Árið 2002 kom út metsölubók eftir Karen Reivich Ph.D. og Andrew Shatté Ph.D. sem nefnist The Resilience Factor. Í bókinni segja höfundar frá víðtækum rannsóknum sínum á því hvernig framúrskarandi einstaklingar takast á við mótlæti og erfiðleika í leik og starfi. Það mikilvægasta er hvernig þeir hugsa og hvernig þeir vinna úr þeim atburðum sem gerast í kringum þá.
Á fræðimáli kallast þessi eiginleiki „seigla“ (e. resilience). Við þurfum öll á seiglu að halda til að ná okkur eftir mótlæti og takast á við daglegar hindranir.
Við höfum öll tilhneigingu til að nota ákveðinn hugsunarstíl til að útskýra það sem gerist í lífi okkar og hvers vegna það gerist. Við þróum þennan stíl í æsku og höldum okkur við hann það sem eftir er ævi okkar, nema við tökum meðvituð skref til að breyta honum. Hugsunarstíllinn virkar eins og viðmið sem við notum til að útskýra fyrir sjálfum okkur hvers vegna hlutir, slæmir eða góðir, hendi okkur. Hægt er að auka seigluna með því að breyta hugsunarstílnum sínum.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir sjö þætti seiglu, hvernig þeir birtast og hvernig við getum aukið seiglu. Hér er á ferðinni efni sem er nauðsynlegt öllum þeim sem vilja auka sinn innri styrk.
Fyrirlesari: Ingrid Kuhlman, MSc í hagnýtri jákvæðri sálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun.