Að stjórnast ekki af stjórnsemi annarra

Samskipti reynast okkur oft erfið og geta kostað okkur orku. Þetta á t.d. við um samskipti við stjórnsama einstaklinga sem reyna að hafa áhrif á hegðun okkar og taka af okkur öll ráðin.

Þeir hafa þörf fyrir að gagnrýna allt og alla. Þeir hunsa hæfileika, reynslu og rétt annarra, hafa skoðun á því sem við gerum og stjórna okkur með því að taka tilfinningar okkar ekki gildar ef þær samræmast ekki þeirra „reglum“.

Þeir byrja oft setningar á: „Veistu hvað þú þyrftir að gera?“ og halda svo áfram með því að segja okkur það. Þeir segja við okkur setningar eins og: „Ef þú gerðir nú bara eins og ég...“, „Ég borða með þér kvöldmat ef þú lofar að vera í stuði“, eða „Ég var búin(n) að segja þér þetta, en þú bara hlustar aldrei á mig.“ Þeir koma með óumbeðin ráð og fara í fýlu ef allt er ekki eftir þeirra höfði. Þeir reyna að setja okkur inn í fyrirfram smíðaðan rammann sinn og segja okkur hvernig við eigum að lifa lífi okkar. Þeir vilja halda í taumana á öllu og öllum og sætta sig ekki við þegar fólk hefur (aðrar) skoðanir. Athugasemdir þeirra geta verið allt að því móðgandi og oft segja þeir ekki það sem þeir meina heldur nota háð eða kaldhæðni. Stundum beita þeir hunsun eða svipbrigðum til að gefa til kynna að við séum ekki að gera eða segja það sem þeir vilja að við gerum eða segjum. Það versta er að þeir líta oft ekki á sjálfa sig sem stjórnsama, telja sig bara hafa rétt fyrir sér. Þeir telja sér jafnvel til tekna að vera „hreinskilnir“ eða segjast skipta sér af „af umhyggju“ fyrir okkur.

Fólk sem upplifir óöryggi og finnst það ekki vera við stjórn hefur tilhneigingu til að vilja stjórna öðrum. Undir niðri er það smeykt við að missa tökin þannig að það stjórnar smæstu atriðunum til að draga úr kvíða. Stjórnsamir einstaklingar eiga iðulega erfitt með að treysta öðrum eða afsala sér valdi til annarra. Oft eru þeir með lágt sjálfsálit.

Meðfylgjandi spurningar geta hjálpað þér við að átta þig á því hvort þú ert að takast á við stjórnsaman einstakling:

  • Heldur viðkomandi því fram að hann/hún viti hvað sé þér fyrir bestu?
  • Þarf viðkomandi að gera hlutina eftir eigin höfði?
  • Fyllist viðkomandi gremju þegar þú leyfir honum/henni ekki að hjálpa þér?
  • Er viðkomandi það ráðrík(ur) að þér finnst þú vera að kafna?
  • Veitir viðkomandi ítrekað ráð og leiðbeiningar óspurð(ur)?
  • Beitir viðkomandi afskiptaleysi, fýlu eða reiði til að hafa áhrif á hegðun þína?

Hér fyrir neðan eru nokkur ráð til að takast á við stjórnsamt fólk:

1. Forðastu að reyna að stjórna stjórnsömum einstaklingum
Láttu heyra í þér, en segðu þeim ekki hvað þeir eigi að gera. Vertu frekar ákveðin(n) en að sýna stjórnsemi. Sýndu sjálfstraust og neitaðu að vera í hlutverki fórnarlambsins. Vertu ávallt samkvæm(ur) sjálfum/sjálfri þér. Stjórnsamir einstaklingar eru sífellt að leita uppi valdabaráttu þannig að gott er að láta ekki smámálin ergja sig. Einblíndu á það sem skiptir þig verulegu máli frekar en að þrasa um atriði sem engu máli skipta.  

2. Nálgastu viðkomandi af hugulsemi
Þessa aðferð er gagnleg í samskiptum við góða vini eða þá sem eru móttækilegir fyrir endurgjöf. Ef einhver yfirgnæfir umræðuna er hægt að segja á hugulsaman hátt: „Ég kann að meta þínar athugasemdir en myndi líka vilja fá tækifæri til að tjá mínar.“ Viðkomandi er hugsanlega ekki meðvitaður/meðvituð um að hann/hún einokar umræðuna, og mun fúslega skipta um kúrs.

3. Settu skýr mörk
Ef einhver þreytist ekki við að segja þér hvernig þú ættir að takast á við eitthvað er gott að segja: „Ég virði ráðleggingar þínar, en myndi vilja takast á við þetta mál sjálf(ur).“ Hugsanlega þarf að minna viðkomandi á nokkrum sinnum á sama vingjarnlega hlutlausa tóninum. Ekki búast við skjótum kraftaverkum. Stjórnsamir einstaklingar gefast sjaldnast auðveldlega upp þannig að mikilvægt er að sýna þolinmæði. Með því að ítreka afstöðu þína breytist neikvætt hegðunarmynstur þeirra yfir tíma. Ef þú kemst í ógöngur er best að vera sammála um að vera ósammála og gera síðan þeim skýrt að þú viljir ekki ræða málið frekar.  

4. Veldu orrustur þínar
Ef yfirmaður þinn er stjórnsamur, og þú ætlar að halda starfinu, borgar sig ekki að stöðugt endurtaka það hversu andstyggilegur hann er eða ætlast til þess að hann breytist. Að spyrna við fæti og reyna að stjórna stjórnsömum einstaklingi mun aðeins skapa meiri streitu, eða þá jafnvel kosta þig starfið.

5. Forðastu meðvirkni
Taktu ekki fýlu eða reiði stjórnsams einstaklings inn á þig. Annað fólk á ekki að fá að stjórna því hvernig okkur líður. Við erum ekki að gera okkur greiða ef við leyfum því að hafa áhrif á okkar skap. Við berum ábyrgð á eigin líðan og hegðun. 

Mikilvægt er að hafa í huga að við höfum ekki vald til að breyta öðrum, nema að því leyti að við getum verið gott fordæmi og þannig haft áhrif á hegðun annarra. 

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 7. apríl 2014.