Allt er í heiminum hverfult og breytingar eru óhjákvæmilegur hluti af lífi hvers og eins. Þær geta verið jákvæðar eða neikvæðar og ræður þar mestu hvernig við lítum á þær.
Breytingar eru árangursríkastar þegar maður ákveður sjálfur að breytast, t.d. þegar maður tekur þá ákvörðun að fara í nám eða skipta um starf.
Erfiðara reynist oft að taka þátt í breytingum sem einhver annar ákveður, eins og t.d. þegar skipulaginu á vinnustað er breytt eða þegar tekin er ákvörðun um nýtt tölvukerfi. Að ákveða að breytast er val, að neita að breytast sömuleiðis. Ljóst er að hraði breytinganna er að aukast.
Það sem getur komið breytingum af stað er m.a. óánægja með núverandi ástand, t.d. þegar maður er óánægður með líkamlegt ástand sitt eða þegar vinnustaður fær of lágt mat frá viðskiptavinum í þjónustukönnun. Sá metnaður að ná lengra og láta drauma sína rætast getur einnig verið hvati að breytingum. Dæmi um slíkar breytingar er þegar einstaklingur setur sér það sem markmið að ná sér í háskólagráðu eða fara upp á Hvannadalshnúk, eða þegar menntastofnun setur sér það markmið að vera meðal bestu 100 háskóla í heimi.
Flest erum við bundin í viðjum vanans og ekki mjög hrifin af breytingum. Við gerum hlutina eins án þess að velta því fyrir okkur hvernig eða hvers vegna. Við keyrum sömu leið í vinnuna, eigum okkar sæti í mötuneytinu og borðum alltaf sama matinn á mánudögum. Við erum oft á sjálfsstýringunni af því að það er þægilegt og veitir okkur öryggi. Við þurfum þá ekki að hugsa eða taka flóknar ákvarðanir. Við erum vanaföst og höldum okkur á öryggismottunni af því að okkur líður vel þar.
Flestum breytingum fylgir óvissa. Við vitum hvað við höfum í dag en ekki hvað við fáum eftir breytingarnar. Þessi óvissa skapar oft efa og ótta, sem rekur okkur inn fyrir vellíðunarmörkin þannig að við höldum fast í gamlar venjur og streitumst jafnvel markvisst gegn breytingunum. Það er vegna þess að í okkur blundar ákveðin þörf fyrir stöðugleika. Óöryggi og ótti við hið ókomna er hins vegar sammannlegur. Það er eðlileg tilfinning að ótti grípi um sig þegar maður heldur út í hið óþekkta. Við óttumst að hið óþekkta raski jafnvægi okkar eða umhverfi og búumst við hinu versta.
Eftirfarandi atriði geta gert okkur færari í að takast á við breytingar:
- Líttu á breytingarnar sem tækifæri. Þó að breytingar reyni á þolrifin leynast oft í þeim ótalmörg tækifæri sem mikilvægt er að koma augu á. Maður þarf bara að setja upp réttu gleraugun til að sjá þau. Okkur vegna betur því fyrr sem við lögum okkur að breyttum aðstæðum.
- Láta jákvæðni stjórna hugsuninni. Kannski kemur breytingin manni algerlega á óvart og ef það sem gerist er ekki jafn jákvætt og maður vænti þá gerir það bara ekkert til því lífið heldur áfram. Ef maður er jákvæður laðar maður að sér það sem jákvætt er.
- Taktu stjórn á aðstæðunum í stað þess að vera fórnarlamb. Við erum ekki viljalaus verkfæri eða leiksoppur örlaganna heldur getum tekið virkan þátt og fært okkur breytingarnar í nyt.
- Einblíndu á möguleikana, frekar en að einblína á allt sem þú munt þurfa að missa eða kveðja. Breytingar eru þroskandi og veita okkur tækifæri til að sjá eitthvað nýtt. Þær geta leitt til farsældar þó að við sjáum það kannski ekki á stað og stund.
- Notaðu húmor til að létta lundina. Að hafa húmor er gulls ígildi. Hann léttir lífið og gerir allt ánægjulegra.
- Taktu ábyrgð á sjálfum þér. Við sköpum okkar eigið líf og hugarástand og berum ábyrgð á okkur sjálfum á allan mögulegan hátt. Að bera ábyrgð á sjálfum sér felur í sér að maður tileinki sér virka afstöðu til lífsins.
- Vertu góður samstarfsmaður, með því að bera ábyrgð á öðrum, vera til staðar og veita samstarfsmönnum stuðning og hvatningu.
- Lærðu að lifa með því að sumt er ekki á valdi manns að breyta. Það er skýr boðskapur og eilífur sannleikur í æðruleysisbæninni:
Guð, gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og visku til að greina þar á milli.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Tollpóstinum í júní 2009.