Margir glíma við þann slæma sið að slá verkefnum á frest. Afleiðing frestunar er oft mikil og ónauðsynleg tímasóun auk þess sem hún kemur í veg fyrir að draumar rætist, markmið náist og hugmyndum sé komið í framkvæmd.
Fyrir marga er frestun slæm venja eða viðhorf sem dregur úr framleiðni og eykur streitu og sektarkennd.
Frestun er einfaldlega að vinna ekki mikilvægustu verkefnin strax. Frestun er að taka til á borðinu hjá þér þegar þú ættir að vera að einbeita þér að mikilvægri skýrslu; að horfa á sjónvarpið þegar þú ættir að vera að læra undir próf; að fá þér annan kaffibolla á kaffihúsi þegar þú ættir að vera komin(n) á skrifstofuna; að svara léttvægum tölvupóstum þegar þú ættir að vera að undirbúa sölukynningu fyrir mikilvægan viðskiptavin; að fresta því að verja tíma með börnunum af því að eitthvað annað virðist vera meira áríðandi, þangað til þau eru allt í einu vaxin úr grasi og þú áttar þig á því að það er oft seint til að gera það sem þú hafðir alltaf ætlað að gera.
Ástæður frestunar
Ástæður þess að við frestum verkefnum eru margvíslegar. Til eru þeir sem upplifa verkkvíða gagnvart því að byrja á verkefnum. Viðbrögð við þess háttar kvíða eru oft tilhneiging til að slá hlutunum á frest og tína til allskonar réttlætingar fyrir því að byrja ekki. Sumir leggja á skipulegan flótta og snúa sér að öðrum verkefnum sem hugsanlega eru auðveldari viðfangs eða skemmtilegri. Við reynum að vera upptekin svo við séum með afsökun fyrir að framkvæma ekki. Á sama tíma er samviskan að naga og innri samræður ganga út á það að verið sé að slugsa. Afleiðingin er enn meiri sektarkennd, pirringur og kvíði sem vex eftir því sem hlutunum er lengur slegið á frest. Verkefni nefnilega hverfa ekki með því að horfa framhjá þeim, ýta þeim burt úr huganum eða draga þau á langinn. Frestun leiðir yfirleitt til þess að okkur líður verr.
Önnur ástæða frestunar er að færast of mikið í fang, oft vegna þess að það er okkur þvert um geð að segja nei. Síðan eru margir sem tala um að þeir vinni vel undir álagi, sem er mikil blekking. Álagsfíklar láta stjórnast af ytri áreitum en koma síðan litlu í verk þegar utanaðkomandi pressu skortir.
Það er algengt að fresta verkefnum sem eru leiðinleg, ógeðfelld eða óþægileg. Við frestum einnig þegar við vitum ekki alveg hvernig best væri að leysa verkefnið af hendi eða þegar okkur skortur nauðsynlegar upplýsingar eða gögn. Skortur á markmiðum, tímamörkum eða umbun getur leitt til frestunar. Ótti af ýmsum toga getur einnig verið lamandi afl. Má þar t.d. nefna ótta við að mistakast, ótta við höfnun eða gagnrýni, ótta við ófullkomnun, ótta við velgengni, ótta við breytingar eða hið óþekkta, ótta við að standast ekki væntingar og ótta við að taka mögulega rangar ákvarðanir.
Leiðir til að takast á við frestunaráráttu
Til eru nokkrar góðar aðferðir til að sigrast á frestunaráráttu:
- Ef þú átt það til að slá málum á frest er best að viðurkenna vandann, hætta að réttlæta hegðunina og byrja að framkvæma.
- Greindu ástæðuna fyrir því að þú frestar til að þú getir gert viðeigandi ráðstafanir. Er verkefnið ekki sérlega mikilvægt? Ljúktu því þá af eða láttu einhvern annað sjá um það. Aðrir hafa oft gaman af því sem við höfum sjálf litla ánægju af. Er tímasetningin ekki rétt? Finndu þá hentuga tímasetningu og settu verkefnið á aðgerðalistann. Er verkefnið leiðinlegt? Breyttu þá viðhorfi þínu til verkefnisins og leggðu þig fram við að ljúka því. Innsýn í ástæður frestunar getur gefið þér mikilvægt tækifæri til að bregðast við á viðeigandi hátt. Ef þú hefur t.d. mikla ánægju af því að vera innan um fólk gæti verið betra að fara í hóptíma á líkamsræktarstöð eða stofna gönguhóp í stað þess að kaupa hlaupabretti.
- Fyrir suma virkar best að framkvæma alltaf leiðinlegustu eða erfiðustu verkefnin fyrst. Aðrir gera skemmtilegasta hlutann fyrst til að koma sér af stað.
- Skiptu stærri verkefnum niður í smærri og viðráðanlega áfanga og einbeittu þér svo að einu skrefi í einu.
- Gerðu aðgerðaáætlun í lok dagsins og haltu þig við hana. Aðgerðaáætlun er eins og vegakort fyrir næsta dag.
- Skipuleggðu verkefni í kringum truflanir. Truflanir eiga sér oft stað samkvæmt ákveðnum mynstrum og á ákveðnum tímum. Gerðu ráð fyrir að vinna að stærri verkefnum á þeim tíma sem truflanir eiga til að vera sem minnstar.
- Lærðu að segja nei.
- Hugsaðu um hversu vel þér muni líða þegar verkefninu er lokið.
- Skapaðu heitbindingu til framkvæmda með því að setja skýr tímamörk á verkefnið. Tímamörk hvetja til aðgerða.
- Segðu öðrum frá áætlun þinni.
- Verðlaunaðu þig fyrir að ljúka við verkefni með einhverju sem þér þykir eftirsóknarvert.
- Breyttu verkefninu í eitthvað jákvætt, gerðu það skemmtilegra, t.d. með því að hlusta á tónlist eða hljóðbók á meðan þú framkvæmir það eða fá aðra til liðs við þig. Margar hendur vinna létt verk auk þess sem tíminn líður hraðar.
- Hættu ekki fyrr en verkefninu er lokið. Sýndu sjálfsaga og þrautseigju.
Með því að venja sig af því að fresta hlutunum verður maður ánægðari, stoltari og kemur meiru í verk.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman