Saga Veigu er saga konu sem var föst í líkama karls í 38 ár. Í þessum einlæga og persónulega fyrirlestri fer Veiga yfir það hvernig það var að vera barn, unglingur og fullorðin og burðast alltaf með leyndarmálið um það hver hún var.
Hvernig feluleikurinn bugaði hana að lokum og varð að þunglyndi og sárum hugsunum um að deyja frekar en lifa áfram í sínum líkama.
Veiga horfðist í augu við sjálfa sig, viðurkenndi eigin tilfinningar, sjálfsmynd og fordóma og fór í kynleiðréttingu með öllum þeim aðgerðum og meðferðum sem henni fylgja. Líf hennar hefur ekki alltaf verið dans á rósum en hún hefur fylgt hjartanu og er í dag hamingjusöm kona. Reynslan hefur kennt henni margt og eitt af því er að gefast ekki upp þótt á móti blási.
Veiga segir frá lífi sínu á sinn einstaka og einlæga hátt og það er stutt í húmorinn enda uppákomurnar margar háalvarlegar og svo alvarlegar að ekki er hægt annað en að brosa. Hvað segir maður t.d. í sturtu í sundlauginni þegar barnið manns kallar „pabbi!“
Saga Veigu er saga sem á erindi til allra og snertir alla.
Ummæli:
Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður og Veiga var mjög einlæg og hispurslaus í sinni frásögn. Eftir fyrirlesturinn gaf hún færi á spurningum og út frá þeim spunnust áhugaverðar umræður. Í alla staði góður fyrirlestur.
Sigríður Héðinsdóttir, mannauðsstjóri Daga