Það tók tíma og þolinmæði að aðlagast umskiptunum þegar skrifstofustarfsmenn um heim allan voru snögglega sendir heim vegna heimsfaraldursins.
Við þurftum að læra á alls kyns samskipta- og samvinnutól og kenna börnunum heima á meðan við vorum á sama tíma að reyna að standa skil á verkefnum. Við lærðum líka að takast á við truflanir frá gæludýrum og stöðuga nálægð okkar við sófann, ísskápinn og Netflix.
Síðustu tvö ár höfum við upplifað annað form af einbeitingu, lært að vinna öðruvísi og samþætta betur kröfur starfs og einkalífs. Nú þegar við erum loks búin að ná tökum á heimavinnunni eru vinnustaðir farnir að kalla okkur aftur inn á skrifstofuna.
Sumir hafa verið að telja niður dagana þar til þeir geta notið vinnunæðis á skrifstofunni og hitt vinnufélagana. Fyrir aðra getur það verið ögrandi að mæta aftur á skrifstofuna. Hér á eftir fylgja nokkrar ráðleggingar fyrir þá sem eru að snúa aftur til skrifstofulífsins:
Skyndilega heldur enginn fjarlægð
Jafnvel fyrir fullbólusetta getur það verið óþægileg tilfinning í fyrstu að vera umkringdir fólki eftir að hafa upplifað hættuna af því að vera of nálægt annarri manneskju í heil tvö ár. Nýleg könnun sýndi sem dæmi að tveir þriðju hlutar bandarískra starfsmanna kvíða því að snúa aftur á vinnustaðinn og segjast óttast um heilsu sína og vellíðan.
Ef þú upplifir óöryggi eða kvíða í návist annarra, t.d. í lyftunni, mötuneytinu eða fundarherberginu, er gott að gefa þér smá stund til að staldra við og taka eftir því sem er að gerast innra með þér. Upplifirðu aukinn hjartslátt? Breytist andardrátturinn þegar þú ferð inn í rými sem er fullt af fólki? Settu síðan höndina á kviðinn og andaðu hægt og rólega inn um nefið og síðan hægt út um munninn. Þegar skilningarvitin eru örvuð gleymum við oft að beita djúpri öndun. Að taka eftir viðbrögðum líkamans og nota síðan öndunina hefur róandi áhrif á taugakerfið.
Breytt rútína
Eftir að hafa tekið fundi við eldhúsborðið og unnið í náttfötunum getur það verið áskorun að þurfa að stilla vekjaraklukkuna, klæða sig og mæta til vinnu. Á móti kemur að skilin milli vinnu og einkalífs verða ljósari þar sem ferðatíminn í og úr vinnu skapar eðlileg skil. Það gæti tekið smá æfingu að komast aftur inn í morgunrútínuna. Hægt er að aðlagast smám saman, t.d. tveimur vikum áður en þú snýrð aftur á vinnustað, með því að æfa eitt nýtt verkefni á dag (t.d. að láta vekjaraklukkuna hringja og fara í sturtu) og bæta síðan við fleiri verkefnum á tveggja til þriggja daga fresti, eins og að velja vinnufatnað eða undirbúa nesti. Þegar við æfum nýjar venjur þurfum við ekki að gera þær allar í einu.
Bólusetningarstaða annarra
Nema þú hafir séð vinnufélaga þína birta myndir af sér í Laugardalshöll á samfélagsmiðlum getur verið erfitt að vita bólusetningarstöðu þeirra, sem getur valdið streitu þegar þú ert að spjalla við þá við kaffivélina eða situr við hliðina á þeim í fundarherberginu, sérstaklega ef þú ert með undirliggjandi sjúkdóm. Í stað þess að stofna til átaka er betra að einbeita þér að því sem þú getur sjálf(ur) gert til að láta þér líða vel. Vertu með á hreinu hvað skapar þér öryggi, eins og t.d. að forðast handaband og heilsa fólki með olnboganum, halda fjarlægð, nota handspritt og/eða grímu innandyra. Gott er að ræða við yfirmann ef þú hefur miklar áhyggjur af því að snúa aftur á vinnustað.
Hlúum að sjálfum okkur
Eitt af því sem við sinntum vel meðan á heimsfaraldrinum var að hlúa að sjálfum okkur, hvort sem það var með jóga á Teams í hádeginu, róandi gleði kökubaksturs eða því að rækta með okkur ást á garðyrkju. Þó að við séum aftur mætt á skrifstofuna þurfum við ekki að sleppa því sem skapaði ró, hvort sem það er að hlusta á tónlist, mála, lesa bækur, laga bílinn eða æfa nýja færni. Að gleyma sér í einhverju gefur heilanum tækifæri til að sleppa og virkja sköpunarkraftinn.
Er kominn tími á breytingar?
Heimsfaraldurinn gaf okkur öllum mikinn tíma til að hugleiða framtíðina. Mögulega hefurðu áttað þig á því að þig langar ekki aftur í sama farið. Þetta er því hentugur tími til að hugsa um starfsferilinn. Ef þér finnst kominn tími á breytingar gæti þurft að dusta rykið af ferilskránni. Hugsaðu um hvernig þú gætir nýtt tækifærin og möguleikana sem bjóðast í breyttri framtíð vinnunnar. Hafðu samt líka í huga að grasið er ekki alltaf grænna hinum megin og oft má gera gott enn betra.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á kjarninn.is 31. mars 2022.