitt mest notaða persónuleikaprófið í heiminum í dag, gefur innsýn í hegðun og samskiptamáta fólks. Prófið gerir greinarmun á 16 persónuleikum eftir því hvort menn skora hátt á þátttunum Extrovert-Introvert, Sensing-Intuition, Thinking-Feeling og Judging-Perceiving. Það dregur fram styrkleika hvers persónuleika.