Yfirleitt er bjartsýnismaður talinn vera sá sem sér það góða í öllu og öllum og horfir á björtu hliðarnar – glasið er alltaf fullt hjá honum. Pollýanna er fyrirmynd hans og hann er sannfærður um að hann muni upplifa góða hluti.
Rannsóknir til tuttugu ára hafa hins vegar staðfest að bjartsýni gengur miklu dýpra en menn héldu áður. Að sögn Martin Seligman, upphafsmaður jákvæðrar sálfræði, er undirstöðu bjartsýni ekki að finna í jákvæðum fullyrðingum heldur í því hvernig við hugsum og útskýrum orsakir. Seligman heldur því fram að við höfum öll tilhneigingu til að nota ákveðinn hugsunarstíl til að útskýra það sem gerist í lífi okkar. Við þróum þennan stíl í æsku og höldum okkur við hann það sem eftir er ævinnar. Hugsunarstíllinn virkar eins og viðmið sem við notum til að útskýra fyrir sjálfum okkur hvers vegna hlutir, bæði slæmir eða góðir, hendi okkur.
Seligman telur að það séu þrjár almennar víddir sem við notum til að túlka líf okkar; 1) varanlegt vs. tímabundið (alltaf/ekki alltaf); 2) almennt vs. sértækt (allt/ekki allt) og 3) innri vs. ytri skýring (ég/ekki ég).
1. Varanlegt vs. tímabundið
Þeir sem hafa tilhneigingu til að útskýra atburði á neikvæðan hátt gera ráð fyrir að ef eitthvað fari úrskeiðis þá verði það þannig áfram í framtíðinni. Ef þeir halda t.d. lélega ræðu ganga þeir út frá að þeir muni ekki bæta sig á því sviði. „Það þýðir ekkert fyrir mig að sækjast eftir þessum samningi, ég mun hvort sem er klúðra kynningunni eins og vanalega.“
Þeir sem hafa tilhneigingu til að útskýra hlutina á jákvæðan hátt segja einfaldlega við sjálfa sig að þeim muni ganga betur næst. „Ég hefði átt að undirbúa mig betur í dag – en auk þess voru áhorfendur nýbúnir að borða frekar þungan hádegismat og þar af leiðandi ekki mjög líflegir. Næst undirbý ég mig betur og reyni að fá betri tíma fyrir kynninguna.“
Dr. Karen Reivich deilir sannfæringu Seligmans um mikilvægi hugarfars og kallar sína útgáfu „alltaf vs. ekki alltaf“. Nemandi sem útskýrir fall á prófi með því að segja „Ég er heimskur“ hefur t.d. „alltaf“-sýn á vandamálið. Hann álítur vandamálið muni vara yfir tíma og mun líklega nálgast upptökuprófin á svartsýnan hátt. Bekkjarbróðir hans sem fellur einnig á prófinu en segir: „Ég lærði ekki nóg undir þetta próf“ hefur „ekki alltaf“-sýn og er líklegri til að líta næstu próf bjartsýnni augum.
2. Almennt vs. sértækt
Þegar hlutir fara úrskeiðis hjá svartsýnismönnum hafa þeir tilhneigingu til að alhæfa um mistök sín:
- Ég verð aldrei góður í golfi.
- Ég er glatað foreldri.
- Engum í yfirstjórninni líkar við mig.
Bjartsýnismenn aftur á móti líta sömu atburði sem sértækt mótlæti:
- Ég spilaði ekki vel á sunnudaginn, en ég var líka ekki búinn að æfa lengi vegna meiðsla.
- Ég hef ekki varið nógu miklum tíma með dóttur minni undanfarnar þrjár vikurnar.
- Yfirmanni mínum líkar ekki við mig en mér semur vel við hina í yfirstjórninni.
3. Innri vs. ytri skýring
Þegar hlutirnir fara úrskeiðis hafa svartsýnismenn tilhneigingu til að kenna sjálfum sér um og leita orsaka innra með sér á meðan bjartsýnismenn kenna ytri aðstæðum um. Ef þú ert of seinn á fund og þú kennir umferðinni um þá er um að ræða „ekki ég“-útskýringu en ef þú segir: „Ég lagði of seint af stað á fundinn“ þá er um að ræða „ég“-útskýringu.
Þegar bjartsýnismaður stendur andspænis mótlæti hefur hann tilhneigingu til að segja: „ekki ég“, „ekki alltaf“, „ekki allt“. Þegar slæmir hlutir gerast einblínir hann á orsök vandamálsins, aðstæður sem er hægt að breyta og sem eru frekar sértækar og ekki líklegar til að leiða til fjölda annarra vandamála. Ef maður aftur á móti lítur á sjálfan sig sem orsök vandamálsins, og telur aðstæðurnar vera langvarandi og líklegar til að skapa vandamál í öðrum þáttum lífsins þá er um að ræða meira svartsýnt viðhorf.
Þar sem hér er um að ræða hugarfar en ekki persónueinkenni getum við lært að verða bjartsýnni með því að breyta því hvernig við hugsum. Við höfum með öðrum orðum val um það hvort við viljum vera svartsýn eða bjartsýn.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 20. mars 2014.