Hversu oft hefurðu heyrt setningar eins og „þolinmæði þrautir vinnur allar“, „maður verður bara að bíta á jaxlinn“, og „sigurvegarar gefast aldrei upp“?
Líklega hefurðu ekki eins oft heyrt sagt að stundum sé gott að hætta þegar eitthvað virkar ekki og byrja á einhverju nýju. Það að gefast aldrei upp er nefnilega talin dyggð í menningu okkar. Það er hins vegar list að vita hvenær maður eigi að segja það gott þegar kemur að stærri markmiðum í lífi og starfi. Maður þarf að hafa framsýni, kjark og trú til að enda eitthvað sem er ekki að virka, eða þegar maður brennur ekki lengur fyrir því.
Að hætta einhverju af því að maður finnur sig ekki lengur í því er yfirleitt auðveldara en að hætta einhverju sem er ekki að virka. Þegar það síðastnefnda á í hlut er vont að hætta of snemma eða of seint en því miður er oft erfitt að finna rétta tímapunktinn. Þegar eitthvað er ekki að ganga upp þrátt fyrir töluverða viðleitni, t.d. í starfi, í námi, í sambandi eða við að læra nýja færni, er hugsanlega kominn tími til að gefa það upp á bátinn. Segjum sem svo að þú sért á raunvísindabraut í framhaldsskólanum og hafir reynt að að standast próf í stærðfræði. Þú hefur farið í aukakennslu og lagt mjög mikið á þig en ekki haft árangur sem erfiði. Þá væri gott að taka eftirfarandi þrjú atriði til skoðunar:
- Geturðu fundið þér nýtt markmið á öðru sviði? Það er auðveldara að skipta um braut en að halda áfram að eltast við upprunalega námið. Ef þú hefur t.d. líka áhuga á sálfræði væri hægt að skipta yfir á félagsfræðibraut.
- Hver er fórnarkostnaðurinn? Ef þú hefur fjárfest mikið í verkefninu getur það verið hindrun í að hætta því. En það gæti kostað þig jafnvel enn meiri tíma, orku og pening að halda því áfram ef afraksturinn verður svo enginn.
- Hvaða tækifæri ertu að missa af? Hver einasta önn á raunvísindabraut er tími sem er ekki varið í nám á öðru sviði sem gæti skilað þér meiru og gert þig ánægðari.
Að hætta með reisn
Það sem getur komið í veg fyrir að við hættum einhverju getur verið mögulegt álag við að skapa sér nýja sjálfsmynd, félagsleg skömm eða vanþóknun annarra. Þess vegna skiptir máli hvernig við segjum frá ákvörðun okkar:
- Taktu skýra ákvörðun. Ef þú sýnir fram á að þú hafir hugsað þetta vel og ákveðið að þú finnir þig ekki lengur í því sem þú varst að gera eða sért sannfærð(ur) um að þú munir ekki ná tilætluðum árangri er auðveldara fyrir aðra að skilja ákvörðun þína og virða hana.
- Ákveddu næstu skref. Ef þú ert með skýra sýn á það sem tekur við getur það skapað jákvæðari viðbrögð hjá fólki. Það getur jafnvel verið betra að segja: „Ég ætla að gefa mér smá tíma til að ákveða næstu skref“ en að segja: „Ég hef ekki hugmynd“.
- Gakkstu við ákvörðuninni og vertu hreinskilin(n). Við höfum oft áhyggjur af því að missa andlitið þegar við hættum einhverju sem er ekki að ganga. Það tekur kjark en skapar virðingu að segja: „Ég ætla að loka veitingastaðnum af því að hann gengur ekki vel og ég sé enga möguleika á að snúa rekstrinum við.“
Mikilvægt er að hafa í huga að það að mistakast eitthvað er ekki það sama og að vera misheppnaður.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 12. maí 2014.