Gleymum ekki minninu

Þekkir þú tilfinninguna að þurfa að berjast við að rifja upp hluti, eins og nafnið á myndinni á Netflix sem þú horfðir á í gær eða hvar þú lagðir bíllyklana frá þér? 

Eða hefur þú labbað inn í herbergi og velt fyrir þér hvað þú ætlaðir að gera þar? Þú ert líklega ekki ein(n) um það.

Minnið er margbrotið og gerður er greinarmunur á ólíkum afbrigðum þess. Þegar við gúgglum en munum ekki hvað við vorum að leita að er það skammtímaminnið sem bregst okkur. Skammtímaminnið geymir aðeins upplýsingar í 20-30 sekúndur og því má líkja við vinnsluminni tölvunnar. Í langtímaminninu, sem má líkja við harða diskinn, eru geymdar upplýsingar sem hafa varðveist í lengri eða skemmri tíma. Ef þú manst ekki afmælisdegi góðs vinar eða notaðir sólgleraugu í gær en finnur þau ekki í dag tengist það langtímaminninu. Svefn er stór áhrifaþáttur þegar kemur að langtímaminninu. Með aldrinum verða breytingar á minninu sem geta haft áhrif á hæfni okkar til að læra nýja hluti, halda einbeitingu og muna hluti.

Streita og kvíði eru eitur fyrir minnið
Sálfræðileg fyrirbæri eins og streita og kvíði geta skert minnisgetu. Þegar við erum undir miklu eða langvarandi álagi er algengt að við gleymum hlutum. Viðbragð líkamans við álagi er að auka framleiðslu svokallaðra streituhormóna eins og adrenalíns og kortisóls, sem hjálpa okkur við að takast á við álag en geta haft neikvæð áhrif á athyglisgáfuna og minnisgetu. Undir álagi neitar heilinn að taka við nýjum upplýsingum og varðveita nýjar minningar. Kvíði truflar vitræna virkni okkar og eykur árvekni, sem hefur þau áhrif að við veitum neikvæðum hlutum meiri athygli, eins og t.d. óvæginni færslu á fésbókinni eða dónalegum tölvupósti sem kemur okkur í uppnám. Þegar heilinn einblínir á slíkar truflanir á hann erfiðara með að fá aðgang að því sem hefur varðveist í minninu.

Höldum minninu í toppformi
Við getum gert ýmislegt til að halda minninu í góðu formi:

  • Regluleg hreyfing eykur framleiðslu á endorfíni sem dregur úr áhrifum streitu á líkamann.
  • Hollur og næringarríkur matur sem er ríkur af andoxunarefnum er góður fyrir minnið.
  • Hugleiðsla og jógaæfingar draga úr áhrifum streitu og róa taugakerfið.
  • Slökun er jafn mikilvæg fyrir heilabúið og hreyfing.
  • Félagsleg virkni hjálpar til við að halda heilanum virkum.
  • Góður og nægur svefn hefur áhrif á hversu vel heilinn getur munað hluti.
  • Það borgar sig að gera eitt í einu því þegar við gerum margt í einu eigum við erfiðara með að muna upplýsingar.
  • Minnisaðferðir eru gagnlegar, eins og að setja bíllyklana alltaf í skálina á stofuborðinu, segja hlutina upphátt eða skrá niður það sem við þurfum að muna.
  • Minnisleikir eins og t.d. sudoku, krossgátur eða þjálfunartölvuforrit eins og Lumosity og Peak eru hönnuð til að bæta minni og einbeitingu.
  • Að læra nýja hluti hefur einnig jákvæð áhrif á minni okkar.

Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist í Morgunblaðinu 2. október 2020.