Að stuðla að aukinni vellíðan með aðferðum jákvæðrar sálfræði

Jákvæð sálfræði er vísindaleg nálgun sem beinir athyglinni að jákvæðum þáttum mannlegrar tilveru. Þetta eru þættir eins og styrkleikar, vellíðan, velgengni, þakklæti, seigla, gildi (dyggðir), von, jákvæðar tilfinningar, tilgangur, flæði, bjartsýni og hamingja.

Hún veltir fyrir sér hvað einkennir vel starfhæfa einstaklinga sem ná á farsælan hátt að þroskast og aðlagast ólíkum aðstæðum í lífinu.Hún finnur leiðir til að skapa umhverfi þar sem einstaklingar ná að blómstra og lifa sínu besta lífi.

Jákvæð sálfræði:

  • skoðar manneskjuna með það fyrir augum að finna hvað hún er að gera rétt (frekar en rangt), hvað reynist henni vel og hvað hún gæti gert enn betur.
  • reynir að útskýra þá staðreynd að þrátt fyrir erfiðleika og mótlæti geti meirihluti fólks haft tilgang með lífinu og lifað því með reisn.
  • skoðar hvað gerir lífið þess virði að lifa því og hvað stuðlar að innihaldsríku lífi.
  • er hvatning um að meta styrkleika frekar en veikleika.
  • rannsakar hvað einkennir manneskjuna þegar hún er upp á sitt besta.
  • færir okkur hagnýtar og gagnreyndar upplýsingar og aðferðir til að auka vellíðan.
  • skoðar hvernig samfélagið og stofnanir þess geta aukið vellíðan þegna sinna.
  • byggir á vísindalegum rannsóknum.

Jákvæða sálfræðin sameinar á einn vettvang það sem rannsóknir hafa leitt í ljós á jákvæðum og heilbrigðum einstaklingum. Með heitinu jákvæð sálfræði er ekki gefið í skyn að aðrar greinar sálfræðinnar séu neikvæðar, síður en svo. Mismunurinn felst aðeins í því að jákvæð sálfræði fæst meira við það sem er í lagi (plúsa) en það sem er í ólagi (mínusa). Hún færir hún áhersluna yfir á það að fjölga plúsum í stað þess að fækka aðeins mínusum. Hún er því ákveðin viðbót við hina hefðbundnu sálfræði og á sér sínar eigin skilgreiningar og hugtök.

Jákvæð sálfræði snýst ekki um ofuráherslu á jákvæðar hugsanir eða um það að takmarka litaspjald tilfinninga. Jákvæð sálfræði viðurkennir mikilvægi neikvæðra tilfinninga í ákveðnum aðstæðum. Að syrgja ástvin staðfestir t.d. hversu vænt okkur þótti um sambandið. Hamingja undanskilur ekki sorgina, án myrkurs væri erfitt að skilgreina birtuna. Jákvæð sálfræði snýst þar af leiðandi ekki um það að hlaða á sig innihaldslausum jákvæðum hugsunum eða vera í „Pollýönnuleik“ alla daga.

Jákvæðar æfingar

Út frá rannsóknum jákvæðrar sálfræði hafa verið þróuð ýmis inngrip eða æfingar sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðum tilfinningum, jákvæðri hegðun og jákvæðum hugsunum. Dæmi um æfingar sem hafa gefið góða raun eru þrír góðir hlutir, þakklætisdagbók, þrír fyndnir hlutir, að nýta styrkleika sína á nýjan hátt, að gera góðverk, og besta útgáfan af sjálfum sér. Hér fyrir neðan verður fjallað um nokkrar af þessum æfingum. 

Þrír góðir hlutir

Þessi æfing felst í því að skrifa niður daglega, í lok dagsins og í eina viku, þrjá góða hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver hafi verið þáttur manns í þeim. Æfingin breytir hugsunum fólks þannig að í stað þess að einblína á það sem fór úrskeiðis er einblínt á það sem gekk vel en sem er hugsanlega oft tekið sem sjálfsagður hlutur. Ástæðan fyrir því að mikilvægt er að skrifa niður hlutdeild manns í því sem gekk vel er að þetta beinir athyglinni að því hvernig við getum haft áhrif á daglegar jákvæðar upplifanir. Við erum erum ekki endilega mjög minnug um góða hluti, jafnvel þó að við getum talið þá upp. Það að hugleiða þátt okkar í góðu hlutunum leiðir til dýpri hugsana. 

Sýnt hefur verið fram á það með vísindalegum rannsóknum að þessi æfing eykur bæði vellíðan og dregur úr einkennum þunglyndis í sex mánuði á eftir. Margir þeirra sem prófa hana halda henni áfram.

Þakklætisæfing

Þessi æfing felst í því að í lok dagsins skrifar maður niður þrennt sem maður er þakklátur fyrir og hver hafi verið þáttur manns í því. Reglulegar og meðvitaðar þakklætishugsanir geta aukið vellíðan. Þakklæti stuðlar að því að við dveljum við og njótum jákvæðra upplifana og aðstæðna. Þetta snýst með öðrum orðum um að meta eins mikið og hægt það góða í lífinu. Þakklætisæfingar gera okkur kleift að takast betur á við mótlæti auk þess sem þær styrkja samskiptin. Þakklæti fer þar að auki illa saman við neikvæðar tilfinningar og dregur úr öfund, reiði og græðgi. Það að taka frá tíma til að þakka fyrir það sem maður er ánægður með og þakklátur fyrir eykur almenna ánægju með lífið.

Þrír fyndnir hlutir

Þessi æfing felst í því að skrifa niður daglega í eina viku þrjá fyndna hluti sem áttu sér stað yfir daginn og hver hafi verið þáttur manns í þeim. Rannsóknir hafa staðfest sterk tengsl milli húmors og lífsánægju. Hugsunin á bak við þetta er að húmor kalli fram gleði, sem er mikilvægur þáttur í jákvæðum tilfinningum og getur jafnframt veitt vörn gegn neikvæðum tilfinningum og upplifunum.

Æfingin tengist að mati rannsakenda tafarlausri og dýpri upplifun á jákvæðum tilfinningum, hlátri, brosi og aukinni glaðværð.

Að nýta styrkleika sína á nýjan hátt

Eitt af því sem fræðimenn hafa beint sjónum sínum að síðustu ár er styrkleikar fólks. Hvernig við getum áttað okkur á styrkleikum okkar, skerpt sýn okkar á þá og nýtt þá til að blómstra og verða hamingjusamari manneskjur. Þessi æfing snýst um að bera kennsl á styrkleika sína með því að taka styrkleikapróf, með styrkleikasamtali eða endurgjöf frá fjölskyldu, vinum og kunningjum og nota sína kjarnastyrkleika á nýjan hátt í eina viku. Vísindalegar rannsóknir hafa staðfest að það að nýta sína styrkleika á nýjan hátt eykur bæði vellíðan og dregur úr einkennum þunglyndis í allt að sex mánuði á eftir.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 29. ágúst 2016.