Ég óska öllum lesendum Pressupistlanna minna gæfuríks árs. Nýtt ár færir okkur ný tækifæri. Hvernig væri að beina sjónum okkar að því að draga úr þeirri sóun sem tengist lífsvenjum okkar?
Á hverjum degi tökum við margar ákvarðanir um innkaup og neyslu sem hafa áhrif á umhverfið og samfélagið. Neyslumynstur okkar og lífsstíll ræður miklu um þróun umhverfismála. Við berum öll ábyrgð á að ganga vel um jörðina og skila henni af okkur í góðu ástandi til næstu kynslóða. Við eigum jú bara þessa einu jörð.
Við sem einstaklingar getum náð meiri árangri í umhverfismálum m.a. með því að:
- flokka sorp (plast, pappír og pappa, málma, gler og steinefni, spilliefni og raftæki, og timbur).
- skila áldósum og plast- og glerflöskum fyrir drykkjarvörur á endurvinnslustöð eða í gám til styrktar góðu málefni.
- fá okkur jarðgerðartunnu fyrir lífrænan úrgang.
- nota fjölnota innkaupapoka og fjölnota ávaxta- og grænmetispoka. Samkvæmt Umhverfisstofnun eru árlega um 70 milljónir plastpoka notaðir eða um 1.120 tonn af plasti. Niðurbrot plastsins tekur nokkrar aldir.
- draga úr plastnotkun, t.d. með því að kaupa ávexti og grænmeti í lausasölu í stað þess að kaupa það sem pakkað er inn í plastumbúðir.
- nota fjölnota kaffimál og nestisbox.
- hjóla, ganga eða nota almenningssamgöngur.
- fjárfesta í umhverfisvænni bifreið.
- nota þvottasnúrur fyrir þvottinn í stað þess að nota þurrkara.
- draga úr rafmagnsnotkun, m.a. með því að kaupa sparperur eða LED perur og hafa aldrei kveikt í herbergi þar sem enginn er.
- kaupa endurnýtanlegar rafhlöður frekar en einnota.
- afþakka fjölpóst.
- vinna gegn matarsóun með því að gera góðar áætlanir varðandi innkaup og matseld og borða matarafganga í stað þess að henda mat.
- frysta matvæli til að forðast að þau renni út í ísskápnum.
- rækta eigið grænmeti og kryddjurtir.
- draga úr kjötneyslu en það er ein skjótvirkasta og einfaldasta leiðin til að leggja baráttunni gegn hlýnun jarðar lið.
- kaupa svansmerktar vörur en Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.
- skila fötum og öðrum vefnaðarvörum (gluggatjöldum, handklæðum, sængum, koddum o.fl.) í grenndargám Rauða krossins eða á endurvinnslustöð Sorpu.
- fara með gamla muni sem eru enn nothæfir og seljanlegir í Góða hirðinn þar sem þeir geta öðlast nýtt líf.
- kaupa vandaðar vörur sem endast.
- kaupa notaðar vörur og gefa þeim nýtt líf.
- nota umhverfisvænar hreingerningarvörur.
- afþakka reikninga á pappír og taka við þeim rafrænt
- einfalda líf sitt og tileinka sér mínimalískan lífsstíl. Kaupa einfaldlega minna af öllu.
Eins og sjá má er umhverfisvernd daglegt verkefni hvers og eins. Umhverfisvænn lífsstíll er á allra færi. Ef við leggjumst öll á eitt getur breytt neyslumynstur bætt lífsgæði okkar allra.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 2. janúar 2017.