"Nám er það sem eftir er þegar maður er búinn að gleyma því sem maður lærði", sagði einhver nemandi á námskeiði hjá okkur. Í þessu felast vissulega sannleikskorn. Því það er eitt að heyra og sjá, annað að skilja og muna. Enn annað er að láta þekkinguna koma fram í hegðunarbreytingu.
En það er þetta síðastnefnda sem íslenska orðabókin skilgreinir sem nám: Það að tileinka sér, læra, lærdómur, skólaganga.
Orðabókin nefnir sem dæmi um notkun á orðinu nám það að ljúka námi, sem er kannski einkennandi fyrir þann tíma þegar orðabókin var samin, þegar líf einstaklings skiptist ennþá í skólagöngu, starf og eftirlaun. Það að ljúka námi og vera þá menntaður fyrir ævina á varla við í dag. Það að vera menntaður í dag þýðir ekki að maður hafi prófgráðu heldur að maður sé nemandi, þ.e. að vera að nema (nem-andi).Í nútímasamfélagi er nám orðið órjúfanlegur þáttur lífsferils fólks. Menntaveginn ganga menn alla ævina. Því sá sem tileinkar sér ekki nýja þekkingu er síður í stakk búinn til að takast á við þær síbreytilegu kröfur sem atvinnulífið og samfélagið gera til hans. Bilið sem varðar samkeppnishæfni á vinnumarkaði og möguleika til lífsgæða tengist í auknum mæli viðhaldi á hæfni og þekkingu.
Ávinningur náms:
- Eykur þroska.
- Eykur þekkingu og færni.
- Eflir samkeppnishæfni.
- Styrkir stöðu okkar á vinnumarkaðinum.
- Eykur möguleika á starfsþróun.
- Eykur starfsánægju.
- Eykur möguleika á fjölbreyttara starfi.
- Eykur möguleika á meira krefjandi verkefnum.
- Eykur möguleika á launahækkun.
- Minnkar hættu á atvinnuleysi.
- Gerir okkur að verðmætari starfsmönnum.
- Gerir okkur opnari fyrir nýjum hugmyndum.
- Heldur okkur á tánum.
- Eykur löngun okkar til að læra meira.
- Eykur sjálfstraustið.
- Styrkir sjálfsímynd okkar.
- Gerir okkur betur í stakk búin til að takast á við breytingar.
- Gerir okkur kleift að lifa betra lífi.
Nám alla ævi
Nám er flókið fyrirbæri sem á sér stað samkvæmt ákveðnu ferli og lýtur ákveðnum lögumálum. Við lærum t.d. betur ef við vitum hvað við erum að fara að læra, við lærum betur það sem er skemmtilegt en leiðinlegt, við lærum mikið af því að prófa og meta síðan hvernig gekk, við lærum betur ef við sjáum tilgang í því sem við erum að læra.
Lærdómur er ferli sem á sér stað alla daga og er ekki bundið við skóla eða próf. Við lærum t.d. í vinnunni, með því að lesa bækur, æfa okkur, ræða við fólk, taka þátt í verkefnahópum, fylgjast með öðrum og með því að láta okkur dreyma. Við lærum einnig með því að íhuga málin, alveg eins og þú ert að gera núna... Við vinnum á meðan við lærum og lærum á meðan við vinnum. Aldrei er hægt að hætta að læra.
Að læra krefst hugrekkis
En hvað er það að læra? Að læra er að þora að fresta dómum, að halda aftur af skoðunum sínum á hinu nýja, sem eru byggðar á hinu gamla, og samþykkja hið óþekkta. Að læra er að vera forvitinn og ekki of fljótur að dæma. Að læra er að ganga ekki strax út frá því að maður viti svarið. Að hafna ekki hlutum eða fólki of fljótt, að hafna ekki skoðunum. Að þora að vera opinn og forvitinn, að þykja hlutirnir ekki fáránlegir. Að þora að spyrja, jafnvel vitlausra spurninga. Lærdómur krefst hugrekkis.
Nám er alltaf einstaklingsbundið, við skiljum hlutina út frá okkar eigin reysluheimi. Það getur enginn lært neitt fyrir okkur og enginn skilur sama hlutinn á nákvæmlega sama hátt. Nám hefur sinn tíma og sumt lærist eingöngu með auknum aldri. Sumt skiljum við ekki nema við séum lítil börn. Sumt skiljum við aldrei.
Að læra og að nema
Nám getur líka verið leið til að gangast undan ábyrgð, leið til að fresta ákvörðunum. Að lesa megrunarbók gerir okkur ekki grennri. Megrunarbók getur verið leið til að fresta því að grennast. Maður verður alltaf að velta því fyrir sér hvort nám hjálpi manni áfram. Það er alltaf gott að læra, en að læra er ekki það sama og að nema. Það er líka hægt að læra hlutina með því að gera þá. Mörg vandamál er ekki hægt að leysa með námi. Fólk veit oft best hvernig það eigi að gera hlutina eða hverju það ætti að breyta í fari sínu. Það er varasamt að reyna að kenna suma hluti. Góður kennari spyr spurninga og vekur til umhugsunar. Hann kennir engum neitt heldur aðstoðar í besta falli þann sem er nemandi (er að nema) við að læra.
Nám á að vekja spurningar
Nám á að skilja eftir spurningamerki, ekki upphrópunarmerki. Því þá frestar maður að dæma og hafnar hlutunum of fljótt. Áskorunin er að gera hlutina og halda áfram að hugsa. Innblástur þýðir að maður hugsar: Er ég sammála þessu, hvað þýðir þetta? Að fara heim eftir námskeið með fleiri spurningar en maður kom með...
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 13. febrúar 2002.