Tilgangur frétta er m.a. að upplýsa fólk og virkja. En þegar við heyrum stöðugt um bága stöðu spitalans, hækkandi smittölur, loftslagsbreytingar, hneykslismál og átök fáum við gallaða mynd af heiminum.
Segja má að ofgnótt neikvæðra frétta sé eins og andleg mengun. Neikvæðar fréttir skapa hjá okkur ranghugmyndir, kvíða, neikvæðni og vanmáttarkennd. Þegar við tökum stöðugt inn neikvæðar fréttir líður ekki langur tími þangað til við verðum orðin tilfinningalega ónæm, áhugalaus og sinnulaus.
Flytjum lausnamiðaðar fréttir
Uppbyggileg fjölmiðlun (e. constructive journalism) er vaxandi svið innan fjölmiðlunar sem felur í sér að flytja lausnamiðaðar fréttir í stað þess að flytja eingöngu neikvæðar sögur sem byggjast á ágreiningi og átökum. Hún notar hugtök úr jákvæðri sálfræði og er svar við aukinni æsifréttamennsku og neikvæðri hlutdrægni fréttamiðla. Um er að ræða nálgun sem miðar að því að veita fréttaneytendum sanngjarna, nákvæma, raunhæfa og samhangandi mynd af heiminum, án þess að leggja of mikla áherslu á hið neikvæða og það sem miður hefur farið.
Uppbyggileg fjölmiðlun breytir hlutverki fjölmiðlamanna, markmiðum þeirra og áherslum. Eftir að hafa gegnt hlutverki lögreglumanns (skjalfesta sönnunargögn) og hlutverki dómara (rannsaka gögnin og dæma) mun hinn uppbyggilegi fjölmiðlamaður fara út fyrir vandamálið og leitast við að skilja neytendur eftir innblásna, vongóða og áhugasama. Uppbyggileg fjölmiðlun kannar mögulegar lausnir á þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir og varpar ljósi á tækifæri og ný sjónarmið. Hún miðar að því að koma á jafnvægi með því að einblína á jákvæð dæmi og lausnir og segja frá framförum og árangri jafnt sem vandamálum. Enda engin ástæða til að segja bara helming sögunnar. Heimurinn er jú ekki svartur og hvítur heldur mismunandi grár. Markmiðið með þessari yfirveguðu nálgun er að skipta út vanlíðan og vanmáttarkennd fyrir innblástur og von um betri framtíð.
Uppbyggileg fjölmiðlun er ekki valkostur við blaðamennsku heldur viðbótarskref, eins og kemur fram í töflunni hér fyrir neðan:
STÓRFRÉTTIR | RANNSÓKNARBLAÐAMENNSKA | UPPBYGGILEG FJÖLMIÐLUN | |
TÍMI | Núið | Fortíðin | Framtíðin |
MARKMIÐ | Hraði | Kenna um | Innblástur |
SPURNINGAR | Hvað? Hvenær? | Hver? Hvers vegna? | Hvað nú? Hvernig? |
STÍLL | Dramatískur | Gagnrýninn | Forvitinn |
HLUTVERK | Skjalfesta | Dæma | Greiða fyrir samtali og umræðum |
FÓKUS | Drama | Glæpamenn og fornarlömb | Lausnir og bestu leiðir |
- Spurningavalið fer út fyrir hinar hefðbundu blaðamannaspurningar eða Hv-spurningarnar fimm (hvað, hvenær, hvers vegna og hver) og yfir í hvað nú, hvernig, hvað er að virka?
- Viðtöl breytast frá því að vera ásakandi og yfir í forvitnileg og opin
- Stíll fréttamennskunnar færist frá dramatískum og gagnrýnum yfir í forvitinn
- Samband fjölmiðlamanna og fréttaneytenda breytist úr því að dreifa upplýsingum í að greiða fyrir samtalinu við sérfræðinga og valdamenn.
Ekki bara ofuráhersla á jákvæðar fréttir
Mikilvægt er að taka fram að uppbyggileg fjölmiðlun leggur ekki bara áherslu á að draga fram góðar fréttir, eins og t.d. þegar ketti er bjargað úr tré eða leikskólabörn syngja íslenskt dægurlag á erlendu tungumáli. Hún er ekki áróður eða blind jákvæðni. Hún snýst heldur ekki um það að hunsa vandamál eða forðast að spyrja gagnrýninna spurninga. Uppbyggileg fjölmiðlun er alvöru blaðamennska. Hún rannsakar lausnir til jafns við vandamál.
Hvers vegna þurfum við uppbyggilega fjölmiðlun?
Í fyrsta lagi er uppbyggileg fjölmiðlun góð leið til að ná fram breytingum. Rannsóknir á sviði jákvæðrar sálfræði hafa sýnt að uppbyggilegar, lausnamiðaðar fréttir eru eftirminnilegri og mun líklegri til að hvetja lesendur til að leggja sitt af mörkum til samfélagsins (t.d. með því að gefa til góðgerðarmála, minnka kolefnisspor sitt eða taka þátt í opinberri umræðu) en eingöngu neikvæðar fréttir.
Í öðru lagi vill fólk frekar lesa uppbyggilegar fréttir. Þó að fréttir með neikvæðum fyrirsögnum fái oft fleiri smelli sýna rannsóknir er uppbyggilegum sögum er oftar deilt. Vinsælasta tístið árið 2017 var sem dæmi ekki frá Trump heldur innihélt jákvæð ummæli frá Obama þar sem hann fagnaði fjölbreytileikanum og fordæmdi hatur.
Í þriðja lagi er mikil eftirspurn eftir uppbyggilegum fréttum, sérstaklega meðal ungs fólks. Könnun BBC World Service meðal fólks yngra en 35 ára sýndi sem dæmi að tveir þriðju þeira vilja frekar fréttir sem segja frá lausnum á vandamálum en ekki bara vandamálunum. Í könnun Guardian kom einnig fram að lesendur eru mun áhugasamari um að heyra jákvæðar sögur um loftslagsbreytingar en sögur um neikvæðar afleiðingar þeirra. Fólk lokar í auknum mæli á fréttir sem skapa hjá því vonleysi og aðgerðaleysi.
Uppbyggileg fjölmiðlun gagnast samfélaginu öllu
Fjölmiðlamenn þurfa að gera sér grein fyrir því að þeir hafa mikla ábyrgð. Þeir hafa áhrif á hvernig við hugsum og hvaða skoðanir við myndum. Þeir geta breytt því hvernig við sjáum heiminn og einnig aukið trú okkar á getu okkar til að breyta honum. Það er skylda þeirra að stuðla að umræðu um betri framtíð og hugmyndir sem geta gert heiminn að betri stað.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á 24.is þann 29. nóvember 2021.