Stjórnun á umrótartímum

Óvissa er oft og tíðum fylgifiskur breytinga, sem geta dregið fram það versta í sumum og lamað vinnustaðinn. Hlutverk stjórnenda á breytingatímum er gríðarlega mikilvægt. Það eru til margar góðar stjórnunaraðferðir sem hafa jákvæð áhrif á fólk í breytingum og árangur breytinga. Dæmi um það er að hafa samráð um breytingar og kynna þær vel.

Tilgangur breytinga þarf að vera skýr því annars er hætta á að þær verði taldar tilgangslausar. Stundum þarf að taka fastar í taumana, sérstaklega ef annað hefur ekki virkað. 

Það er vitað að hugmyndin um hinn sterka leiðtoga sem hrífur aðra með sér, vísar veginn og segir öllum hinum hvað þeir eigi að gera er ekki alveg sannleikanum samkvæm. Myndin er aðeins flóknari því oft veit stjórnandinn ekki alveg hvert lokamarkmiðið er eða hvernig eigi að komast þangað. Það er heldur ekki nóg að stjórnandinn viti hvert eigi að fara því allur hópurinn þarf að fylgja með.  

Í þessum 45 mínútna fyrirlestri verður farið yfir nokkrar þekktar og gagnlegar breytingakenningar og aðferðir sem gott er fyrir stjórnendur að þekkja. Dæmi um það er tómarúmið svokallaða sem William Bridges nefnir í bókinni Managing Transitions, en það er tíminn á milli þess sem var og verður. Í tómarúminu getur brugðið til beggja vona þ.e. bæði eru hættur og tækifæri.

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson, MA í vinnusálfræði, þjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun