Að laða fram það besta hjá sjálfum sér

Við þurfum öll á sjálfstrausti og sjálfsöryggi að halda til að takast á við lífsins áskoranir og breytingar í umhverfinu okkar. Skortur á sjálfstrausti getur hamlað jafnvel færustu einstaklingunum, haft áhrif á baráttuvilja þeirra og haldið aftur af þeim.

Rannsóknir sýna að hugsun okkar er máttugt afl.

Það hvernig við hugsum um okkur sjálf og tölum við okkur sjálf hefur mikið að segja um hvernig okkur líður og hvernig við hegðum okkur. Hugsanir okkar geta unnið með okkur, en líka á móti okkur. Neikvætt og óraunhæft sjálfsmat getur leitt til þess að við hættum að þora að leggja okkur fram eða reyna nýja hluti. Við höfum ekki traust á sjálfum okkur og látum í staðinn aðstæður, tilviljun eða hendingu ráða því hvað gerist í lífi okkar. Óraunhæfar hugmyndir um eigin getu geta leitt til neikvæðra tilfinninga sem auðveldlega standa í vegi fyrir að við náum árangri.

Skynjun á eigin getu
Sálfræðingurinn Albert Bandura, sem kennir við Stanford Háskólann, hefur rannsakað mikið upplifun eða skynjun fólks á eigin getu (self-efficacy). Bandura skilgreinir skynjun á eigin getu sem trú á hæfileikum sínum til að geta framkvæmt tiltekið verk og náð góðum árangri. Hæfni ein og sér nægir s.s. ekki til að tryggja hámarksárangur heldur þurfum við að trúa á hæfni okkar til að geta nýtt okkur hana sem best.  Skynjun á eigin verðleika hefur áhrif á ákvarðanir sem við tökum, hversu mikið við leggjum okkur fram, hversu þrautseig við erum þegar við mætum mótlæti eða gerum mistök og hvernig okkur líður. Neikvæð skynjun á eigin getu getur haft í för með sér afstöðu sem leiðir til niðurrifs. Einstaklingar með litla trú á eigin getu sjá ekki sjálfan sig þegar þeir horfa í spegilinn heldur aðeins takmarkanir sínar, allt það sem þeir geta ekki. Við getum líkt þessu við spéspegil í tívolí þar sem við lítum á aðra og yfirleitt afmyndaða útgáfu af okkur sjálfum. Þessir einstaklingar þora ekki að taka áskoranir, þó að þeir búi yfir nauðsynlegri hæfni. Þeir forðast frekar ástæður þar sem hætta er á að þeir geri mistök.

Sjálfstraust skiptir sköpum
Skynjun á eigin getu er nátengd sjálfstrausti. Það sem einkennir einstaklinga með lítið sjálfstraust er að þeir eru stöðugt að bera sig saman við aðra, og finnst þeir koma illa út úr samanburðinum. Þeir rífa sjálfa sig niður og telja að það sem þeir gera sé ekki nógu gott. Þeir hafa litla trú á sjálfa sig og hafa miklar áhyggjur af því hvað öðrum finnist um þá. Þeir kunna yfirleitt illa að taka gagnrýni og hafa neikvætt sjálfsálit. Mistök sem þeir gera staðfesta tilfinninguna að þeir séu ekki hæfir. Skortur á sjálfstrausti birtist í hjálparleysi, valdaleysi, og sjálfsefa.

Einstaklingar sem búa yfir sjálfstrausti aftur á móti trúa á sjálfa sig og eigin getu. Þeir telja sig hæfa í starfi og líklega til að ná árangri. Þeir treysta sér til að vinna sjálfstætt, eru einbeittir og ákveðnir í framgöngu. Þeir eru félagslyndir og mannblendir og koma fram við aðra af öryggi. Þeir eiga auðvelt með að tjá sig tilfinningalega, þora að hafa óvinsælar skoðanir og læra af eigin mistökum. Þeir þekkja eigin gildi, styrkleika, þarfir og takmarkanir og eru opnir fyrir hreinskilinni endurgjöf á frammistöðu sína. Einstaklingar með sjálfstraust laða fram það besta hjá sjálfum sér. Þeir hafa tamið sér jákvæðan og uppbyggilegan hugsunarhátt og styrkja sjálfa sig og hvetja til dáða.

Að þekkja sjálfan sig
Fleygu orð Sókrates "Þekktu sjálfan þig", sem letruð voru á hof Delphis fyrir um tveimur öldum síðan, eiga enn mikið við í dag. Góð leið til að byggja upp sjálfstraustið er að fara í sjálfsskoðun og velta fyrir sér hvar þú stendur í dag. Sjálfsskoðun gefur okkur innsýn í hver við erum, hvaða afleiðingar hegðun okkar hefur, hverjir okkar styrkleikar eru og hvað það er sem dregur úr árangrinum sem við náum. Mikilvægt er síðan að leggja ekki of mikla áherslu á mögulega galla heldur frekar að einbeita sér að því sem maður gerir vel. Enginn er fullkominn, eða eins og Henry Ward Beecher orðaði það: "Þegar einhver segist vera fullkominn þá eru bara tveir staðir sem koma til greina: Himnaríki eða hæli." Sjálfstraust þýðir að maður sættir sig við takmarkanir sínar og er ánægður með sjálfan sig. Ekki borga sig að bera sig saman við aðra heldur aðeins við sjálfan sig og vera ekki of upptekinn af því að þóknast öðrum. Við erum verðug vegna þess hver við erum en ekki vegna þess hversu vel fólk kann við okkur. Mikilvægt er líka að þora að prófa nýja hluti þó að því fylgja stundum mistök. Við getum ekki verið góð í einhverju nema með því að æfa okkur og þora að takast á við áskoranir. Mistök fylgja lærdómsferlinu og sá sem gerir engin mistök, gerir aldrei neitt. Það borgar sig ekki að velta sér of mikið upp úr mistökum. Tómas Edisson, þegar hann var spurður að því hvort það hefði ekki verið erfitt að mistakast svona oft sagði: "Ég gerði ekki 10.000 mistök, ég fann bara 10.000 leiðir sem virkuðu ekki, og svo fann ég upp ljósaperuna. Hver einustu mistök færðu mér nær markmiðinu."

Sjálfstraust þýðir að maður þorir að nota eigin persónu og gefa af sjálfum sér. Við þurfum að treysta öðrum fyrir okkur, standa með sjálfum okkur og nýta það besta sem okkur er gefið.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 20. mars 2002.