Markmiðasetning er aðferð sem fjöldi fólks notar til að ná persónulegum markmiðum. Á gamlárskvöld eða í upphafi nýs árs taka fjölmargir ákvörðun um að breyta einhverju og setja sér metnaðarfull markmið fyrir næstu tólf mánuði.
Hálf íslenska þjóðin gerir áramótaheit um að hreyfa sig meira, grenna sig eða verða betri manneskja. Tólf mánuðum seinna verðum við fyrir vonbrigðum þegar í ljós kemur að við erum engu nær þeim markmiðum sem við settum okkur. Ef eitthvað þá erum við búin að bæta á okkur nokkrum kílóum og líkamsræktarkortið er enn ónotað í veskinu.
Allir geta sett sér markmið en það skiptir máli hvernig þau eru sett og að þeim fylgi áætlanir. Fólk veit oft ekki hvernig það á að setja sér greinileg og góð markmið. Til að geta sett okkur markmið þurfum við að vita nákvæmlega hvað við viljum og þráum og þar kreppir skórinn oft, fæstir virðast vera með það á hreinu.
Hér fyrir neðan eru nokkrar ráðleggingar til að auka líkurnar á við náum persónulegum og starfstengdum markmiðum.
Sértæk, mælanleg og skrifleg
Markmið verður að vera mælanlegt, t.d. í tíma, peningum eða magni. Ef það er erfitt að mæla markmið þá verður líklega erfitt að ná því. Það að ætla að grennast eða hreyfa sig meira eru of almenn markmið og ekki mælanleg. Hvað viltu léttast mikið nákvæmlega? Hvað meinar þú með "að hreyfa þig meira"? Það er of óljóst markmið þegar sölumaður segist ætla að "gera sitt besta og selja eins mikið og hægt er". Betra er fyrir hann að setja sér það sem markmið að auka söluna um 15%.
Hægt er að komast að því hvort markmið er sértækt með því að spyrja sig hv-spurninga: Hver, hvað, hvenær, hvar, hvers vegna, hvernig? Til að gera markmið áþreifanleg og skýr er æskilegt að skrifa þau niður og lýsa þeim í eins mörgum smáatriðum og hægt er. Að gera markmið sértæk, mælanleg og skrifleg gerir okkur kleift að mæla stöðugar framfarir okkar og árangur, við vitum nákvæmlega hvenær við verðum búin að ná markmiðinu.
Ákveða tímamörk
Mikilvægt er að setja tímamörk á markmiðið. Fyrir hvaða tíma ætlarðu að vera búinn að auka söluna um 15%? Án tímamarka er mjög freistandi að fresta aðgerðum og "gera það á morgun". Markmið sem við ætlum að ná "eins fljótt og hægt er" verða þannig fljótt að "einhvern tímann..." markmiðum. Tímamörk eru skuldbinding og hvetja okkur til dáða. Þau eiga að vera raunhæf með tilliti til annarra skuldbindinga og sveigjanleg, þar sem aðstæður breytast stöðugt. Tímamörk gera okkur kleift að brjóta langtímamarkmið niður í smærri einingar og áþreifanleg skref í aðgerðaáætluninni. Að léttast um 12 kíló fyrir 1. júlí 2002 þýðir tvö kíló á mánuði eða hálft kíló á viku.
Breyta litlu í einu
Við erum almennt ekki hrifin af breytingum. Við leitum í hið þekkta og forðumst hið óþekkta. Því meira sem við ætlum að breyta því meiri líkurnar verða á að tilraunir okkar mistakist. Best er að einbeita sér að einu eða tveimur af mikilvægustu markmiðunum þínum. Þegar þú nærð öðru þeirra, byrjaðu þá á hinu. Ekki færast of mikið í fang í einu.
Raunhæf markmið
Byrjun nýs árs gírar okkur upp til að gera breytingar í lífi okkar, stundum óraunhæfar og of háleitar. Það er staðreynd að ögrandi markmið leiða til betri frammistöðu en auðveld og miðlungserfið markmið. En of krefjandi eða yfirþyrmandi markmið eru aðeins sjálfsblekking og virka ekki hvetjandi heldur letjandi. Markmið verða að vera raunhæf með tilliti til t.d. aldurs, líkamlegs ástands og núverandi hæfni og reynslu. Þau verða að vera í samræmi hvert við annað. Að setja sér það sem markmið að selja 50% meira ef þú ætlar á sama tíma að minnka vinnuna niður í 50% hlutastarf er ekki dæmi um raunhæft markmið.
Sjálfsagi og þrautseigja
Til að ná okkar persónulegu markmiðum þurfum við að búa yfir þrautseigju, viljastyrk og sjálfsaga. Við þurfum á leggja á okkur og gefast ekki upp þótt á móti blási. Mikilvægt er að ávinningurinn af því að ná markmiðinu sé skýr. Hvers vegna viltu ná þessu markmiði? Hvaða gildi hefur það fyrir þig? Ef þú átt þér stóran draum er ekkert sem getur stöðvað þig. Eða eins og heimspekingurinn Nietzsche sagði: "Sá sem hefur eitthvað hvers vegna til að lifa fyrir, afber næstum allt hvernig."
Í upphafi skyldi endirinn skoða
Ein árangursrík aðferð við markmiðasetningu er að beita sjónmyndun eða visualization en þá horfum við fram á við og reynum að sjá lokaárangurinn fyrir okkur í eins mörgum smáatriðum og hægt er með því að nota öll skynfærin. Við sköpum í huganum það sem við þráum í raunveruleikanum. Sjónmyndun eykur vilja okkar og trú okkar á að við náum markmiðinu. Það sem við getum ímyndað okkur og séð fyrir okkur getum við öðlast.
Að setja markmið er að ákveða hvaða árangri við viljum ná. Rannsóknir sýna að þeir sem ná miklum árangri í lífinu vita hvað þeir vilja., m.ö.o. vita á hvaða mark þeir miða. Því ef þú veist ekki hvert þú ert að miða, hvert ert þú þá að miða?
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í VR-blaðinu í 1. tölublaði, 24. árg., janúar 2002.