Við mannfólkið höfum þann ótrúlega hæfileika að geta ferðast fram og aftur í tíma. Þetta gerir okkur kleift að læra af mistökum, íhuga hegðun okkar og sjá fyrir okkur og skipuleggja framtíðina.
Philip Zimbardo, prófessor emeritus í sálfræði við Stanford háskóla, staðhæfir að lykillinn að góðu lífi sé rétt sjónarhorn hvað varðar tímann. Mikilvægt sé ekki aðeins að vita hve miklum tíma við verjum í fortíð, nútíð og framtíð heldur einnig að geta tengt sig við þessi mismunandi tímabil á jákvæðan hátt.
Tvær spurningar geta hjálpað okkur við að taka betri ákvarðanir og lifa lífinu til fulls: 1) Stígðu aftur í tíma og veltu fyrir þér hvað fjögurra ára sjálfið myndi vilja og 2) Stígðu fram í tíma og veltu fyrir þér hvað 80 ára sjálfið myndi segja.
1) Hvað myndi fjögurra ára sjálfið vilja?
Það er ekki augljóst að átta sig á því hvað óþroskað sjálf myndi gera í aðstæðum sem kalla á innsæi og skynsemi. Þó er það oft ástæða þess að við verðum ofgreiningum að bráð, aftengjumst því sem við þráum heitast og gerum það sem aðrir ætlast til af okkur. Við réttlætum ótta okkar, rökstyðjum ástæður okkar fyrir að halda okkur á mottunni og forðumst ákveðnar aðstæður undir þeim formerkjum að það sé það besta í stöðunni.
Spurningin um hvað fjögurra ára sjálfið myndi vilja gerir okkur berskjölduð þegar við stöndum andspænis ringulreið, einmanaleika eða pirring. Við tengjumst heitustu þrám okkar og löngunum, því sem við stöndum fyrir og þeim styrkleikum og þeirri ástríðu sem togar í okkur.
2) Hvað myndi 80 ára sjálfið segja?
Þrátt fyrir að það getur verið áskorun að sjá 80 ára sjálfið fyrir sér án þess að upplifa skort á tengingu við sjálfan sig er gagnlegt að fá framtíðarsjálfið til ræða við sig og tengjast þannig visku þess, hugrekki og sjónarhorni. Dr. Paul Gilbert, prófessor við háskólann í Derby á Englandi, kallar þessa fróðari útgáfu af sjálfum okkur „velvildarsjálfið“. Rannsóknir sýna að það að tengjast velvildarsjálfinu gerir okkur kleift að sýna hugrekki í óvissuaðstæðum og nálgast okkur með opnum huga þegar okkur verður á. Í ljósi þess hve dugleg við erum að rakka okkur niður akkúrat þegar við þurfum mest á okkur að halda er ljóst að við þurfum öll á áttræðu sjálfi að halda. Við nýtum oft ekki tækifæri sem bjóðast af því að við óttumst óvissu eða erum með hörmungahyggju og ímyndum okkur það versta sem gæti gerst.
Áttatíu ára sjálfið hefur upplifað þetta allt og getur sefað óttann, fullvissað okkur um að allt verði í lagi og gefið okkur kraft. Það getur verið okkar besti leiðsögumaður.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2019.