Fjölmargar rannsóknir benda til þess að það að hafa eitthvað til að hlakka til auki vellíðan.
Að vænta einhvers góðs lætur okkur líða betur á líðandi stundu og getur aukið hvatningu, bjartsýni og þolinmæði. Það er sem dæmi eftirvæntingin sem gerir ferðalag til útlanda spennandi. Að skoða fallegar myndir af áfangastaðnum, athuga með dagsferðir og veitingastaði, kaupa sér sundbol og telja niður dagana er stór hluti af upplifuninni. Auðvitað getum við ekki bókað flug í hvert skipti sem við þurfum smá hressingu. En það eru til leiðir til að virkja kraft tilhlökkunar í daglegu lífi, sem verða reifaðar hér fyrir neðan.
Vertu spennt(ur) fyrir mörgum litlum atriðum
Það getur verið jafn ánægjulegt að hlakka til margra lítilla atburða og eins stórs. Í lok hvers dags er gott að skrifa niður eitthvað eitt sem vekur með þér spennu og eftirvæntingu daginn eftir. Kannski er það ný bók, námskeið sem þú ert að fara á, að fá þér sörur eða sending sem þú átt von á. Þú munt uppskera ávinninginn af því að láta þig hlakka til þó að um lítil atriði sé að ræða. Auk þess höfum við meiri stjórn á því sem gerist í náinni framtíð, eins og matarboði í kvöld, en sumarfríi eftir sex mánuði.
Tengstu framtíðarsjálfinu
Hefur þú einhvern tíma labbað í gegnum hús sem var til sölu og séð þig fyrir þér bera fram glæsilegan smáréttadisk á pallinum? Eða skoðað nýjan bíl og ímyndað þér ferð inn á hálendið? Þegar við upplifum að við færumst í áttina að framtíðarsjálfinu eykst vellíðan okkar.
Það er hins vegar ekki nóg að dagdreyma um framtíðarsjálfið heldur þarf að gera eitthvað í málunum. Kannski langar framtíðarsjálf þitt að öðlast góða hæfni í frönsku á meðan þú getur varla pantað croissant í dag. Það þarf að taka áþreifanleg skref að þessu markmiði, eins og t.d. að skrá sig á frönskunámskeið. Þegar þú sérð síðan framfarir verður það auðveldara og þú munt hlakka til að gera það sem kemur þér nær framtíðarsjálfinu.
Hógvær umbun getur gert kraftaverk
Þeir sem hafa farið með barn í flensusprautu gegn loforði um að það fái ís á eftir þekkja kraftinn sem felst í því að byggja upp eftirvæntingu fyrir hlut sem þú vilt ekki gera með því að para hann við eitthvað sem þú hlakkar til.
Einblíndu á upplifanir
Þó nokkrar rannsóknir hafa fundið að við upplifum meiri hamingju þegar við fjárfestum í upplifun frekar en efnislegum hlutum. Þar skiptir eftirvæntingin einnig máli. Þegar þú ert sem dæmi að fara á stefnumót er hægt að hámarka tilhlökkunina með því að velja stað sem skiptir þig máli eða athöfn sem er þýðingarmikil fyrir þig, eins og t.d. golf eða leikhúsferð. Þá hefurðu tvennt til að hlakka til, stefnumótsins sjálfs en einnig að kynna deitið fyrir þínum heimi.
Kvíði og tilhlökkun eru systurtilfinningar
Hin hliðin á jákvæðri eftirvæntingu er eftirvæntingarkvíði og það athyglisverða er að þessar tilfinningar birtast oft samtímis. Kvíði og tilhlökkum eru nefnilega systurtilfinningar. Þegar við giftum okkur eða eignumst barn kemur oft blanda af þessum tilfinningum. Eftirvæntingarkvíði er aðeins skaðleg ef við einbeitum okkur bara að kvíðanum og vanrækjum tilhlökkunina.
Hafðu frumkvæði
Ef veislur auka hjá þér tilhlökkun er gott að finna tilefni til að skipuleggja fagnað í stað þess að bíða eftir ástæðu til að fagna. Haltu afmælisveislu fyrir köttinn þinn eða bjóddu upp á pönnukökur fyrir krakkana í götunni. Finndu leiðir til að halda upp á sérstök tilefni.
Tilhlökkun getur verið öflugt tæki til að stjórna tilfinningum okkar enda er hún mikið notuð í sjónvarpsþáttaröðum. Flestir þættir enda á einhverju sem skapar eftirvæntingu og fær okkur til að hlakka til næsta þáttar.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 25. júní 2022.