Vinnupersónuleikar

Ein af merkilegri kenningum um samstarf í hópum er kenningin um hóphlutverk eftir breska sálfræðinginn Meredith Belbin. Belbin hefur um árabil rannsakað hópa og hvað það er sem gerir þá árangursríka.

Bók hans, Management Teams, hefur verið nefnd m.a. af Financial Times sem ein af fimmtíu bestu bókum um stjórnun frá upphafi. Belbin greinir átta hlutverk sem einstaklingar í hópum virðast ganga í. Hver hópur hefur þörf fyrir ákveðna blöndu af þessum átta hlutverkum til að geta skilað árangri. Þetta þýðir til dæmis að hópur framúrskarandi einstaklinga getur skilað lélegum árangri ef ekkert jafnvægi er í samsetningu hlutverkanna. Á sama hátt geta hópar sem myndaðir eru af einstaklingum sem fyrirfram eru ekki taldir líklegir til stórverka náð mjög góðum árangri ef hlutverkin eru í jafnvægi.

Belbin greinir á milli átta hóphlutverka og flestir eru aðeins góðir í tveimur eða þremur þeirra. Aðeins í þeim hlutverkum finnur fólk sig og nær að skila góðu og ósviknu framlagi til hópsins.

Í fyrirlestrinum er farið í einkenni skilvirkra hópa. Teknir eru fyrir mismunandi vinnupersónuleikar og hvernig þeir starfa saman.

Fyrirlesari: Eyþór Eðvarðsson eða Ingrid Kuhlman, þjálfarar og ráðgjafar hjá Þekkingarmiðlun.