Að byggja upp viljastyrk og sjálfsaga

Kannastu við þá tilfinningu að langa í göngutúr vitandi það hversu gott það er fyrir heilsuna og hversu dásamlega þér líður eftir á, en verja kvöldinu í staðinn í að glápa á sjónvarpið?

Eða að vera meðvitaður um að þurfa að vinna í lokaritgerðinni eða taka matarræðið í gegn en skorta innri kjark og úthald til að breyta venjum þínum? 

Við könnumst líklega öll við þá tilfinningu að hugsa „Ég vildi að ég hefði viljastyrk og sjálfsaga“. Við erum öll með venjur sem við vildum gjarnan hætta, eins og t.d. að reykja, borða óhollan mat eða of mikinn, leti, frestunaráráttu eða skort á áræðni. Til að vinna bug á þessum ósiðum þurfum við að búa yfir sjálfsstyrk og sjálfsaga. 

Viljastyrk má skilgreina sem hæfnina til að sigrast á leti og frestunaráráttu ásamt hæfninni til að stjórna eða hafna ónauðsynlegum eða skaðlegum hvötum.  Viljastyrkur er að taka ákvörðun og fylgja henni eftir af þrautseigju þangað til skilgreindum ætluðum árangri hefur verið náð. Um er að ræða innri styrk sem sigrar löngunina til að tapa sér í ónauðsynlegum og tilgangslausum venjum. Innri styrk sem vinnur bug á tilfinningalegri og andlegri andstöðu okkar við að gera eitthvað í málinu. Viljastyrkur er einn af hornsteinum árangurs. Hægt er að auka hann með því að æfa sig í að halda aftur af sér og leyfa ekki léttvægum, ónauðsynlegum og óheilbrigðum hugsunum, tilfinningum, aðgerðum og viðbrögðum að koma fram. Hægt er að þjálfa viljastyrk á sama hátt og við þjálfum og styrkjum vöðvana okkar í líkamsræktinni.

Sjálfsagi er förunautur viljastyrks. Sjálfsagi gefur þol til að þrauka, sama hvað gengur á. Um er að ræða hæfnina til að standast þrautir og erfiðleika, hvort sem um er að ræða líkamlega, tilfinningalega eða andlega. Sjálfsagi veitir hæfnina til að fresta umsvifalausri ánægju, í þeim tilgangi að komast enn lengra.

Við erum öll með innri, ómeðvitaða eða meðvitaða hvata sem fá okkur til að segja eða gera eitthvað sem við sjáum eftir síðar. Oft hugsum við ekki áður en við tölum eða framkvæmum. Með því að þróa viljastyrk okkar og sjálfsaga verðum við meðvituð um þessa innri hvata og öðlumst hæfnina til að hafna því sem er okkur ekki fyrir bestu. Viljastyrkur og sjálfsagi hjálpar okkur við að velja hegðun okkar og viðbrögð, í stað þess að láta þau stjórna okkur.

Góð leið til að auka viljastyrk og sjálfsaga er að framkvæma hluti sem þú myndir helst forðast vegna leti, frestunaráráttu, breyskleika, feimni o.fl. Með því að framkvæma eitthvað sem þú hefur ekki gaman af eða hefur ekki nennu til er hægt að sigra andstöðu þína, þjálfa hugann til að hlýða þér, styrkja þinn innri kraft og öðlast innri styrk. Hér fyrir neðan eru nokkrar æfingar og aðferðir til að þróa viljastyrk og sjálfsaga. Þær er hægt að framkvæma hvar og hvenær sem er:

  1. Þú situr í strætó og gamall maður eða ólétt kona gengur inn. Stattu upp og bjóddu viðkomandi sætið þitt, jafnvel þó að þú myndir frekar sitja áfram. Ekki gera það til að vera kurteis heldur vegna þess að þú ert að gera eitthvað sem þú ert tregur til að gera. Þannig sigrar þú andstöðu líkama, huga og tilfinninga.
  2. Það eru diskar í vaskinum sem þarf að þvo og þú átt það til að fresta þessu verkefni þangað til síðar. Stattu upp og gakktu frá uppvaskinum núna. Láttu ekki bugast af leti.
  3. Þú kemur heim úr vinnunni og sest fyrir framan sjónvarpið af því að þú ert of latur og þreyttur til að fara í sturtu. Hlýddu ekki lönguninni til að sitja áfram heldur skelltu þér í sturtu.
  4. Líkar þér að drekka kaffið þitt með sykri? Drekktu það sykurlaust í heila viku. Drekkurðu yfirleitt 4 bolla af kaffi á dag? Minnkaðu það niður í tvo í heila viku.
  5. Þú færð löngun til að borða sælgæti sem þú átt til uppi í skáp. Vertu sterkur og neitaðu lönguninni.
  6. Sigrastu á leti í ritgerðarsmíði með því að sannfæra þig um mikilvægi þess að klára ritgerðina. Sannfærðu hugann um að þú öðlist innri styrk þegar þú gerir hluti þrátt fyrir leti, tregðu eða innri andstöðu.

Sýndu þrautseigju og veittu þér hvatningu með því að hugsa um útkomuna. Best er að þjálfa sig með einföldum æfingum til að byrja með og þyngja þær svo. Æfingarnar munu auka styrk þinn og veita þér ánægju, innri frið og hamingju. Ytri atburðir munu ekki lengur hafa áhrif á þig og aðstæðurnar stjórna ekki lengur hugarró þinni. Viljastyrkur og sjálfsagi gefa okkur stjórn á daglegu lífi, hjálpa okkur að bæta venjur okkar og hegðun, og eru lykillinn að árangri. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 20. febrúar 2010.