Að gera eitthvað úr því sem í manni býr

Rannsóknir sýna að hugsun okkar er máttugt afl. Við eigum í látlausum innri samræðum og það hvernig við tölum við okkur sjálf hefur mikið að segja um hvernig okkur líður og hvernig við hegðum okkur.

Hugsanir okkar geta unnið með okkur, en líka á móti okkur. Neikvætt og óraunhæft sjálfsmat getur leitt til þess að við hættum að þora að leggja okkur fram eða reyna nýja hluti. Óraunhæfar hugmyndir um eigin getu geta leitt til neikvæðra tilfinninga sem auðveldlega standa í vegi fyrir árangri.

Að takast á við það sem heldur aftur af okkur
Í einni smásögu Tolstoj segir frá hópi barna sem er tjáð að lykillinn að hamingju þeirra sé falinn í garðinum. Þau geta fundið hann og öðlast hamingju en á meðan þeir eru að leita mega þau ekki hugsa um hvítu kanínuna. Það sem síðan gerist er að í hvert sinn sem þau leita lykilsins hugsa þeir um kanínuna. Því meira sem þau reyna, því meira hugsa þau um hvítu kanínuna og þau finna þar af leiðandi aldrei lykillinn að hamingjunni. Við eigum öll hvíta kanínu og jafnvel margar. Hvítu kanínurnar eru afsakanir fyrir því að við forðumst að setja okkur ákveðin markmið og helga okkur þau af heilum hug. Þær eru uppáhaldsafsakanir okkar fyrir því að gera ekki það sem til þarf til að ná því sem við ætlum okkur og láta drauma okkar rætast. Dæmi um slíkar afsakanir eru: Ég er of ung(ur) eða of gamall/gömul, of lítil(l), of stór, ég á enga peninga, ég er ekki tilbúin(n) ennþá, ég fæddist á röngum stað, er í röngu stjörnumerki, ég tilheyri ekki minnihlutahópi. Mig skortir menntun, hæfni, hæfileika. Við höldum oft að við séum á einhvern hátt takmörkuð. Sumir segja: "Ef ég gæti bara dansað, sungið, hlaupið, hugsað, einbeitt mér, þá myndi ég gera stóra hluti." En málið er að þú myndir ekki gera neitt meira en þú gerir í dag ef þú ert ekki að nota þá hæfileika sem þú býrð yfir í dag.

Sjálfskapaðar takmarkanir
Takmarkanir þess sem hægt er að öðlast eru fáar og flestar eru þær sjálfskapaðar. Þær eru afleiðingar ótta og efa sem hindra okkur í að reyna. Trúin á eigin takmörk dregur úr okkur kjark, veldur því að við reynum ekki við viðfangsefnin og fær okkur til að sjá eitthvað sem er ekki sannleikanum samkvæmt. Þegar verið er að þjálfa flær eru þær settar í krukku með loki á. Flærnar hoppa upp af ákafa og reka sig í lokið aftur og aftur. En eftir örskamma stund hætta þær að hoppa eins hátt og hoppa aðeins upp að lokinu. Þegar maður tekur svo lokið af hoppa þær ekki upp úr krukkunni, þær geta það ekki lengur. Þannig er það líka oft með okkur, við byrjum á því að skrifa bók, ganga upp fjall eða setja sölumet. Fyrst eru engin takmörk á draumunum en á leiðinni rekum við okkur á, gerum mistök eða fáum neikvæðar athugasemdir frá öðrum þ.e. látum neikvæð ytri áhrif hafa áhrif á okkur og rífa okkur niður. Við teljum okkur trú um að við komumst ekki hærra og hættum að hoppa upp úr krukkunni.

Er glasið hálffullt eða hálftómt?
Annað atriði sem hefur mikil áhrif á þann árangur sem við náum er það hvernig við nálgumst lífið. Hugarfar okkar ræður því hvernig við berum okkur að og hvernig við tjáum tilfinningar okkar og hugsanir. Rannsókn við Harvard-háskólann sýndi fram á það að 85% af árangri, stöðuhækkun eða velgengni má rekja til hugarfars og aðeins 10% til hæfni og þekkingar. Er glasið hálf fullt eða hálf tómt? Er ég bjartsýn(n), jákvæð(ur), sjálfsörugg(ur) og traust(ur) eða almennt neikvæð(ur), svartsýn(n), uppgefin(n) og tortryggin(n). Sé ég tækifæri í hverju horni eða aðeins óréttlæti og óhamingju? Neikvæðar tilfinningar eru ræningjatilfinningar. Þær brjóta mann niður og ræna manni friði, hamingju og ánægju. Sá sem hefur ekki trú á sjálfum sér og nýtir sína hæfileika til hins ítrasta stelur frá sjálfum sér.

Árangur er ferðalag
Það er mikilvægt að hafa í huga að árangur og hamingja eru ekki áfangastaður heldur ferðalag sem aldrei tekur enda. Við þurfum að taka þetta í litlum skrefum, fara á kanínuveiðar innra með okkur, takast á við ræningjatilfinningar, taka lokið af krukkunni og ná fram það besta sem í okkur býr.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 4. desember 2002.