Það er fátt sem kostar okkur jafn mikla orku og að eiga við suma samstarfsmenn. Þekktar týpur erfiðra samstarfsmanna eru t.d. vitringarnir sem allt vita.
Það eru þrjár týpur af þeim, rétt eins og í hinni helgu bók þ.e. alvitringur sem gott er að hafa þegar kemur að spurningakeppnum, hálfvitringur sem er erfiðasta týpan og Þjóðverjar kalla „besserwisser“ og svo óvitringur, sem er auðveldastur.
Nöldrararnir eru algengastir en þeir eru með allt á hornum sér, vita hvenær lægðirnar koma og vita einnig að allt er verra en það virðist. Þeir telja sig raunsæja. Einræðisherrarnir eru fyrirferðamestir því þeir missa stjórn á sér og gera okkur hin meðvirk.
En hvað getur maður gert? Það er auðvitað hægt að laga margt ef aðgengi er að nokkru magni af pillum og rafstuðstækjum. En þar sem fáir vinnustaðir bjóða upp á slíkt þurfum við að nota aðrar aðferðir.
Í þessum fyrirlestri, sem er 45 mínútur, verður farið yfir hvað hægt sé að gera til að bjarga okkur og hinum samstarfsmönnunum frá þeim erfiðu.