Sumir halda því fram að því meiri væntingar sem við höfum þeim mun brothættari séum við fyrir skipbroti.
Til að komast hjá vonbrigðum þegar hlutirnir ganga ekki upp sé því betra að draga úr væntingum sínum. Þetta virðist þó vandkvæðum bundið því að þó að það gæti virkað fræðilega að minnka væntingarnar þá sýna rannsóknir að rökin halda ekki. Fólk með miklar væntingar er nefnilega almennt hamingjusamara, burtséð frá því hvort það nær árangri eða ekki. Ástæðan fyrir því er þríþætt:
- Í fyrsta lagi skiptir máli fyrir vellíðan okkar hvernig við túlkum þá atburði sem við lendum í. Tveir sálfræðingar, þau Margaret Marshall og Jonathon Brown, báðu nemendur að giska á hvaða einkunn þeir fengju í miðannarprófi. Þeir sem bjuggust við 9 en fengu 6 voru hissa, en í ljós kom að þeim leið ekki verr en þeim sem höfðu búist við laka einkunn frá byrjun. Þeir nemendur sem töldu á hinn bóginn að þeir fengju lága einkunn tóku henni sem staðfestingu á minni getu sinni. Þeir fáu með litlar væntingar sem fengu háa einkunn skrifuðu það á heppni, á meðan þegar nemendur með miklar væntingar fá háa einkunn þá skrifa þeir frekar á persónulega eiginleika: „Ég fékk 9 af því að ég er klár.“
- Í öðru lagi stendur fólk sig betur þegar væntingarnar eru meiri. Taugasérfræðingurinn Sara Bengtsson sýndi fram á það nýlega að það nægir að gefa fólki stimpilinn „klár“ til að því gangi betur að læra málfræðireglur. Ástæðan fyrir því er að einstaklingar sem halda að þeir muni standa sig vel eru líklegri til að læra af mistökum og sýna þar af leiðandi betri frammistöðu. Sá sem á hinn bóginn heldur að hann sé ólíklegur til að ná árangri er ekki eins líklegur til að læra af mistökum og leggur minna á sig.
- Í þriðja lagi gera miklar væntingar gagnvart framtíðinni okkur hamingjusamari í núinu. Við hlökkum jafnvel það mikið til góðra hluta að við erum tilbúin að borga fyrir þá. Atferlishagfræðingurinn George Loewenstein bað háskólanemendur um að ímynda sér að þeir gætu fengið koss frá uppáhalds kvikmyndastjörnu sinni. Hann spurði þá síðan hversu mikið þeir væru tilbúnir að greiða fyrir koss frá viðkomandi núna eða síðar. Nemendurnir voru tilbúnir að borga mest fyrir koss sem þeir fengju eftir þrjá daga s.s. fyrir tækifærið til að bíða. Það að vænta einhvers leiðir til ánægju vegna eftirvæntingarinnar sem skapast. Bjartsýnir búast við fleiri kossum í framtíðinni og þessar væntingar auka vellíðan þeirra í dag.
Lykillinn að vellíðan er ekki litlar væntingar heldur frekar hæfnin til að túlka óvænta neikvæða útkomu á jákvæðan hátt. Við ættum að nota mistök sem tækifæri til að læra og bæta okkur, og baða okkur í væntingum.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 5. maí 2014.