Ein stærsta áskorun kvenna á vinnumarkaðinum um áraraðir hefur verið að rjúfa þá ósýnilegu hindrun sem konur rekast í þegar þær vilja komast til frekari áhrifa og sem kölluð hefur verið “glerþakið”.
Þótt mörgum finnist miða hægt hefur vissulega þó nokkur árangur náðst á undanförum áratugum og fjöldi þeirra kvenna sem skipa áhrifamiklar stöður í fyrirtækjum, stjórnmálum og stjórnum fyrirtækja hefur aukist jafnt og þétt. Samt sem áður hafa konur enn takmörkuð völd. Rannsókn Credit Info frá 2009 sýndi t.d. að konur voru 19,8% stjórnarmanna hlutafélaga og hlutdeild kvenna í atvinnulífinu á Íslandi var algeng í kringum 20% sem framkvæmdastjórar, stjórnarformenn, stjórnarmenn, prókúruhafar og stofnendur fyrirtækja. Hlutfall kvenna í varastjórnum hlutafélaga var hins vegar 51%.
Aukinn fjöldi kvenna á vinnustað auðgar atvinnulífið en getur einnig skapað nýjar áskoranir, m.a. vegna þess að munur er á samskiptaháttum karla og kvenna.
Einkenni samskipta kvenna
Í bók sinni Woman‘s Inhumanity to Women nefnir Phyllis Chesler geðlæknir og prófessor í sálfræði og kvennafræðum nokkur atriði sem einkenna samskipti kvenna:
- Konur eiga það til að hafna því að þær séu kappsfullar. Ástæðan fyrir því er að þær eru aldar upp í því að tilfinningar eins og öfund og fjandskapur séu ekki „kvenlegar“. Judy Rosener prófessor í viðskiptadeild við Háskólann í California heldur því fram í grein sinni Sexual Static að þetta byrji strax í uppeldinu þar sem komið er fram við stelpur og stráka á mismunandi hátt. Það sé búist við því af strákum að þeir séu háværir og fyrirgangssamir. Af stelpum sé vænst að þær séu samvinnufúsar og liprar í samskiptum. Strákar taka upp prik og nota það sem byssu á meðan stelpur nota það sem töfrasprota. Opin samkeppni er á bannlista hjá konum og því er kappsfull hegðun þeirra oft falin og birtist í formi baktals, klíkumyndunar og útilokunar.
- Konur læra frá blautu barnsbeini að það að tilheyra hópnum og samskipti við fólk séu mikilvægari en að skara fram úr eða standa á rétti sínum. Konur leggja meiri áherslu á samvinnu og liðsheild en karlar. Þær einblína á samskipta- og þátttökustjórnun og dreifða ákvarðanatöku.
- Konur vænta þess frekar af konum en körlum að þær veiti þeim stuðning og hvatningu. Þær vilja vinna á vinnustað sem einkennist af skilningi, persónulegum tengslum og heiðarlegum samskiptum.
- Konur taka gagnrýni öðruvísi en karlar. Þær eiga það til að taka ágreining persónulega og upplifa yfirgang frá öðrum konum sem svik.
- Oft er gripið til gamla orðatiltækisins Konur eru konum verstar þegar konur deila. Konur gera oft miklar og óraunhæfar væntingar til annarra kvenna og dæma kynsystur sínar harðar en samstarfsmenn af hinu kyninu. Rannsóknir á atvinnuviðtölum hafa t.d. leitt í ljós að ef ráðningarviðtal er framkvæmt af karl og konu þá á konan það til að gefa kvenumsækjendum lægra mat en karlinn gefur þeim á meðan þau gefa karlumsækjendum sambærilegt mat. Konur eiga líka oft erfitt með að sætta sig við aðrar konur í forystuhlutverkum og eru miklu harðari við þær en karlarnir.
Atriði sem standa í vegi fyrir starfsframa kvenna
Í könnun Catalyst, sem er rannsóknar- og ráðgjafarfyrirtæki sem einbeitir sér að málefnum kvenna var spurt hvernig konur gæti aukið árangur sinn. 61% svarenda sögðu að konur þyrftu að þróa með sér kröftugri samskiptastíl. Höfundar könnunarinnar nefna tíu atriði sem geta komið í veg fyrir að konur veljist til forystu:
- Að kinka kolli of mikið. Með því að kinka kolli erum við að segja: “Ég heyri hvað þú ert að segja. Ég skil þig.” Hægt er að mistúlka þetta sem samþykki við hugmyndir. Að kinka kolli í sífellu getur verið upplifað sem veikleiki og getur leitt til misskilnings.
- Að setja spurnartón í röddina í lok setningar hljómar hikandi eins og verið sé að spyrja spurningar. Þetta getur dregið úr trúverðugleikanum og eykur hættu á að verða ekki tekin alvarlega. Mikilvægt er að tónhæð lækki í lok setningar þar sem hækkun tónhæðar þýðir óvissu eða spurningu á meðal lækkun tónhæðar er frekar merki um yfirlýsingu.
- Veik málnotkun. Að setja fram yfirlýsingu og biðja síðan um staðfestingu, eins og t.d.: “Þetta er fín hugmynd, finnst þér ekki?” “Er þetta ekki frábær vara?”, getur dregið úr áhrifum. Vafaorð eins og “sumir”, “bara”, “vonandi” og “ég held” eru dæmi um veika málnotkun. Mikilvægt er að tjá sig með öryggi í orðavali og draga ekki úr afrekum sínum.
- Að leyfa öðrum að grípa fram í. Rannsóknir hafa sýnt að karlar grípa oftar fram í og konur láta oftar taka af sér orðið. Þær beygja sig oft undir orð karla og tala líka yfirleitt skemur á opinberum samkomum.
- Að tjá sig ekki að fyrra bragði. Sumar konur bíða þangað til þær fá orðið í stað þess að vekja athygli á sér og biðja um orðið. Mikilvægt er að láta skoðun sína skýrt í ljós og taka virkan þátt í umræðum. Þetta getur verið eins einfalt og að undirstrika það sem einhver annar sagði eða bæta einhverju nýju við.
- Að tala of lágt. Konur halda sig of meira til baka og trana sér ekki fram með orðavali og tónhæð. Að tala lágt er hins vegar merki um óöryggi eða skort á sjálfstrausti. Ef áheyrendur þurfa að leggja við hlustir missa þeir áhugann. Það dregur úr sannfæringarkrafti og athygli ef hugmyndir eru settar fram með óstyrkum rómi.
- Að leyfa öðrum að eigna sér hugmyndir. Algeng kvörtun kvenna er að karlmenn eigni sér hugmyndir þeirra. Þegar þetta gerist er mikilvægt að láta í sér heyra með því að segja t.d.: “Fyrirgefðu, ég nefndi þetta fyrir mínútu síðan.”
- Veik líkamstjáning. Líkamsmál er tungumál án orða en getur þó sagt meira en nokkuð annað tungumál. Líkamshreyfingar eins og að yppa öxlunum, halda ekki augnsambandi, krossleggja fætur, vera á sífelldu iði og veikt handaband eru merki um óöryggi. Það sama á við þegar konur hlæja óstyrkum hlátri til að taka broddinn úr því sem þær segja, halla undir flatt eða brosa. Mikilvægt er að sýna tjáningu sem endurspeglar öryggi.
- Að forðast ræðuhöld. Að koma fram fyrir framan hóp af fólki er tækifæri til að vera sýnileg og fá athygli. Því er mikilvægt fyrir konur að yfirstíga óttann og láta ljós sitt skína með því að taka til máls á fundum og hafna t.d. ekki boðum um viðtöl.
- Óviðeigandi klæðnaður. Of háir hælar, fleginn bolur, stutt pils og of áberandi andlitsfarði getur haft neikvæð áhrif á starfsframa kvenna og dregið úr virðingu og trúverðugleika. Klæðnaðurinn þarf að endurspegla hlutverkið.
Konur og karlar hafa mismunandi reynsluheim. Þau tala um aðra hluti, leika sér á annan hátt, lesa annars konar bækur og hafa mismunandi sýn á hlutina. Það er hins vegar styrkur frekar en veikleiki. Mikilvægt er að ná að nýta sér hæfileika kynjanna til fulls og laða fram það besta hjá báðum.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í 5. tbl. Frjálsrar verslunar 2010.