Margar rannsóknir hafa sýnt að vellíðan fólks eykst þegar það gerir eitthvað fallegt fyrir aðra. Þetta geta verið hlutir eins og að kaupa kaffi handa samstarfsmanni, gera húsverk fyrir fjölskyldumeðlim eða aðstoða nágranna með garðinn sinn.
Katherine Nelson-Coffey, sem er dósent í sálfræði við Sewanee: The University of the South í Tennessee, ákvað að skoða áhrifin á vellíðan þegar folk gerir eitthvað fyrir aðra samanborið við þegar það gerir eitthvað fyrir sjálft sig.
Þátttakendum var skipt í fjóra hópa, sem fengu nýjar leiðbeiningar í viku hverri í fjórar vikur samtals. Hópur 1 átti að gera vel við sig, eins og að sinna áhugamáli, fara í heitt bað, fá sér gott raunvínsglas o.s.frv.). Hópur 2 fékk þau fyrirmæli að gera góðverk fyrir aðra, eins og t.d. að heimsækja eldri fjölskyldumeðlim eða halda á innkaupapokum fyrir einhvern. Þriðji hópurinn átti að gera eitthvað til að bæta heiminn, eins og t.d. að fara með gömul föt í fatasöfnun, gefa blóð eða láta pening renna til góðgerðarstarfsemi. Hópur 4 átti einfaldlega að skrá niður daglegar hafnir.
Í hverri viku skráði þátttakendur niður hvað þeir gerðu í vikunni á undan sem og upplifun sína á neikvæðum og jákvæðum tilfinningum. Í byrjun og í lok rannsóknarinnar og tveimur vikum eftir að rannsókninni lauk svöruðu þeir spurningalista sem innihélt spurningar um sálfræðilega, félagslega og tilfinningalega vellíðan.
Niðurstöðurnar voru sláandi. Þeir sem gerðu góðverk fyrir aðra upplifðu fleiri jákvæðar tilfinningar eins og hamingju, gleði og ánægju. Þessar jákvæðu tilfinningar höfðu þau áhrif að þátttakendur blómstruðu og juku vellíðan sína.
Þeir sem gerðu vel við sig sýndu ekki sömu aukningu á jákvæðum tilfinningum. Reyndar var enginn munur hvað varðar jákvæðar og neikvæðar tilfinningar hjá þessum hópi og hópnum sem skráði niður daglegar athafnir.
Þessar niðurstöður þýða ekki endilega að við ættum ekki að einblína á eigin þarfir og óskir og gera vel við okkur annað slagið. Niðurstöðurnar gefa hins vegar sterklega til kynna að ef við viljum auka vellíðan þá er besta leiðin að gera eitthvað fallegt fyrir aðra frekar en að fá sér aukakökusneið.
Greinarhöfundur: Ingrid Kuhlman. Birtist á Pressunni 28. september 2016.