Ekki er ýkja langt síðan við réðum litlu um okkar eigið heilsufar. Þá voru það smitsjúkdómar og næringarskortur sem drógu flesta til dauða og lítil úrræði í boði. Í dag getum við komið í veg fyrir verstu smitsóttir og höfum aðgang að fjölbreyttu fæðuvali en eftir situr að 86% ótímabærra dauðsfalla má rekja til óheilbrigðra lífshátta.
Auk þess býr stór hluti okkar við slök lífsgæði vegna heilsubrests. Þekking okkar í dag sýnir að við getum ekki einungis komið í veg fyrir skæðustu smitsóttir heldur einnig stærsta hluta ótímabærra dauðsfalla með því að fjárfesta í eigin heilsu til frambúðar.
Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvernig framfarir í vísindum hafa gjörbreytt hvaða þættir ógna heilsu nútímamannsins. Fjallað verður um heilbrigða lífshætti sem hægt er að tileinka sér með einföldum hætti til að verja sig gegn algengum lífsstílstengdum sjúkdómum. Einnig verður fjallað um þætti sem rannsóknir hafa sýnt að stuðli að hamingju og vellíðan.
Fyrirlesari: Dr. Edda B. Þórðardóttir. Hún er nýdoktor við Læknadeild Háskóla Íslands og sinnir kennslu við þá stofnun. Edda er með doktorsgráðu í lýðheilsuvísindum og með bakgrunn í sálfræði. Helstu rannsóknir hennar eru á sviði áfallafræða og hefur hún haldið fjölmörg erindi bæði á innlendum og erlendum ráðstefnum tengt því fagi. Edda er einnig einn stofnenda vefsíðunnar Heilsan okkar.