Að trúa á sjálfan sig og aðra

Einu sinni var strákur sem útskrifaðist úr menntaskóla með hæstu einkunn og sótti síðan um inngöngu í háskóla. Hann þurfti að taka inntökupróf og nokkrum vikum seinna fékk hann bréf um að hann hefði komist inn og hlotið 99 stig.

Hann var ánægður með það að komast inn í háskólann, en óánægður með þessi 99 stig, sem hann hélt að væri greindarvísitala hans. Hann vissi að meðalgreindur maður er með um 100 stig og fannst hann ekki vera hæfur til að stunda háskólanám með svo takmarkaða greind. Hann féll ýmist eða rétt náði prófum og að lokum kallaði námsráðgjafinn hann tíl sín. Strákurinn útskýrði misgóðan árangur sinn með því að benda á greindarvísitalan væri nú ekki nema 99 og að það væri því ekki furða að honum skyldi ekki ekki ganga vel. Námsráðgjafinn áttaði sig á misskilningnum og útskýrði muninn á greindarvísitölu og prófstigum. Þessi 99 stig þýddu að hann hefði fengið jafnmörg stig eða fleiri en 99% allra þeirra sem tóku prófið! Þegar strákurinn gerði sér grein fyrir misskilningnum hóf hann að stunda námið af nýjum krafti og fullur sjálfstrausts. Hann útskrifaðist síðan með þeim tíu hæstu í sínum árgangi. Þetta sannar orð Henry Ford sem sagði: "Hvort sem þú telur þig geta það eða ekki, þá hefur þú rétt fyrir þér."

Að sjá það góða í öðrum
Það er ekki aðeins mikilvægt að trúa á sjálfan sig og eigin getu heldur einnig að sjá það góða í öðrum og láta vita af því því hrós af einlægni er besta leiðin til að kenna og hvetja fólk. Í bókinni See You at The Top eftir Zig Ziglar er sagt frá skólameistara í Texas sem ákvað að fara að stað með sérstakt prógramm fyrir þá nemendur sem stóðu sig vel en enginn tók eftir. Á einu skólaári kallaði hann 500 nemendur á teppið. Fyrstu viðbrögð þeirra voru oftast: "Hvað gerði ég af mér?", þeir bjuggust við að verða skammaðir og rakkaðir niður. En í staðinn hrósaði hann þeim fyrir það sem þeir gerðu vel. Afleiðingarnar voru mjög áberandi: Nemendurnir lærðu að þeir gátu líka fengið viðurkenningu fyrir jákvæða en ekki aðeins neikvæða hegðun. Viðhorf nemendanna batnaði því að þeir kunnu að meta viðurkenninguna. Kennararnir urðu að einblína á hið jákvæða í fari nemendanna í stað þess að horfa aðeins á hið neikvæða. Fólk hættir að leggja sig fram ef sífellt er verið að rífa það niður. Einu sinni var fimm ára stelpa með mjög fallega söngrödd. Hún var mikið beðin um að syngja, t.d. í skólanum og í kirkjunni. Til þess að bæta sig fór hún í söngkennslu til kennara sem krafðist toppframmistöðu allan tímann og var með mikla fullkomnunaráráttu. Hann benti bara á það neikvæða, allt það sem væri ekki nógu gott og sem hún ætti að laga. Þetta leiddi til þess að hún missti sjálfstraustið og hvatninguna og hætti að syngja.

Fáum það sem við búumst við
Margar rannsóknir hafa verið gerðar á mikilvægi þess að sjá það góða í fólki. Við Harvard háskólann t.d. var gerð tilraun með rottur. Í rannsókninni tóku þátt þrír hópar af nemendum og þrír hópar af rottum. Við fyrsta hóp nemendanna var sagt: Þetta eru afar greindar rottur, þær borða mikinn ost og munu komast í gegnum völundarhúsið á mettíma. Við annan hópinn var sagt: Þetta eru miðlungsrottur, þær eru ekki mjög greindar en ekki vitlausar heldur. Þær munu líklega komast í gegnum völundarhúsið og borða einhvern ost, en ekki bera of miklar væntingar til þeirra. Við þriðja hópinn var sagt: Þetta eru afspyrnu lélegar rottur. Ef þær komast þá í gegnum völundarhúsið þá er það hrein tilviljun. Þessar rottur munu ekki standa sig vel. Það er líklega ekki nauðsynlegt að kaupa ost, málið þið bara mynd af osti til að hengja upp í völundarhúsinu. Tilraunin tók sex vikur og niðurstöðurnar voru nákvæmlega eins og kennarinn hafði sagt: Framúrskarandi árangur hjá greindustu rottunum, miðlungsárangur hjá þeim sem höfðu miðlungsgreind og rotturnar með minnstu greindina náði litlum árangri. Rotturnar stóðu sig nákvæmlega eins og búist hafði við af þeim. Það skemmtilega í þessari rannsókn var þó að þetta voru allt saman miðlungsrottur. Eini munurinn var viðhorf nemendanna gagnvart þeim. Nemendurnir komu öðruvísi fram við rotturnar þar sem þau sáu þær ekki eins. Þeir uppskáru eins og þeir sáðu. Sambærilegar tilraunir hafa verið gerðar í skólum og á vinnustöðum með svipaðar niðurstöður.

Lífið er eins og bergmál: Við fáum það sem við gefum. Það sem við sendum frá okkur, kemur aftur. Við uppskerum eins og við sáum. Uppskera dagsins í dag er afleiðing þess sem við sáðum í fortíðinni. Ef við viljum uppskera í framtíðinni verður við að sá fræjum í dag.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Viðskiptablaðinu 18. desember 2002.