Að efla núvitund sína

Núvitund er ástand þar sem maður hefur athygli í núinu á opinn og virkan hátt. Núvitund snýst um að vakna til vitundar og taka eftir öllu því sem við sjáum, heyrum, brögðum á og snertum.

Hér fyrir neðan eru nokkrar æfingar sem hægt er að gera til að efla núvitund sína:

1. Kaffi- eða tedrykkja
Flest drekkum við kaffi eða te daglega án þess að hugsa. Breyttu því í dag. Byrjaðu á því að finna kaffibolla og taktu eftir handfanginu, stílnum, hvernig hann er á litinn o.s.frv. Taktu eftir ilminum og hlustaðu á kaffivélina eða teketilinn sjóða vatnið. Finndu gufuna streyma upp þegar þú hellir í bollann og taktu eftir lyktinni af hunanginu sem þú hrærir saman við drykkinn þinn. Finndu hvernig þú heldur á bollanum og hvernig munnurinn bíður eftir fyrsta sopanum. Taktu eftir bragðinu og finndu hitann í kokinu og drykkinn renna niður meltingarveginn.

2. Uppvaskið
Eftir kaffibollann daginn áður er komið að uppvaskinu, sem er frábær leið til að vekja skynfærin til vitundar. Taktu eftir hljóði vatsins þegar þú skrúfar frá krananum. Leyfðu höndunum að hreyfast í heita vatninu, taktu inn lyktina af uppþvottaleginum og handfjatlaðu hvern bolla og disk fyrir sig. Taktu eftir áferðinni og gefðu þér tíma til að hreinsa hvern einasta hlut í fullri vitund. 

3. Kyrrð þagnarinnar

Finndu stað þar sem þú getur verið fyllilega laus við símann, tölvur, sjónvarpið, útvarpið og samtöl annarra. Komdu þér þægilega fyrir og hringdu síðan bjöllu. Hlustaðu á tónana fjara út og leiða þig inn í djúpa þögnina. Vertu meðvitaður/-vituð um andardráttinn og finndi hvernig hugurinn hægir á sér. Taktu eftur hugsunum þínum þegar þær birtast og settu þær síðan til hliðar. 

4. Appelsínan
Haltu á appelsínu og taktu eftir áferð hennar og þyngd. Hugsaðu um fræin, sólina og rigninguna sem leiddu til þess að appelsínan varð til. Taktu börkinn af og finndu ilminn. Skiptu appelsínunni í smærri bita og kreistu nokkra dropa á tunguna; finndu hvernig tungan bregst við. Bíttu í appelsínubita og finndu hvernig bitinn kremst í munninum. Borðaðu appelsínuna hægt og í fullri vitund.

5. Andardrátturinn
Gefðu þér tíma til að njóta gjafar andardráttarinnar. Komdu þér vel fyrir á rólegum stað, leggstu á bakið, settu hendurnar á magann og andaðu hægt og rólega inn um nefið og út um munninn. Beindu athyglinni að önduninni og fylltu lungun af eins miklu súrefni og hægt er með því að anda djúpt inn, alveg niður í maga. Finndu hvernig brjóstkassinn lyftist og þenst út.

Að lokum er gott að huga að þessum fallegu orðum Sigurbjörns Þorkelssonar:

Vertu
á meðan þú ert
því það er of seint
þegar þú ert farinn.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 7. desember 2013.