Frestun er eitthvað sem allir kannast við og margir eiga í erfiðleikum við að venja sig af.
Afleiðing frestunar er oft mikil og ónauðsynleg tímasóun auk þess sem hún kemur í veg fyrir að draumar rætast, markmið nást og hugmyndum er komið í framkvæmd. Fyrir marga er frestun slæm venja eða viðhorf sem dregur úr framleiðni, eykur streitu og sektarkennd og hefur neikvæð áhrif á starfsframa þeirra.
Frestun er einfaldlega að gera ekki mikilvægustu verkefnin strax. Frestun er að taka til á borðinu hjá þér þegar þú ættir að vera að vinna að mikilvægri skýrslu; að horfa á sjónvarpið þegar þú ættir að vera í líkamsræktinni; að fá sér annan kaffibolla á kaffihúsinu þegar þú ættir að vera komin(n) á skrifstofuna; að hringja í vingjarnlegan viðskiptavin sem kaupir mjög lítið þegar þú ættir að vera að undirbúa sölukynningu fyrir stóran viðskiptavin; að forðast starfsmanni frekar en að færa honum slæm tíðindi; að fresta því að gera eitthvað með börnunum af því að eitthvað annað virðist vera meira áríðandi, þangað til þau eru allt í einu vaxin úr grasi og þú áttar þig á því að það er oft seint til að gera “litlu hlutina” sem þú hafðir alltaf ætlað að gera.
Ástæður frestunar
Ástæður frestunar geta verið margvíslegar. Það er algengt að fresta verkefnum sem eru leiðinleg, ógeðfelld eða óþægileg. Við frestum einnig þegar við vitum ekki alveg hvernig best væri að leysa verkefnið af hendi eða þegar okkur skortur nauðsynlegar upplýsingar eða gögn. Skortur á markmiðum, tímamörkum eða umbun getur leitt til frestunar. Ótti af ýmsum toga getur einnig verið lamandi afl. Má þar t.d. nefna ótta við að mistakast, ótta við höfnun eða gagnrýni, ótta við ófullkomnun, ótta við velgengni, ótta við breytingar eða hið óþekkta, ótta við að standast ekki væntingar og ótta við að taka mögulega rangar ákvarðanir.
Þegar við viljum ekki gera eitthvað dundum við okkur við smáatriði. Við reynum að vera upptekin svo við séum með afsökun fyrir að framkvæma ekki. En eins og Henry David Thoreau sagði: “Það er ekki nóg að vera stöðugt upptekinn, það eru maurarnir líka. Spurningin er: Við hvað erum við upptekin?” Verkefni hverfa ekki með því að horfa framhjá þeim, ýta þeim burt úr huganum eða draga þau á langinn. Frestun leiðir yfirleitt til þess að okkur líður verr. Óróleikinn sem fylgir frestun getur valdið okkur áhyggjum, sektarkennd og pirringi.
Leiðir til að takast á við frestunaráráttu
Til eru nokkrar góðar aðferðir til að sigrast á frestunaráráttu. Ef þú átt það til að slá málum á frest þá er best að viðurkenna það, hætta að réttlæta frestunina, breyta þessari slæmu venju og byrja að framkvæma. Gerðu þér grein fyrir því hvers vegna þú frestar hlutum. Er verkefnið ekki sérlega mikilvægt? Ljúktu því þá af eða láttu einhvern annað sjá um það. Er tímasetningin ekki rétt? Finndu þá tímasetningu sem hentar og settu verkefnið á aðgerðalistann. Er verkefnið leiðinlegt? Breyttu þá viðhorfi þínu og leggðu þig fram við að ljúka því eða þá láttu einhvern annan fá það. Aðrir hafa oft gaman af því sem við höfum litla ánægju af. Gott er að venja sig á því að framkvæma alltaf leiðinlegustu eða erfiðustu verkefnin fyrst. Þegar þú hefur lokið við þau verður þú jákvæð(ur) og betur upplagður/upplögð til að framkvæma önnur verkefni. Framkvæmdu lítinn hluta verkefnisins til að koma þér af stað.
Ef verkefnið er stórt eða yfirþyrmandi er gott að brjóta það niður í smærri og viðráðanlegar einingar og einbeita þér svo að einu skrefi í einu. Gerðu aðgerðaáætlun áður en þú hættir að vinna á daginn og haltu þér við hana. Aðgerðaáætlun er eins og vegakort fyrir næsta dag.
Forðastu truflanir. Taktu til á skrifborðinu hjá þér eða á skrifstofunni. Hreint skrifborð hjálpar þér að einbeita þér að verkefninu sem þú ert að vinna að án sjáanlegra truflana. Skipuleggðu þig í kringum utanaðkomandi truflanir. Truflanir eiga sér oft stað samkvæmt ákveðnum mynstrum og á ákveðnum tímum. Gerðu ráð fyrir að vinna að stærri verkefnum á þeim tíma sem truflanir eiga til að vera sem minnstar.
Hafðu auk þess eftirfarandi atriði sem leiðarljós:
- Hvattu sjálfa(n) þig áfram. Ekki fresta hlutum vegna þess að þú finnur til með sjálfum/sjálfri þér. Hugsaðu um hversu vel þér muni líða þegar verkefninu er lokið. Hugsaðu jákvætt til útkomunnar.
- Ekki leitast við að ná fullkomnun. Verkefnið þarf ekki að vera fullkomið. Það er betra að reyna en að reyna ekki.
- Ekki bíða eftir að þú verðir í réttu skapi eða í stuði.
Skuldbintu sjálfa(n) þig til að framkvæma með því að setja tímamörk á verkefnið. Tímamörk hvetja til aðgerða. - Lofaðu öðrum árangri þínum og segðu þeim frá skuldbindingu þinni.
- Umbunaðu sjálfum/sjálfri þér fyrir að ljúka við verkefni.
- Breyttu verkefninu í eitthvað jákvætt, gerðu það skemmtilegra, t.d. með því að hlusta á tónlist eða hljóðbók á meðan þú framkvæmir það eða fá einhvern til liðs við þig.
- Gerðu það bara og gerðu það strax!
Með því að venja sig af því að fresta hlutunum verður maður ánægðari, stoltari og kemur fleiru í verk.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 14. janúar 2004.