Fundur fólksins er lífleg tveggja daga lýðræðis- og stjórnmálahátíð sem verður haldin 2. og 3. september 2016 í Norræna húsinu.
Slegið verður upp tjaldbúðum þar sem hin ýmsu félagasamtök, stjórnmálaflokkar, stofnanir og fyrirtæki verða með starfsemi og þjóðþekktir einstaklingar stjórna sjóðheitum umræðum.
Hátíðin er vettvangur til að virkja lýðræðið og brúa bilið milli stjórnmálamanna og fólksins í landinu.
Á fundinum verður baráttuhópurinn París 1,5 með umræðufund. Markmið Parísar 1,5 er að Ísland standi við loforðið frá Parísarsamkomulaginu um að gera það sem þarf til að tryggja að hitastig á jörðinni hækki ekki meira en sem nemur 1,5°. Hópurinn ætlar að tryggja að umræður verði teknar um loftslagsmálin og aðgerðir ræddar í aðdraganda kosninganna í haust. Á fundinum verður farið lauslega yfir stöðu loftslagsmála á Íslandi og hvað þurfi að gerast til að árangur náist. Í lok fundarins verða fulltrúar stjórnmálaflokkanna spurðir að því sem þeir telja brýnt að gera.
Baráttan við loftslagsbreytingar af mannavöldum er það viðfangsefni sem nú ber hæst. Afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni eru alvarlegar; hitastigið hækkar, gróðurbelti færast til, yfirborð sjávar hækkar vegna bráðnunar jökla og flóðahætta eykst á ýmsum frjósömum og þéttbýlum svæðum. Auk þess kunna að verða breytingar á lífsskilyrðum í sjó vegna breytinga á straumum, sýrustigi og seltu. Það er því mikið í húfi og að óbreyttu er ekkert annað framundan en náttúruhamfarir af óþekktri stærðargráðu með hrikalegum afleiðingum fyrir líf á jörðinni.
Það er kominn tími á alvöru stefnu og öflugar aðgerðir. Við sem þjóð erum eftirbátur þeirra þjóða sem við berum okkur saman við. Sem dæmi þá ætla Norðmenn að banna allar bifreiðar sem aka á jarðefnaeldsneyti árið 2025. Svíþjóð vinnur af fullum krafti að því að verða kolefnishlutlaust árið 2035.
Það er margt sem hægt er að gera til að takast á við loftslagsvandann:
- Skipa ráðherra loftslagsmála í næstu ríkisstjórn.
- Fullgilda viðauka 6 við Marpol samkomulagið til að tryggja að þau skip sem sigla í íslenskri landssögu brenni ekki verstu tegund af olíu.
- Hætta allri olíuleit og stöðva allar hugmyndir um olíuvinnslu tafarlaust.
- Ákveða að eftir árið 2025 verði innflutningur bifreiða sem brenna jarðefnaeldsneyti bannaður og háður sérstökum undanþágum.
- Tryggja ívilnanir til 2025 fyrir kaupum á farartækjum sem nota vistvænt eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis.
- Setja í forgang að hraða allri innviðauppbyggingu sem ýtir undir þróun yfir í vistvænt eldsneyti.
- Nota skattkerfið til hins ítrasta til að stýra hegðun neitenda, t.d. lækka skatta á allt sem er visvænt og hækka skatta á brennslu jarðefnaeldsneytis.
- Ráðherrar og embættismenn sýni gott fordæmi og aki allir á bifreiðum sem flokkast sem vistvænar.
- Byggja innviði fyrir frekari notkun hjóla og tryggja góðar almenningssamgöngur.
- Endurheimta votlendi í samstarfi við bændur.
- Draga úr allri sóun og fylgja fordæmi Frakka sem banna stórmörkuðum að henda vörum.
- Rýna í fjárlögin með „loftslagsgleraugum“ í anda „kynjaðra fjárlaga“ til að tryggja að hámarksárangur náist.
- Efla ræktun á innlendum vörum og ýta undir kaup á vörum úr nærumhverfi.
- Veita grænmetisbændum allan þann stuðning sem þarf til að sinna innanlandsmarkaði.
- Draga úr framleiðslu og neyslu á kjöti.
- Stórefla rannsóknir á áhrifum súrnunar í hafinu við strendur landsins og undirbúa áætlun til að takast á við fyrirsjáanlegar breytingar á lífríki hafsins sem hafa áhrif á fiskistofna.
- Hætta að nota verga landsframleiðslu og hagvöxt sem mælikvarða til að mæla hagsæld og skoða aðra mælikvarða í anda þess sem gert er í Bútan.
- Ýta úr vör öllum þeim ágætu tillögum sem Alþingi samþykkti einróma árið 2012 um Eflingu græna hagkerfisins.
Loftslagsmálin snerta nær alla fleti okkar samfélags. Ég vona að áhugasamir láti sig þessi mál varða og mæti á umræðufund Parísar 1,5 þann 2. september n.k.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 18. ágúst 2016.