Oft upplifum við mótlæti og áskoranir sem við mætum á lífsleiðinni sem vonda atburði. Þetta herrans ár 2020 hefur kennt okkur að jafnvel bestu áætlanirnar eru háðar duttlungum örlaganna.
Heimurinn er í sárum og óöryggi, óstöðugleiki, ófyrirsjáanleiki og breytingar eru alls ráðandi. Ekki eru þó allir vegatálmar slæmir – sérstaklega ef þeir gefa okkur tækifæri til að staldra við og meta þá vegferð sem við erum á.
Til að nýta okkur mótlætið þurfum við að finna leið fram hjá vegatálmunum. Þetta er ekki alltaf auðvelt og ekki nema eðlilegt að vilja halda í það sem hefur reynst okkur vel hingað til. Þessa dagana erum við öll á einn eða annan hátt að ganga í gegnum umbreytingu. Í bók sinni Managing Transitions frá árinu 2003 skilgreinir William Bridges þrjú þrep umbreytinga:
1. Endalok
Það sem allar umbreytingar eiga sameiginlegt er endalok – endalok sambands, starfs, markmiða eða drauma. Þær hafa í för með sér viðskilnað við fortíðina og krefjast þess að við sleppum hendinni af því gamla. Kannski höfum við fengið uppsagnarbréf eða þurft að hætta rekstri. Eða verið full tilhlökkunar að byrja í framhaldsskóla en erum núna í fjarkennslu á meðan félagslífið hefur verið sett á bið. Væntingar hafa brugðist. Flutningur á milli landa eða landshluta innifelur einnig endalok. Töluverður sársauki getur verið fólginn í því að kveðja gömlu sjálfsmyndina og það er eðlilegt að vera sorgmæddur, reiður eða ringlaður.
Eina leiðin til að skapa rými fyrir eitthvað nýtt er að sleppa því sem var eða virkar ekki (lengur). Gagnlegt getur verið að telja upp allt sem muni breytast eða verða öðruvísi og velta síðan fyrir sér hvað sé hægt að gera til að koma aftur jafnvægi á það sem hefur verið tekið í burtu eða breyst. Gott ráð er einnig að ímynda sér hvað 80 ára sjálfið myndi segja eða ráðleggja. Áttatíu ára sjálfið hefur upplifað allt og getur sefað óttann, fullvissað okkur um að allt verði í lagi og gefið okkur kraft. Það getur verið okkur góður leiðsögumaður.
2. Hlutlausa svæðið
Tímann milli þess sem var og verður - þegar hið gamla er farið en hið nýja ekki orðið fyllilega sýnilegt og virkt - kallar Bridges hlutlausa svæðið eða tómarúmið. Þetta tímabil er kjarninn í umbreytingaferlinu og grunnurinn að nýju upphafi. Hlutlausa svæðið einkennist oft af kvíða, ráðaleysi, sinnuleysi og óöryggi en er einnig tími endurnýjunar, sköpunar, nýrra tækifæra og nýrrar sýnar. Í tómarúminu getur brugðið til beggja vona.
Til að komast í gegnum hlutlausa svæðið er mikilvægt að sætta sig við það að vera ekki búinn að finna út úr öllu. Ef við treystum ferlinu munum við sjá ljós við enda ganganna. Hlutlausa svæðið getur fært okkur ný svör við gömlum vandamálum og frábært tækifæri til að læra nýja hluti.
3. Nýtt upphaf
Þriðja þrepið er þegar maður er tilbúinn að skoða tækifærin sem heimurinn færir manni. Hvaða tækifæri felast í því að leita sér að nýju starfi eða stofna nýtt fyrirtæki? Hvernig er hægt að nýta styrkleika sína til að fóta sig á nýjum stað? Hvaða tækifæri felast í fjarkennslu eða fjarvinnu? Upphafið felur í sér nýjan skilning, ný gildi, nýja sjálfsmynd og ný viðhorf. Nýju upphafi fylgir iðulega spenningur, orka, lærdómur og innblástur. Gott er að nota sjónsköpun og sjá hið nýja fyrir sér ljóslifandi og í eins mörgum smáatriðum og hægt er. Þannig er hægt að skapa í huganum það sem við þráum í raunveruleikanum.
Umbreytingar krefjast hugrekkis, þolinmæði og þess að við gefum huganum tækifæri og rými til að endurskipuleggja sig. Við getum ekki farið beint frá því gamla til þess nýja heldur þurfum að dvelja í tómarúminu. Um er að ræða ferð frá einni sjálfsmynd til annarrar og hún tekur tíma. Við förum mishratt í gegnum umskiptin. Ýmis atriði geta haft áhrif á hraðann eins og fyrri reynsla og hvort við höfðum sjálf frumkvæði að breytingunum.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Kjarnanum 4. nóvember 2020.