Óvissan sem einkennir þá krefjandi tíma sem við lifum á í dag getur haft í för með sér áhyggjur og kvíða.
„Mun ég eða einhver af mínum nánustu veikjast?“, „Mun ég halda vinnunni?“, „Hversu lengi mun faraldurinn standa yfir?“. Kvíði og áhyggjur eru eðlileg viðbrögð við þeim fáheyrðu aðstæðum sem við finnum okkur í.
Þegar áhyggjurnar verða hins vegar óraunhæfar eða ágengar geta þær haft skaðleg áhrif á líkamlega og andlega heilsu okkar. Við fáum hnút í maginn og blóðþrýstingur hækkar, við verðum orkulaus og finnst við vera hjálparvana. Eða við sofum illa og glímum við einbeitingarskort. Vandamálið er að áhyggjur eiga það til að stigmagnast og leiða til meiri áhyggna. Þegar áhyggjur sækja að okkur erum við ekki í núinu – við látum annað hvort sogast niður í kviksyndi fortíðarinnar („Hvers vegna fór ég í þessa fermingarveislu í síðustu viku?“) eða óttumst það sem framtíðin muni færa okkur („Hvað ef mér verður sagt upp?“). Við þurfum að átta okkur á því að óvissa er óhjákvæmilegur hluti af lífinu, burtséð frá kórónuveirunni. Veit einhver raunverulega hvað muni gerast á morgun, í næsta mánuði, á næsta ári eða jafnvel bara á næstu 10 mínútum?
Drögum athyglina að líðandi stund
Við erum hönnuð til að vera í núinu og takast á við áskoranir lífsins. Tökum íþróttir sem dæmi: Ef við værum ekki hönnuð til að takast á við óvissu myndu íþróttamenn aldrei fara út á völl, hoppa í sundlaugina eða skíða niður bratta brekku. Íþróttamenn takast á við óvissu á hverju augnabliki. Þeir spila leikinn. Alveg eins og íþróttamönnum er okkur ætlað að taka þátt í og láta berast með ánni með tilheyrandi ófyrirsjáanleika og óvissu. Annars yrðum við kyrr, föst á bökkum árinnar, og hefðum áhyggjur af því sem við værum að fara að gera.
Til að geta tekist á við óvissuna sem fylgir áskorunum eins og kórónuveirunni þurfum við tæki og tól. Hér fyrir neðan eru þrjár gagnlegar aðferðir:
1. Komdu þér upp aðferð til að hætta að hafa áhyggjur
Næst þegar þú tekur eftir því að áhyggjur sækja að þér er gott að sjá fyrir þér stoppmerki eða heyra viðvörunarbjöllu í huganum. Veltu síðan fyrir sér hvort áhyggjurnar skili einhverju. Svarið verður að öllum líkindum „Nei“.
2. Komdu þér aftur í núið
Áhyggjur varða yfirleitt fortíð eða framtíð: „Hvers vegna keypti ég ekki nóg af grímum í síðustu viku?“ eða „Hvað mun gerast ef ég verð ekki kominn með vinnu eftir mánuð?“ Til að koma þér aftur í núið er gott að anda djúpt niður í maga, jarðtengja þig og taka eftir hvernig þér líður í stað þess að vera upptekinn af flæði hugsana þinna.
3. Hugleiddu hvað þú getur gert fyrir aðra
Eitt af því mest gefandi sem við getum gert er að hjálpa öðrum. Lokaðu augunum og sjáðu fyrir þér vin, ættingja, vinnufélaga eða einhvern sem þú hefur ekki hitt lengi. Veltu síðan fyrir þér hvað þú gætir gert fyrir viðkomandi sem myndi auðvelda líf hans eða draga úr streitu. Það er gagnlegt að einbeita sér að öðrum.
Þegar við stöldrum við, kyrrum hugann og einbeitum okkur að öðrum verða áhyggjurnar að engu.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 8. september 2020.